Fréttabréf Bárunnar – Desember
Kæru félagar
Þetta ár hefur verið viðburðaríkt eins og flest ár. Hvert ár er með sínu sniði eins og sagt er og oft eru góðir og slæmir hlutir að gerast sem koma misjafnlega við okkur launafólk. Hlutur kvenna hefur verið áberandi varðandi þær kosningar sem hafa verið á þessu ári. Kona komin í embætti biskups Íslands, kona kosin forseti Íslands og þrjár konur leiða hér stjórnunarmyndunarviðræður. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi sögunnar og maður freistast til að halda að þetta gæti þýtt eitthvað nýtt og væri skref áfram til jafnréttis.
Á þessu ári voru undirritaðir kjarasamningar til fjögurra ára. Markmið þeirra var að ná hér niður verðbólgu og vaxtarstigi. Ekki eru heimilin enn þá farin að sjá miklar breytingar í sínum heimilisrekstri því margt hefur hækkað á móti og hafa þessi loforð ekki gengið eftir eins og um var rætt og þarf að velta stöðunni fyrir sér við endurskoðun kjarasamninga, hvað hefur áunnist og hverjir stóðu við gefin loforð um að styðja við þessu tilraun til verðbólgu og vaxtalækkun.
Ekki var samið um vinnutímastyttingu á almennum vinnumarkaði (Efling og SGS). Flestir innan ASÍ aðrir eru komnir með vinnutímastyttingu.
Það er með ólíkindum að vinnutímastytting skulu ekki ná til þeirra sem vinna mjög erfið störf og eru á lægstu laununum. Markaðirnir (opinberi og almenni) tala ekki saman og eru að skapast ýmis vandamál vegna þessa á vinnumarkaði t.d dæmis á leikskólum.
Það þarf að huga að vistunartíma í leikskólum og að þeir foreldrar sem vinnu sinnar vegna hafa ekki rétt á styttingu vegna þess að það var ekki samið um hana í kjarasamningi þeirra þurfi ekki að greiða hærra gjald vegna lengi viðveru barna þeirra. Oftast er þetta launafólk á lægstu laununum, konur með lítið bakland. Það þarf að endurskoða styttingu vistunartíma á leikskólum með hag heildarinnar í huga. Þetta er stórt jafnréttismál.
Þetta mál sem hér hefur verið nefnt er eitt af mögum málum sem eru að koma inn á borð til félagsins. Það eru ýmsar áskoranir fram undan í mörgum málum. Hér viðgengst vinnumansal og ýmis brot á vinnumarkaði og hefur málum fjölgað mjög hjá félaginu varðandi það. Stofnuð hafa verið gervistéttarfélög (t.d Virðing) af atvinnurekendum með mun lakari kjör en þegar eru á vinnumarkaði. Við vörum við slíkum félögum. Endilega ef þið verðið vör við að brotið er á ykkur eða ykkar vinnufélaga hafið samband við okkur hjá Bárunni, stéttarfélagi. Við vinnum fyrir þig..
Við viljum benda ykkur á að fylgjast vel með fréttabréfunum sem félagið sendir reglulega út skoða nýju orlofshúsin sem keypt voru á þessu ári. Endilega farið á mínar síður og uppfærið upplýsingar varðandi síma og netföng.
Hugsum hlýtt til hvors annars og þeirra sem um sárt eiga að binda hér heima og annars staðar.
Báran, stéttarfélag óskar ykkur gleðilegra jóla, farsældar og friðar á komandi árum með þakklæti fyrir samfylgdina liðinna ára.
F.h. Bárunnar, stéttarfélags
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir
Allir félagsmenn sem störfuðu hjá sveitarfélagi á árinu 2024 eiga að fá greitt úr Félagsmannasjóði í byrjun febrúar nk. Iðgjald í sjóðinn er 1,5% af heildarlaunum.
Þar sem að Báran greiðir úr sjóðnum er mikilvægt að við höfum aðgang að upplýsingum um reikningsnúmer og netfang allra
Það er því mikilvægt að allir þeir sem að störfuðu hjá sveitarfélögum og greiddu til Bárunnar af launum sínum skrái þær upplýsingar inná félagsvef bárunnar.
Hægt er að komast á hann í vefinn í hnappnum hér að neðan.
