Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nýr kjarasamningur – leiðrétting vegna hagvaxtarauka í ræstingum

Taxtar fyrir tímamælda og flatarmælda ákvæðisvinnu í ræstingum hækka afturvirkt frá 1. apríl 2022 vegna hagvaxtaraukans. Um er að ræða atriði sem samið var um í nýjum samningi við ríkið, en þessi hópur hafði setið eftir hvað varðar launahækkanir frá 1. apríl í fyrra. Sjá nánar á bls. 1 og 2 í Kjarasamningi SGS og ríkisins.

Fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum frá kl. 08–20 mánudaga til föstudaga greiðist eftirfarandi tímakaup, sbr. gr. 1.6.1.1:

Frá 1. apríl 2022: 2.426,43 kr.

Frá 1. apríl 2023: 2.672,47 kr.

 

Fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum aðra tíma vikunnar, þó ekki kl. 00:00-08:00, greiðist eftirfarandi tímakaup, sbr. gr. 1.6.1.2:

Frá 1. apríl 2022: 2.927,24 kr.

Frá 1. apríl 2023: 3.224,06 kr.

 

Fyrir flatarmælda ákvæðisvinnu í ræstingum greiðist eftirfarandi, sbr. gr. 1.6.2.1:

Gólfræsting

Fiml.hús

Salerni

Frá 1. apríl 2022

 

592,26 kr.

513,48 kr.

667,73 kr.

 

Frá 1. apríl 2023

652,32 kr.

565,55 kr.

735,44 kr.

 

Sjá nýja kauptaxta SGS.

 

 

 

Nýr kjarasamningur við ríkið samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 15. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 16.-21. júní. Á kjörskrá voru 1.418 manns og var kjörsókn 24,26%. Já sögðu 92,44%, nei sögðu 4,65% og 2,91% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu

Kjarasamningur SGS og ríkisins 2023-2024

Góð mæting á 1. maí baráttuhátíð á Selfossi

 

Góð mæting var í kröfugöngu í tilefni 1. maí.  Ganga fór frá Austurvegi 56 kl. 11:00 í morgun.  Lúðrasveit Selfoss og Hestamannafélagið Sleipnir leiddu gönguna að Hótel Selfoss þar sem skemmtun fór fram og var boðið upp á veitingar.
Ræðumenn dagsins voru Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir útskriftarnemi frá Fjölbrautarskóla Suðurlands. Þau fluttu frábærar ræður í tilefni dagsins. Benedikt Búálfur söng og skemmti börnunum og Valgeir Guðjónsson flutti nokkur lög. Kynnir var Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ræða Sigríðar:

1. maí ræða

Kæru áheyrendur og verkalýður allur, til hamingju með daginn. Sigríður Fjóla heiti ég og fæ þann heiður að ávarpa ykkur hér á frídegi verkalýðsins, sem er nauðsynlegur og táknrænn dagur í baráttu verkafólks fyrir mannsæmandi kjörum.

