Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hagsýni og hamingja

Deildir Rauða kross Íslands á Suðurlandi, í samstarfi við kirkjur Suðurprófastsdæmis, kvenfélagasamböndin og verkalýðsfélög á Suðurlandi, standa fyrir stuttum og gagnlegum fræðslufyrirlestrum fyrir almenning. Fyrirlesari er Lára Ómarsdóttir fréttakona, sem á einfaldan og auðskiljanlegan hátt kynnir okkur raunhæfar leiðir til sparnaðar

Fyrirlestrarnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

Kirkjubæjarklaustur: 31.jan. kl. 17:00 Kapellan á Kirkjubæjarklaustri

Vík í Mýrdal: 31.jan. kl. 21:00 Víkurkirkja , Vík í Mýrdal

Uppsveitir Árnessýslu: 2.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Hrunakirkju

Rangárvallasýslu: 6.febr. kl.20:00 Safnaðarheimilið Hellu

Árborg: 7.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Selfosskirkju

Hveragerði: 9.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Hveragerðiskirkju

 

Við hvetjum félagsmenn til að koma og hlusta á léttan og skemmtilegan fyrirlestur og læra leiðir til að vera hagsýn og hamingjusöm um leið og við spörum peninga og tökum á fjármálum heimilisins og fjölskyldunnar

Aðgangur er ókeypis

Kjarasamningar áfram í gildi – uppsagnarákvæði ekki nýtt

Samninganefnd ASÍ hefur sl. föstudag ákveðið að segja ekki upp gildandi kjarasamningum þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð þeirra. Skrifað var undir framlengingu kjarasamninga eftir hádegið í dag.

Yfirlýsing samninganefndar ASÍ vegna endurskoðunar kjarasamninga dags. 20. janúar 2012

Samninganefnd ASÍ hefur í dag ákveðið að segja ekki upp gildandi kjarasamningum þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð þeirra.

Ljóst er að mikill meirhluti aðildarfélaga Alþýðusambandsins telur að mikil verðmæti liggi í þeim launahækkunum sem kjarasamningarnir tryggja og að ekki sé forsvaranlegt að grípa til uppsagna þeirra við núverandi aðstæður. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar umræðu sem átt hefur sér stað um forsendur kjarasamninga og framgang þeirra undanfarnar tvær vikur meðal samninganefnda rúmlega 50 aðildarfélaga ASÍ. Aðeins þrjú þeirra vildu segja upp samningum.

Þær forsendur sem lúta að beinum samskiptum launafólks og fyrirtækja á borð við kaupmáttaraukningu launa, stöðugu verðlagi og styrkingu krónunnar standast. Því er ekki ástæða til neinna sérstakra viðbragða af hálfu samninganefndarinnar gagnvart atvinnurekendum. Allar forsendur eru fyrir hendi að kaupmáttur almennra launa hækki þriðja árið í röð og mikilvægt að tryggja að af því verði.  Fjórða forsenda kjarasamninga snýr að efndum ríkisstjórnarinnar á þeim fyrirheitum sem gefin voru með yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011.

Það er ekki ofsögum sagt að samskipti verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstjórnina vegna vanefnda hennar á mikilvægum liðum yfirlýsingarinnar hafa verið með slíkum ólíkindum að hrikt hefur í stoðum. Í þeim erfiðleikum sem þjóðin er í hafa aðildarfélög Alþýðusambands Íslands lagt mikla áherslu á að skapa forsendur fyrir breiðri sátt á vinnumarkaði og við stjórnvöld. Sátt sem lagt geti grunninn að öflugri sókn í efnahags-, kjara- og atvinnumálum. Mikilvægur liður í þessu var að tryggja frið á vinnumarkaði á sama tíma og sóttar hafa verið kjarabætur fyrir íslenskt launafólk. Með gerð kjarasamninganna á síðasta ári tókst þetta verkefni. Það er því makalaust að það skuli vera ríkisstjórn Íslands sem er sá aðili sem ógnar þeirri sátt sem náðst hefur á vinnumarkaði.

