Við vinnum fyrir þig

Translate to

Makar barnshafandi kvenna njóta ráðningarverndar

Þann 20. ágúst sl. féll úrskurður í kærunefnd jafnréttismála sem úrskurðaði um rétt maka barnshafandi kvenna til ráðningarverndar.

Forsaga málsins er að til Bárunnar, stéttarfélags leitaði félagsmaður sem starfaði hjá Grímsborgum ehf. Hann hafði starfaði hjá fyrirtækinu frá árinu 2019 og var sagt upp störfum í lok ágúst 2022.  Í uppsagnarbréfinu voru ástæður uppsagnarinnar sagðar skipulagsbreytingar og mikil fækkun bókana á hótelinu. Sambýliskona kæranda, sem var þunguð þegar kæranda var sagt upp störfum, starfaði á sama tíma á hótelinu.

Félagsmaður Bárunnar hélt því fram að uppsögn hans úr starfi hjá kærða þegar sambýliskona hans var barnshafandi fæli í sér brot gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Hann tók því fram að honum og sambýliskonu hans, sem starfaði einnig hjá kærða, hafi verið tjáð að raunveruleg ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að sambýliskonan hafi verið barnshafandi en að kærði gæti ekki sagt henni upp störfum þar sem hún nyti ráðningarverndar á meðan hún væri þunguð.

Niðurstaða nefndarinnar var að Grímsborgir gátu sýnt fram á með ítarlegum gögnum um það væri fyrirsjáanlega samdráttur í rekstri. Var það sett í samhengi við uppsögn nokkurra  annarra starfsmanna og þá ákvörðun að endurnýja ekki ráðningarsamninga stóran hóp af öðrum starfsmönnum til viðbótar. Mál hans tapaðist því fyrir nefndinni.

Hins vegar felur úrskurðurinn í sér þær stóru fréttir að nefndin staðfestir að 19. grein jafnréttislaga taki jafnt til beggja foreldra. Úrskurðurinn staðfestir því að óheimilt er að láta aðstæður tengdar meðgöngu eða barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir á borð við uppsagnir á verðandi foreldrum og staðfest að ákvæðið er víðtækara en ráðningarverndarákvæðið í fæðingarorlofslögum.

Í hnotskurn þarf atvinnurekandi að geta sýnt fram á að uppsögn verðandi föður byggi ekki á ástæðum tengdum barnsburði eða meðgöngu maka hans.