Ég viðurkenni að ég þurfti að afla mér upplýsinga þegar að það kemur að þessum degi. Ég hef alltaf vitað að einhverju leiti um hvað hann snýst, lært um hann í skólanum og í daglegu lífi en sem barn veitti ég honum kannski ekki eins mikla athygli og hann á skilið því sem börn lifum við flest áhyggjulaus og gerum okkur ekki grein fyrir alvarleika heimsins. Hins vegar núna eftir að maður eldist fer maður að átta sig smám saman á því hvað það þarf mikið af fólki til að leyfa barni að lifa áhyggjulausu lífi. Það eru ekki bara foreldrar sem sjá um það heldur samfélagið allt og án verkafólks myndi þetta samfélag alls ekki ganga. Öll störf eru mikilvæg annars væru þau ekki til því af hverju ætti að vera til starf sem væri tilgangslaust. Það var einmitt það sem ég áttaði mig á þegar að ég fór að leita mér upplýsinga um verkalýðsdaginn og hefur það opnað augun mín talsvert. Það sem vakti enn frekari forvitni mína þegar ég fór að skoða þetta betur, er hvernig þetta byrjað allt. Af hverju kom það til að fyrsti maí var tileinkaður baráttudegi verkalýðsins. Ég komst að því að saga dagsins næði langt aftur í tímann en upphaf hans má rekja til ráðstefnu Alþjóðasamtaka Sósíalista í París árið 1889. Sú ráðstefna var haldin að því tilefni að hundrað ár voru þá liðin frá Frönsku byltingunni. Á þessari ráðstefnu var ákveðið að verkafólk þyrfti sinn eigin dag, baráttudag, og varð fyrsti maí fyrir valinu sem Alþjóðlegur frídagur verkafólks. Upphaflega hugmyndin var sú að verkafólk myndi halda fjöldann allan af fundum víðs vegar þennan dag til að fylgja eftir kröfum um átta stunda vinnudag og sem aðrar umbætur á kjörum sínum. Áður en 1. maí var helgaður baráttu verkalýðsins hafði hann verið haldin hátíðlegur víðs vegar um heiminn sem sumardagurinn fyrsti. Það var þó ekki fyrr en þrem áratugum eftir fundinn í París sem baráttan kom formlega til Íslands en fyrsta kröfuganga verkalýðsins var gengin þann 1. maí árið 1923 sem þýðir að þessi sýnilega og táknræna barátta verkalýðsins fagnar 100 ára afmæli í dag. Við megum vera stolt að því.

Margt hefur breyst á þessum hundrað árum ef ekki hreinlega allt. Fyrir 100 árum var Ísland sjómanna- og bændasamfélag að lang mestu leiti. Þá snerist lífið um að lifa af en ekki endilega um að njóta. Á þessum tíma fékk fæst fólk mikið val og oftast var það ekki möguleiki fyrir fólk að mennta sig. Fólk fæddist inn í ákveðnar stéttir og algengast var að afla sér lífsviðurværis á sama máta og foreldrar, það voru ekki margir möguleikar á boðstólnum. Þetta hefur hins vegar breyst algjörlega og stendur núverandi yngsta kynslóð, mín kynslóð, fyrir miklu opnari og meiri möguleikum. Stundum eru möguleikarnir svo margir að fólk fær valkvíða og veit ekki hvað það á að velja, þetta er algjört lúxus vandamál sem ungt fólk stendur frammi fyrir í dag. Við fáum þessi tækifæri því að fyrri kynslóðir börðust fyrir þeim, börðust fyrir meiri menntun til handa öllum, börðust fyrir skólaskyldu sem við nú höfuð þau forréttindi að hafa. Það sem var verið að

berjast fyrir þá er núna orðin venjulegur hlutur í okkar samfélagi sem flestir taka sem sjálfsögðum hlut. Svo sjálfsögðum að fólk skrópar stundum í skóla og reynir að komast undan honum, jafnvel kvartar í staðinn fyrir að hugsa um hvað það er heppið að fá að ganga í skóla þar sem lang flestir sem hafa ekki þau tækifæri víða í heiminum myndu gera allt fyrir að fá að vera í skóla í einn dag.