Þrátt fyrir mikla tregðu á stjórnarheimilinu hefur við þessa endurskoðun kjarasamninga tekist að þoka áfram mikilvægum málum. Má þar nefna tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin í samstarfi við atvinnurekendur koma í ríkara mæli að þjónustu við atvinnuleitendur einkum í formi ráðgjafar og vinnumiðlunar. Átak verður gert í baráttunni við félagsleg undirboð í tengslum við útboð þjónustu og verklegra framkvæmda og kennitöluflakk. Alþýðusambandið mun koma að endurskoðun laga um almannatryggingar sem miða m.a. að því að koma á frítekjumarki vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Þegar kemur að atvinnumálum stendur enn margt út af borðinu og fátt verið gert. Sérstök vonbrigði vekur sá seinagangur sem er í afgreiðslu rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem átti að liggja fyrir í lok síðasta árs. Mikilvægt er að sú vinna við faglega forgangsröðun virkjanakosta, sem átt hefur sér stað sl. 10 ár, verði lögð fram á Alþingi og að um hana geti verið breið sátt því með henni yrði lagður grunnur að 10-15 ára uppbyggingu atvinnulífs í sátt við náttúruna.

Þrátt fyrir að tekist hafi að þoka málum áfram eru það mikil vonbrigði og að sama skapi ámælisvert að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu með þeim hætti að málum er hleypt í farveg átaka um efnisatriði sem sátt hafði náðst um fyrir átta mánuðum. Innan raða Alþýðusambandsins ríkir mikil gremja í garð stjórnvalda vegna þessa. Það er ólíðandi að íslenskt launafólk skuli ekki geta treyst orðum oddvita ríkisstjórnarinnar.


Sameiginleg yfirlýsing samninganefnda ASÍ og SA vegna opnunarákvæða kjarasamninga 20. janúar 2012.


Yfirlýsing SA.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Ályktun formannfundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn þann 18 janúar 2012

Formannafundur SGS samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Formannfundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn þann 18. janúar 2012 lýsir yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar á loforðum sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við öll ákvæði samninga en það er ólíðandi að kjarasamningar skuli vera í uppnámi vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar. Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli enn ekki hafa staðið við fyrirheit sín og að íslenskt verkafólk geti ekki treyst yfirlýsingum hennar. Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands  krefst þess að ríkisstjórnin efni loforð sín tafarlaust.

 

Um SGS
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landsamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.


Aðildarfélög SGS eru nú þessi:
Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfl. Sandgerðis og Vlf. Hlíf. 
 

Tekið af heimasíðu SGS

Vegna endurskoðunnar kjarasamninga

Afstaða samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags til uppsagnar á kjarasamningum.

Samninganefnd Bárunnar og Verslunarmannafélag Suðurlands funduðu sameiginlega um afstöðu beggja félaganna til uppsagnar á kjarasamningum. Góð mæting var á fundinn.

Gestur fundarins var Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ. Gylfi fór yfir forsendur kjarasamninga og hvernig þær hafa náð fram að ganga. Kjarasamningar voru þríðhliða samkomulag og ljóst þykir að aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við sinn hluta en vanefndir eru að hálfu stjórnvalda.

 

Líflegar umræður urðu um málið og skiptar skoðanir um hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu sem upp væri komin. Sem sagt svikin loforð stjórnvalda. Fundarmenn lýstu áhyggjum sínum yfir því að ríkisstjórnir almennt séð óháð flokkum gætu gengið að því vísu að svíkja loforð án þess að það hefði í för með sér einhverjar afleiðingar.


Í lok fundar var atkvæðagreiðsla í báðum félögum og niðurstaða samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags var að segja upp samningum.

Formannafundur Starfsgreinasambandsins verður haldinn þann 18.janúar næstkomandi og fer formaður félagins með þessa niðurstöðu á fundinn.

Báran, stéttarfélag er eitt af 13 aðildarfélögum sambandsins sem afhentu umboð til kjarasamningsgerðar til SGS í síðustu samningum og verður niðurstaða hvers félags kynnt og síðan greitt atkvæði um hvort samningum skuli sagt upp.