Þegar þið eruð kominn inn ýtir þú á hnappinn í efra hægra horninu með, þaðan kemur valmynd þar sem þið veljið persónu og bankaupplýsingar og fyllið það út skilmerkilega.
Félagsvefur
Samningur sem nýverið var gerður á milli Virðingar og SVEIT hefur vakið upp margar spurningar um lagalegt gildi og áhrif hans á réttindi starfsfólks. Ef hann er skoðaður bendir margt til þess að samningurinn kunni að ganga gegn ýmsum lögum og jafnvel stjórnarskrárbundnum reglum um jafnræði.
Í launatöflum samningsins má sjá að frá og með febrúar 2025 verða taxtarnir lægri en þeir sem eru í samningi SGS og SA. Að auki munu breytingar á vinnufyrirkomulagi, eins og stytting vaktaálags og aðrar breytingar á vinnutíma, draga úr kjörum starfsfólks samanborið við gildandi samning SGS og SA.
Greining á samningnum sýnir einnig að hann samræmist ekki helstu lögum sem fjalla um starfskjör, lífeyrisréttindi og starfshætti stéttarfélaga. Þar að auki eru í honum atriði sem virðast ekki uppfylla lagaskilyrði, þar á meðal réttindi tengd uppsögnum, launagreiðslum vegna veikinda eða slysa, og ákvæði um 40 stunda vinnuviku.
Auk þessa vekja ákvæði samningsins upp áleitnar spurningar um hvort brotið sé gegn lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og grundvallarreglum um jafnræði. Slík brot geta haft áhrif á réttindi starfsfólks og skapað ósanngjarna stöðu gagnvart öðrum hópum á vinnumarkaði.
Á meðan þessi mál eru til skoðunar mun Báran fylgjast vel með framvindunni og tryggja að réttindi starfsfólks séu virt.
Þann tólfta desember síðastliðinn hélt Báran, stéttarfélag, árlegan jólafund sinn með stjórn, starfsfólki og trúnaðarmönnum félagsins. Fundurinn var haldinn á glæsilegum vettvangi þar sem dagskráin var fjölbreytt og áhugaverð, með erindum um ýmis málefni sem snerta starfsemi félagsins og framtíð verkalýðshreyfingarinnar.
Dagskráin hófst með erindi Halldórs Oddssonar frá ASÍ sem fjallaði um „Gul stéttarfélög“ og mikilvægi þess að tryggja öfluga og réttláta verkalýðshreyfingu á tímum aukinnar ásóknar þessara samtaka.
Því næst tók Þórir Gunnarsson til máls kl. 13:45 með yfirgripsmikilli umfjöllun um efnahagsmál, stöðu kjarasamninga og næstu skref í þeirri vinnu. Þórir veitti fundargestum skýra innsýn í stöðuna og skapaði grundvöll fyrir umræður í kjölfarið.
Eftir stutta pásu hófst erindi Aleksöndru Leonardsdóttur frá ASÍ þar sem hún fjallaði um inngildingu í störfum trúnaðarmanna. Aleksandra lagði áherslu á mikilvægi fjölbreytileika og að tryggja að allir félagsmenn upplifi sig sem hluta af heildinni.
Gunnar Karl Ólafsson, starfsmaður Bárunnar tók þá til máls með erindi sitt um ASÍ-UNG og þá miklu vinnu sem unnið er meðal ungs fólks í verkalýðshreyfingunni. Hann vakti athygli á nýjum verkefnum og hvatti trúnaðarmenn til að styðja við ungt fólk í sínu starfi og þá ungu til að taka þátt.
Sigurlaug Gröndal, fræðslustýra Félagsmálaskóla alþýðunnar tók svo við og fjallaði um málefni trúnaðarmanna. Hún lagði áherslu á hlutverk þeirra í að tryggja réttindi félagsmanna og hvernig fræðslan hefur verið að breytast.
Síðasta formlega erindið var flutt af Halldóru Sveinsdóttur, formaður Bárunnar, sem var með almenna kynningu á félaginu, framtíðarsýn félagsins og þau verkefni sem liggja fyrir á næsta ári.
Fundinum lauk með opnum umræðum og skemmtidagskrá, þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að koma með spurningar og hugmyndir áður en fundurinn endaði á ljúffengum kvöldverði.
Við þökkum öllum þeim sem að mættu á þessa notalegu samveru.