Núna í vor er ég að ljúka minni framhaldsskólagöngu en eitt af þeim verkefnum sem ég gerði í skólanum var að lesa bókina ,,Ég er Malala” og þegar ég skrifaði þessa ræðu var mér hugsað til hennar. Í dag er hún 25 ára. Hún var eitt af þeim börnum sem þráði að fara í skóla en það var hægara sagt en gert þar sem enn þann dag í dag er stúlkum yfir 13 ára bannað að ganga í skóla í heimalandi hennar. Hún þurfti að gjalda þess að hafa barist fyrir skólagöngu stúlkna, var skotin í höfuðið aðeins 14 ára gömul en lifði af. Svona sögur eru enn þá allt of algengar í heiminum í dag. Þær láta mann þó hugsa, hugsa hversu ótrúlega heppin við erum að búa hér á Íslandi því einhversstaðar í heiminum gæti verið stelpa, fædd sama ár og ég ,2004, verið með jafn mikla hæfileika og með sömu langanir og þrár en eini munurinn á okkur er að við fæddumst í sitthvoru landinu. Hún fæðist kannski í landi sem bæði matur og vatn er af skornum skammti, það er engin skóli í boði og jafnvel stríð. Svo fæðist ég hér, leggst upp í hlýtt rúm á hverjum degi, skortir aldrei vatn né mat og kvarta yfir því að ég nái ekki að gera stærðfræði heimanámið mitt. Frekar ættum við að vera þakklát, þakklát fyrir að fá allavega að fara í stærðfræði því við vitum, þótt við viljum ekki að viðurkenna það, að sú fræðsla eins og allt nám muni draga okkur lengra í framtíðinni. Við gerðum ekkert til að verðskulda það að fæðast hér og stúlkan í hinu landinu gerði ekkert til að verðskulda það að fæðast í því landi. Við getum farið út í búð og keypt okkur nýjar buxur fyrir mörgþúsund krónur án þess að hugsa á meðan að þessi stelpa kannski býr til buxurnar og fær lítil sem engin laun fyrir. Laun stelpunnar þurfa jafn vel að halda uppi heilli fjölskyldu. Það er ekki sanngjarnt, alls alls ekki sanngjarnt. Þess vegna er ekki nóg að berjast bara fyrir fólki á Íslandi, heldur um allan heim því staðan er svo slæm á mörgum stöðum. Ísland hefur þó náð árangri í baráttunni og þótt en sé langt í land getum við verið þakklát og stolt að vera komin þetta langt.

Ég persónulega er þakklát, þakklát fyrir að hafa fæðst á Íslandi, þakklát að geta gengið í skóla, þakklát fyrir öll tækifærin sem skólinn hefur veitt mér og þakklát fyrir að alast upp á þessum tíma. Og það er ykkur að þakka. Takk fyrir að berjast fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Baráttan er ekki búin og mun líklega aldrei ljúka, það má aldrei sofna á verðinum. Við munum berjast fyrir réttindum alls fólks því allir, hver og einn einasti aðili, eru jafn mikilvægir. Sama hvernig við lítum út, hvern við elskum, á hvað við trúum, hvort við séum menntuð eða ekki og við hvað við vinnum. Öll erum við mikilvæg og allar vinnur eru mikilvægar. Ef ekki væri fyrir fólk sem vinnur í sjávarútvegi værum við ekki með fisk sem er ein stærsta auðlind landsins. Heilbrigðiskerfið mundi ekki virka nema fyrir fjöldan allan af fjölbreyttum störfum innan þess geira, ekkert eldsneyti væri í boði ef ekki væri fyrir bílstjóra sem sjá um að dreifa því, án

leikskólakennara gæti ýmsir aðrir ekki sinnt sinni vinnu og án kennara yfirleitt gætum við ekki menntað okkur. Það þarf fjölbreytt störf til að gera fjölbreytt og skemmtilegt samfélag. Fjölbreytt störf þurfa að vera til svo úr verði velferðarsamfélag. Það gleymist líka oft að þótt að einhver eigi mikinn pening þýðir það ekki að hann sé hamingju samur og öfugt. Hins vegar er bara alls ekki sanngjarnt að einhver hafi það lítinn pening á milli handanna vegna lágra launa að hann eigi erfitt og nánast ómögulegt með að eiga fyrir helstu lífsnauðsynjum t.d. húsnæði og mat. Það á ekki að vera í boði að líta niður á störf bara því þau krefjast minni menntunar og það má heldur ekki gleyma því að fólk sem hefur ekki hlotið menntun er alveg jafn klárt og annað fólk. Oft fékk það ekki tækifæri á að mennta sig eða eitthvað stóð í vegi fyrir því. Svo vilja sumir ekki mennta sig, hafa ekki áhuga eða finnst menntun ekki vera fyrir þá, það er líka allt í lagi því öll erum við misjöfn og þótt að eitthvað eitt henti einum þarf það ekki að henta öðrum.