Svikin loforð

Sameiginlegur fundur samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands haldinn á Selfossi 11. janúar 2012 harmar vanefndir ríksstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana sem undirritaðir voru í maí 2011. Á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt á sig mikið erfiði og fórnir til að ná markmiðum samningsins þá hefur ríkisstjórn velferðar, jöfnuðar og lýðræðis svikið mikilvæg loforð í þríhliða samkomulagi milli aðila

Flest loforð um bætt kjör til handa þeim sem minnst bera úr býtum hafa verið svikin og ekkert bólar á fjárfestingum eða aðgerðum sem væntingar voru uppi um við undirskrift samningsins. Atvinnuleysi er viðvarandi og álögur á almenning aukast jafnt og þétt. Ekkert bólar á marglofuðum störfum og ekki er enn farið að vinna að jöfnuði lífeyrisréttinda heldur þvert á móti er hert á snörunni um háls almennu lífeyrissjóðanna.

Fundurinn minnir á að aftur og aftur hefur þessi ríkisstjórn, sem sótti umboð sitt til almennings, svikið loforð sín. Fundarmenn spyrja hvortríkisstjórnin telji sig geta notið trausts í því ljósi?

Fundurinn krefst þess að nú þegar verði farið í þær atvinnuskapandi aðgerðir sem lofað var, svo koma megi atvinnulífinu af stað þannig hér fari að skapast hagvöxtur sem byggir á öðru en að sækja pening í vasa launafólks.

Skrifað undir stofnanasamning við Fangelsið á Litla Hrauni

Báran, stéttarfélag hefur gert stofnanasamning fyrir hönd sinna félagsmanna við fangelsið á Litla Hrauni. Fangelsið hefur nokkra sérstöðu sem vinnustaður og því þótti rétt að gera samning við yfirvöld vegna starfsfólks í mötuneyti. Skrifað var undir samninginn 3. janúar sl.Forsvarsmenn Bárunnar vilja lýsa yfir ánægju sinni með samskipti við yfirmenn fangelsisins á Litla Hrauni og telja þau til fyrirmyndar.

Formannafundur ASÍ – ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir vanefndir

Formenn félaga innan ASÍ komu saman til fundar í morgun til að ræða forsendur kjarasamninga en fyrri endurskoðun kjarasamninganna á að vera lokið 20. janúar. Efnahagslegar forsendur standast ágætlega en þegar kemur að loforðum ríkisstjórnarinnar sem sett voru fram í sérstakri yfirlýsingu 5. maí í tengslum við gerð kjarasamningana stendur varla steinn yfir steini. Hörð gagnrýni kom fram á stjórnvöld á fundinum.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ fór yfir stöðu mála nú sléttum átta mánuðum eftir undirritun kjarasamninganna. Í máli hans kom fram að meginforsenda samninganna hefur staðist, þ.e. kaupmáttur hefur aukist. Há verðbólga er hins vegar áhyggjuefni eins og lítil styrking krónunnar. Spár gera þó ráð fyrir að verðbólga lækki hratt með vorinu. Það kom hins vegar fram í máli Gylfa að sérstakt áhyggjuefni væri það sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gerð í tengslum við kjarasamningana. Þar hallar verulega á stjórnvöld og vissulega tilefni til að segja upp kjarasamningum að mati forseta ASÍ. Ber þar hæst svik um að hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði í takt við launahækkanir 1. febrúar nk. og skattlagningu á lífeyrissjóði á almennum markaði sem þýðir að óbreyttu skerðingu lífeyris félagsmanna ASÍ.

Það er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að fara í viðræður við ríkisstjórnina á næstu tveimur vikum og fá skýr svör við ýmsum spurningum. Í ræðum allra þeirra sem tóku til máls á fundinum kom fram mikil gremja í garð ríkisstjórnarinnar enda hafa menn ekki gleymt svikum hennar í tengslum við Stöðugleikasáttmálann 2009. Að upplifa viðlíka vanefndir og þá, var fundarmönnum mikil vonbrigði.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Ríkisstjórnin svíkur almennt launafólk

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands samþykkti á fundi sínum þann 12 desember 2011 að mótmæla áformum ríkistjórnarinnar um að skattleggja lífeyrissjóði þar sem slíkt mun leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og auka frekar á þann ójöfnuð sem er á lífeyrisréttindum á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Með þessu svíkur ríkisstjórnin loforð sín frá því við undirritun kjarasamninga í vor um að jafna þessi rétt.

Þá mótmælir framkvæmdastjórn SGS einnig harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga helmingi minna en lægstu laun hækka þrátt fyrir loforð um að lífeyrisþegar og atvinnulausir skuli njóta hliðstæðra kjarabóta.

Ályktunin í heild sinni

Tekið af heimasíðu SGS