
Fyrsta sinn á Íslandi „Í góðu lagi“
Í gær fimmtudaginn 26. júni undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og
Framsýn stéttarfélag samstarfssamning sýn á milli um vottunarmerkið „Í góðu lagi”
“Í góðu lagi” er nýtt vottunarkerfi sem staðfestir að vinnustaðir fari eftir kjarasamningum
og almennum reglum vinnumarkaðarins.
Aðilar samkomulagsins hafa unnið að því að þróa vottunarkerfi byggt á trausti, gagnsæi
og sanngirni. Hugmyndin felst í því að sýna með skýrum hætti að vinnustaðir fari eftir
kjarasamningum og þeim leikreglum sem gilda almennt á vinnumarkaði.
Framkvæmdin er að vinnustaðir eru heimsóttir og farið yfir þau gögn sem til þarf. Fyrir
liggur metnaðarfullur verkferlill sem nær til allra þátta er viðkemur framsæknum
vinnustöðum. Með þessu verkefni er byggð samvinna milli aðila sem leiðir til heilbrigðari
vinnumarkaðar og bættra kjara launafólks.
Það er ekki á hverjum degi sem stéttarfélög fá beiðnir frá fyrirtækjum/samtökum sem
vilja þróa svona verkefni í samstarfi við félögin sem ber að fagna.
Stofnuð var sameiginleg nefnd skipuð fulltrúum frá hlutaðeigandi stéttarfélögum og
Sölufélagi garðyrkjumanna, sem vann að undirbúningi sérstakrar vottunar.
Verkefnið er virkilega spennandi og skemmtilegt og byggir upp jákvæð samskipti og
samvinnu. Oft er slegin upp mynd af samskiptum atvinnurekenda og stéttarfélaga eins
og barist sé á banaspjótum. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir sem leiða til betri
útkomu fyrir alla.
Í fyrstu verður verkefnið tilrauna og þróunarverkefni afmarkað við grænmetisframleiðslu
en vonir standa til að vottunin „Í góðu lagi“ geti náð útbreiðslu til fleiri greina ef vel tekst
til enda um ákveðna fyrirmynd að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf.
Þrjár garðyrkjustöðvar hafa nú farið formlega í gegnum vottunarferlið, garðyrkjustöðin
Ártangi, Friðheimar og Hveravellir og tóku eigendur og forsvarsmenn þeirra á móti
sínum vottunarstaðfestingum í dag.
Sjá nánar á heimasíðunni www.igodulagi.is