Við þurfum að hætta að dæma hvort annað því þannig munu baráttur ekki ná árangri, og þá á ég við allar baráttur ekki bara baráttu verkafólks. Við verðum að hætta að dæma, við þurfum að geta talað saman án gífuryrða, við þurfum að geta staðið saman. Standa saman í baráttunni t.d. um hinseginmálefni, femínisma eða black life matters. Það er víða verið að heyja ýmsar baráttur sem er tilkomnar vegnar nauðsynjar. Með því að dæma hvert annað erum við að standa í vegi þess að búa í heimi þar sem allir eru jafnir og þar sem allir fá að taka það pláss sem þeir þurfa.

Þess vegna á slagorð baráttu launafólks í ár vel við en það er: Réttlæti – jöfnuður- velferð.

Enn og aftur, til hamingju með daginn og takk fyrir mig.

 

Ræða Breka:

Gleðilegan fyrsta maí!

Kæru félagar!

Það er mér sannur heiður að fá að standa hér og fá að ávarpa ykkur í dag á þessum hátíðardegi, baráttudegi verkalýðsins.

Öll erum við neytendur og einmitt þess vegna er baráttan fyrir bættum rétti neytenda barátta okkar allra. Verkalýðs- og neytendabaráttan hafa þannig

ætíð farið hönd í hönd. Enda má segja að réttindi neytenda og launþega sé sitthvor hlið á sama peningi. Önnur snýst um að hvernig fjár er aflað, hinn um að hvernig því er varið.

Neytendasamtökin fagna í ár 70 ára afmæli, líklega fjórðu elstu neytendasamtök í heimi, og hefur saga samtakanna verið samofin stéttarfélögunum frá fyrstu tíð. Þegar Neytendasamtökin voru stofnuð árið 1953, var eitt af fyrstu verkefnum að stuðla að samræmdum opnunartíma verslana í samvinnu við VR, sem þá hét Verslunarmannafélag Reykjavíkur.

Allar götur síðan hafa Neytendasamtökin átt í góðu sambandi og samstarfi við stéttarfélögin. Til að nefna nýleg dæmi má benda á baráttuna gegn smálánaóáraninni, lögsóknir gegn bönkunum sem nú eru í gangi vegna sjálftöku og ógagnsæis lána með breytilegum vöxtum, og boðaða skýrslu um tryggingamarkaðinn og sem vonandi leiðir til þess lækkunnar iðgjalda tryggingafélaga, okkur öllum til hagsbóta..

Þó saga Neytendasamtakanna spanni 70 ár má segja að neytendabaráttan eigi sér mun lengri sögu.

Líklega var 18. aldar maðurinn Skúli Magnússon fógeti fyrsti baráttumaður fyrir bættum neytendarétti á Íslandi; „Mældu rétt, strákur!“, á danski einokunarkaupmaðurinn að hafa fyrirskipað búðardrengnum Skúla, en átti við að hann skyldi mæla rangt svo hallaði á kaupandann. Þetta særði réttlætiskennd Skúla svo mjög, að þegar hann varð fógeti barðist hann fyrir neytendavernd. Hann lét brjóta upp skemmur kaupmanna og kasta 1000 tunnum af skemmdu mjöli í sjóinn. Kaupmennirnir voru síðar dæmdir í svo miklar sektir, að sjóðurinn sem þær mynduðu, mjölbótarsjóðurinn, varð mikil stoð og stólpi framþróunar íslensks landbúnaðar í áratugi, auk þess að kosta byggingu Menntaskólans í Reykjavík.

Ég er bæði stoltur og auðmjúkur að fá að standa á herðum þessa framsýna fólks við að þoka áfram neytendabaráttunni fyrir fleiri tækifærum, betri réttindum og sanngjarnari kjörum. Allt frá innleiðingu mölunardagsetninga á kaffi á sjötta áratugnum, leiðbeiningabæklingum samtakanna á  sjöunda áratugnum, fyrsta kartöflumálinu á þeim áttunda til baráttunnar, barráttunni fyrir réttindum ábyrgðamanna á níunda áratugnum og svo gegn smálánum og Vaxtamálinu nú á síðustu árum; Allar götur hafa Neytendasamtökin unnið að úrbótum fyrir neytendur – og það munum við gera áfram af óskertum styrk.

Samfélagið og neyslan hafa tekið stórkostlegum breytingum frá því Neytendasamtökin voru stofnuð og málefni neytenda hafa því einnig færst inn á nýjar brautir.

Hin nýja barátta um réttindi og tækifæri neytenda á sér meðal annars stað í stafrænum heimi þar sem gögn um einkamál neytenda ganga kaupum og sölum, og brotamenn sjá tækifæri til að „mæla rétt“ eins og einokunarkaupmaðurinn skipaði Skúla forðum. Þá fela mikilvæg græn umskipti einnig í sér áskoranir fyrir ábyrga neytendur, til dæmis þegar óábyrgir stjórnendur fyrirtækja beita grænþvotti til að villa um fyrir okkur, eða þegar reglur eru ekki til staðar í deilihagkerfinu.

Þó að neysla hafi aldrei verið auðveldari en í dag, má segja að sama skapi sé flóknara nú en nokkru sinni fyrr að vera neytandi. Einmitt þess vegna verður meðal stóru verkefna samtakanna á næstu árum að sjá til þess að neytendum verði gert kleift að velja góðar og öruggar vörur, með eins litlu umhverfisspori og mögulegt er.

Það er vandratað í neytendafrumskógi dagsins í dag. Okkur er víða lofað gulli og grænum skógum og oft er erfitt er að sjá í gegnum blekkingarvaðalinn og margar keldurnar að varast. Hrein og bein svikastarfsemi þrífst í skjóli góðrar trúar neytenda. Maðkað mjöl leynist víða og óvíst hvar Skúla fógeta bæri niður í neytendabaráttunni, væri hann uppi í dag.

Kæru félagar. Það er vor samkvæmt dagatalinu en vorhret á glugga.

Enn eina ferðina hvín í nöprum verðbólgudraugnum, og sem fyrr er almenningi gert að bera hinar auknu byrðar dýrtíðarinnar. Á sama tíma berast fregnir af vel útilátinni arðsemi fyrirtækja, sér í heildsala og flutningafyrirtækja og launum stjórnenda sem er í engum takti við laun almennra starfsmanna sömu fyrirtækja.

Lífeyrissjóðirnir okkar sem eru meðal stærstu eigenda stærstu fyrirtækja landsins, verða að draga mörk og setja fyrirtækjum í sinni eigu arðsemismarkmið og launastefnu fyrir stjórnendur. Lífeyrissjóðirnir geta ekki lengur skilað auðu í þessum efnum.

Mikilvægi stéttarfélaganna við að sporna gegn yfirburðastöðu valdhafa, sérhagsmunahópa og fyrirtækja verður seint metið að fullu. Líkt og réttindi launafólks, þá hefur verið barist fyrir hverjum einasta rétti neytenda. Og á stundum þurft að verjast, með kjafti og klóm, ágangi á þegar áunnin réttindi. Til að sókn og vörn neytendabaráttunnar haldi þurfa Neytendasamtökin að vera fjölmenn og öflug. Einungis þannig verður gengið til góðs, götuna fram eftir veg.

Megi gæfan gefa að samstarf stéttarfélaganna og samtaka neytenda haldi áfram um ókomna tíð okkur öllum til heilla.

Sterk neytendasamtök, eins og sterk verkalýðsfélög, eru allra hagur.

Réttlæti, jöfnuður, velferð!

Gleðilegan 1. maí!

 

Breki Karlsson

formaður Neytendasamtakanna

 

 

 

 

Fremstar meðal jafningja

Í veftímariti Alþýðusambandins sem kom út í dag í tilefni af 1. maí er viðtal við Halldóru S. Sveinsdóttur formann Bárunnar.  

Sjá meðfylgjandi grein

 

Orðræðan gegn konum miklu illskeyttari

Nafn: Halldóra Sigríður Sveinsdóttir. 

Staða: Formaður í Bárunni, stéttarfélagi.  

Lengd formannssetu: Frá 2010 til dagsins í dag.

Lífsmottó: Vertu þú sjálfur. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?  

Staða kvenna innan ASÍ er að mörgu leyti sérstök. Sem betur fer hefur staðan breyst og konum fjölgað í forystu félaga á landsvísu og það er mjög jákvætt. Hins vegar er ennþá langt í land að fullu jafnrétti er náð. Það sem hindrar konur að bjóða sig fram í forystu er að orðræðan gegn þeim er miklu illskeyttari og þær eru oftar en ekki kenndar við einhverja pólítíska flokka, taldar boðberar einhverjar stefnu sem auðveldar að keyra niður mannorð þeirra og kemur þeim ekkert við.  Með öðrum orðum eru að mati karlægra sjónarmiða ekki sjálfstæðar heldur boðberar annarra.  Síðan eru þær mun gjarnari að verða fyrir aftökum á netmiðlum ef karllægum sjónarmiðum er ekki fylgt eftir.

Mynd: Halldóra Báran
Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?

Árið 2010 var komið að máli við mig og ég beðin um að taka við formennsku í félaginu. Ég hafði ekki leitt hugann að því en ákvað að slá til eftir smá umhugsunarfrest. Ég er fljót að segja já ef til mín er leitað.  Það kemur manni skemmtilega á óvart hvað þetta er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt starf. Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt til þess að takast á við. Maður hefur kynnst fullt af góðu fólki og eignast góða vini.  

Réttlætiskenndin í blóð borin

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Það eru forréttindi að alast upp í sjávarþorpi eins og Þorlákshöfn. Umræður á mínu æskuheimili voru um fiskveiðar, vinnu við fiskveiðar og kaup og kjör. Við vorum svo lánsöm í skólanum okkar að hafa róttækan vinstri sinnaðan kennara flest grunnskólaárin sem sáði góðum og gildum  fræjum. Réttlætiskenndin er mér í blóð borin og hef aldrei getað látið kyrrt liggja ef á einhverjum er brotið. Ég hef verið svo heppin að kynnast mörgu góðu og heiðarlegu fólki. Fyrirmyndir eru margar þá sérstaklega þær sem eru alltaf sjálfum sér samkvæmar, heiðarlegar og góðar manneskjur. Svo einfalt er það. 

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Konum í hreyfingunni hefur ekki auðnast að sýna hverri annari þann styrk sem til þarf til þess að greiða götu annarra kvenna. Þegar Drífa Snædal var hrakin úr embætti heyrðist ekkert frá neinum hópi kvenna innan hreyfingarinnar. Ég hefði  viljað sjá sterka kvennahreyfingu stíga fram og segja „þetta líðum við ekki“ Konur ná ekki að vera fyrirmyndir vegna þeirrar menningar sem hefur viðgengist innan hreyfingarinnar. Það eru þeir sem ná að berja sér á brjóst helst í fjölmiðlum án nokkurrar innistæðu sem eru „hetjurnar“ en ekki þær/þeir sem sannarlega eru hetjurnar.    

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust? 

Hreyfingin, karlar og konur eru flest hugsjónafólk með sterka réttlætiskennd. Það er oftast ekki mikið um ólíkar áherslur heldur ólíka nálgun sem gerir það að verkun að staðan innan hreyfingarinnar verður óstöðug. Í öllum umræðum er nálgun kynjanna oft með ólíkum hætti. Konur vilja skoða málið, lúslesa allt og hafa á hreinu hvernig á að framkvæma hlutina á meðan karlar fara yfir „stóru myndina“. Konur eru almennt ekki stóryrtar.  Kynjahlutföll þurfa að sjálfsögðu að vera sem jöfnust en sum sambönd/félög samanstanda af miklum meirihluta karlkyns sem skekkir að sjálfsögðu heildarmyndina því miður.  

Fyrsti kvenleiðtogafundur ASÍ

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?   

Það er eiginlega alveg undarlegt að ekki hafi tekist að sameina konur í sterka heild sem hefur rödd. Kvennaráðstefnur hafa verið nokkrar á undanförnum árum en einhvern veginn hefur samstaðan ekki náð flugi sem segir að það er ekki nóg. Eftir síðustu kvennaráðstefnu var ályktunun ráðstefnunnar ekki tekin til efnislegrar umræður heldur beittu ákveðnir aðilar öllu sínu valdi til þessa að gera þetta allt ótrúverðugt og marklaust. Fyrsti kvennleiðtogafundurinn var haldinn núna í mars sá fyrsti í sögu ASÍ. Það voru áhugaverðir fyrirlestrar um allt sem við kemur okkur í hreyfingunni. Hvernig við hugsum kynslóð eftir kynslóð og þær hindranir sem okkur er í blóð bornar án þess að taka eftir því. Hvernig „kvennlæg störf“ eru vanmetin þegar kemur að jafnvirði starfa og hvar er sóknarfæri fyrir okkar láglaunaða kvennahópa. Það eru mörg krefjandi verkefni framundan og áskorunir fjölmargar. Kvennleiðtogafundurinn hitti alveg í mark var virkilega hvetjandi, fróðlegur, faglegur og vonandi sá fyrsti af mörgum.  

Til hamingju með daginn

Við förum stolt inn í daginn þegar við horfum á þau réttindamál sem komin eru til vegna baráttu launafólks í gegnum tíðina. Þetta er lifandi barátta þar sem púlsinn þarf að vera hverju sinni á hvar á helst að bera niður. Húsnæðismál, vextir verðtrygging, réttlát umskipti og svo má lengi telja. 

​Á framhaldsþingi ASÍ sem lauk núna fyrir helgi var verið að skila af sér málefnavinnu þar sem þingfulltrúar af öllu landinu tóku þátt í. Þetta var góð vinna og lætur verkalýðshreyfinginn sig flest varða þegar kemur að kjörum launafólks. Niðurstaða þessarar vinnu er svo nýrrar forystu ASÍ að fylgja eftir því sem grasrótin leggur til og er samþykkt á  þinginu sem stefna Alþýðusambandsins í þeim mikilvægu málum sem við vinnum að. 

Síðastliðið haust varð niðurstaða að fresta þingi ASÍ vegna þess að fjórir formenn ásamt einhverjum af fulltrúum þeirra félaga gengu út af þinginu. Sólveig Anna formaður Eflingar, Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, Ragnar Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akranes. Tekin var sú ákvörðun þá að fresta þingi og reyna að ná sáttum. Einnig drógu þau til baka framboð sín til forseta og varaforseta á þinginu. Nú liggur fyrir kosning nýrrar forystu ASÍ og er nokkur breyting miðað við fyrri uppstillingu. 

 Þáttur kvenna er nokkuð rýr eftir kosningu í miðstjórn af 15 fulltrúum eru fjórar konur. Mikið er rætt um að ná sáttum innan hreyfingarinnar og er það vel og nauðsynlegt. Í hverju felst sú sátt, alltaf að sætta sömu persónur og leikendur. Felast sættir í því að skerða hlut kvenna til forystu.  Þingið sá ástæðu til þess að álykta og hvetja til þátttöku kvenna til trúnaðarstarfa en ekki að kjósa konur til trúnaðarstarfa. Þetta er afturför til fortíðar og afar undarlegt á tímum jafnréttis?  Brýnt er að rýna í stöðu kvenna og velta fyrir sér hvað veldur svo veikri stöðu til forystu.

Eigið góðar stundir á baráttudegi verkalýðsins.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

 

1. maí á Selfossi

Kröfugangan fer frá Austurvegi 56 kl. 11:00, Lúðrasveit Selfoss leiðir gönguna að Hótel Selfoss þar sem skemmtun fer fram og boðið verður upp á veitingar.
Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Kynnir er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.
Ræðumaður verður Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Frá námsmönnum FSU verður Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir.
Benedikt Búálfur syngur og skemmtir börnunum. Valgeir Guðjónsson flytur nokkur lög. Boðið verður upp á andlitsmálun fyrir börnin.

Sýnum samstöðu í verki, mætum í kröfugöngu og tökum þátt í hátíðarhöldunum.

 

Sjá auglýsingu

Uppfærður heildarkjarasamningur SGS og SA

Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu nýjan kjarasamning í desember 20022 vegna starfa á almennum vinnumarkaði. Um var að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar 2024 þar sem lögð var megináhersla á launaliðinn og því er ekki um að ræða miklar efnislegar breytingar frá fyrri samningi.

Að undanförnu hafa samningsaðilar unnið að því að uppfæra heildarkjarasamninginn m.t.t. þeirra atriða sem samið var um í desember síðastliðnum og er þeirri vinnu nú lokið. Vefútgáfa heildarkjarasamningsins er tilbúin og aðgengileg hér:
Kjarasamningur milli SGS og SA.

Vinna að uppfærðri útgáfu kjarasamnings SGS og SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi er hafin og verður uppfærður samningur aðgengilegur á heimasíðu SGS um leið og þeirri vinnu er lokið.

Nýr samningur við Landsvirkjun samþykktur

Starfsgreinasambandið og Landsvirkjun skrifuðu undir nýjan kjarasamning þann 5. apríl síðastliðinn, en um er að ræða samning sem nær til félagsmanna innan aðildarfélaga SGS sem starfa hjá Landsvirkjun vítt og breitt um landið. Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024 og byggir á kjarasamningi SGS og SA sem undirritaður var 3. desember síðastliðinn.

Með kjarasamningnum fylgir ný launatafla sem gildir frá 1. nóvember 2022. Kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 5% frá 1. nóvember 2022 og þá taka desember- og orlofsuppbætur einnig hækkunum. Desemberuppbót miðað við fullt starf verður 149.400 kr. á árinu 2023 og orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023 verður 149.400 kr. m.v. fullt starf.

Samningurinn fór í rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem stóð yfir dagana 13. til 20. apríl þar sem samningurinn var samþykktur af öllum þeim sem greiddu atkvæði.

Kjarasamningur SGS og Landsvirkjunar 2022-2024.

 

Frétt fengin af heimasíðu SGS.

Mynd fengin af vefsíðu Landsvirkjunar.

Kosning um nýjan kjarasamning á almennum vinnumarkaði

Kæri félagi,

 

Þau mistök urðu að ekki var réttur linkur í fréttabréfinu sem sent var í morgun og á Facebook. Það sem þið þurfið að gera sem ekki gátu kosið að reyna aftur með því að fara inn á www.baran.is og kjósa þar.

Endilega að hafa samband við okkur í síma 480-5000 eða á baran@baran.is ef ykkur vantar aðstoð.

 

Dear members of Baran, union,

There was a mistake regarding our online voting both in our newsletter and in our account on Facebook. There was not a right link. What you must do is to try again by going on to www.baran.is and vote there. Please contact us at baran@baran.is or call us 480-5000 if you need further assistance.

Félagsmannasjóður, nýtt eyðublað

Allir félagsmenn aðildarfélaga SGS sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2020 eiga að fá greitt úr félagsmannasjóði þann 1. febrúar nk. 

Starfsgreinasamband Íslands hefur látið útbúa rafrænt eyðublað til að hægt sé að tryggja að greiðsla úr sjóðnum berist viðkomandi starfsmanni. Félagsmenn sem störfuðu hjá sveitarfélögunum á síðasta ári eru vinsamlegast beðnir um að fylla út þetta rafræna eyðublað. Nánari upplýsingar gefa starfsmenn Bárunnar, stéttarfélags í síma 480-5000 eða í gegnum tölvupóst baran@baran.is.

Í núgildandi kjarasamningi við sveitarfélöginvar samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er greitt úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert.