Báran, stéttarfélag var stofnað í núverandi mynd þann 25. júní 2002. Var það í kjölfar sameiningar þriggja félaga í Árnessýslu en félagssvæði Bárunnar nær yfir svæðið frá Ölfusá að Þjórsá. Heiti félagsins, Báran, er upphaflega heitið á elsta félaginu sem aðild átti að þessari sameiningu en það var Báran á Eyrarbakka.
Þrjú félög í eitt
Þann 11. janúar árið 2000 var ákveðið að sameina Verkalýðsfélagið Þór og Verkalýðs- og sjómannafélagið Báruna á Eyrarbakka. Nýja félaginu var gefið nafnið Báran-Þór. Í kjölfarið var ákveðið að Verkalýðs- og sjómannafélagið Bjarmi á Stokkseyri færi einnig inn í þessa sameiningu. Það varð að veruleika snemma árs 2002 og þann 25. júní 2002 var síðan haldinn stofnfundur nýja félagsins sem fékk þá nafnið Báran, stéttarfélag.
Báran á Eyrarbakka
Tildrög að stofnun Bárunnar í upphafi síðustu aldar voru þau að Sigurður Eiríksson, sem gjarnan var nefndur regluboði, hugsaði sér þetta félag sem bindindisfélag og hagsmunafélag sjómanna en hann var framámaður í Góðtemplarareglunni. Félagið hét upphaflega Sjómannafélagið Báran á Eyrarbakka.
Báran, félag sjómanna og dagvinnulaunamanna, var stofnuð í Bræðrafélagshúsi þann 14. febrúar 1903. Félagið starfaði óslitið til 1961 en var endurvakið eftir tveggja ára hlé þann 21. desember 1963 í Fjölni á Eyrarbakka.
Forgöngumenn um stofnun félagsins voru Sigurður regluboði Eiríksson og Ottó N. Þorláksson. Sigurður var starfsmaður Góðtemplarareglunar. Hann var jafnframt mikill félagsmálafrömuður, organisti og söngkennari.
Pat í pakkhúsinu
Fyrstu starfsár sín hélt Báran jafnan fundi sína í Bræðrafélagshúsi sem var gamalt pakkhús. Félagið fékk ókeypis afnot af húsinu en þægindi voru þar af mjög svo skornum skammti og upphitun engin. Oft sótti hroll að mönnum ef kalt var í veðri. Því kvað Bjarni Eggertsson svo:
Þótt stundum verði pat í Pakkhúsi,
og piltar fái glímt við kuldahroll,
þá finnst mér vert, að hinu hyggi,
hrollinum af, engum greiðum toll.
Formenn Bárunnar
Fyrsti formaður Bárunnar var Guðni Jónsson „formaður“ í Einarshöfn. Aðrir í stjórn voru Einar Jónsson og Guðmundur Kristjánsson sem einnig gegndi formennsku í félaginu af og til. Á eftir honum komu Sigurður Þorsteinsson, sem var formaður frá 1909-1910 og Bjarni Eggertsson var formaður frá 1910 – 1915 og átti síðan sæti í stjórn í samtals tólf og hálft ár. Þorfinnur Kristjánsson formaður 1915. Einar Jónsson formaður 1916.Þorleifur Guðmundsson formaður 1929.Síðan gegndu Andrés Jónsson frá Smiðshúsum formennsku fyrst 1930 . Bjarni Eggertsson formaður 1931.Þorvarður Sigurðsson tók við formennsku í lok árs 1931. Kristján Guðmundsson verður formaður 1939. Sigurjón Valdimarsson formaður 1942. Þá tekur Andrés Jónsson við formennsku á ný 1963. Kjartan Guðjónsson frá Sandprýði formennsku í félaginu um 1972. Guðrún Thorarensen tók við formennsku af Kjartani Guðjónssyni 1980.Síðasti formaður í gömlu Bárunni fyrir sameiningu var Eiríkur Runólfsson en hann tók við formennsku í félaginu 25 mars 1984.
Guðni sterki
Fyrsti formaðurinn, Guðni Jónsson, var fæddur í Steinskoti á Eyrarbakka 5. júní 1867. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson bóndi í Steinskoti og Ingibjörg Guðnadóttir frá Þverspyrnu í Ytrihrepp. Kona Guðna hét Sigríður Vilhjálmsdóttir og var ættuð frá Rangárvöllum. Þau áttu einn son sem dó ungur og ókvæntur.
Guðni var stór vexti og mikill á velli. Hann var sagður sterkur með eindæmum á sínum yngri árum og hlaut þá viðurnefnið Guðni sterki. Ein sagan segir að hann hafi oft lyft fullri lagertunnu upp á brjóst sér, brugðið neglunni úr með tönnunum og drukkið af eins og um hálf anker væri að ræða. Margir sáu hann einnig tæma fulla brennivínsflösku í einum teig. Guðni var hins vegar stilltur mjög og gæfur svo að eftirtekt vakti. Hann var lengi vinnumaður hjá Andrési Ásgrímssyni en stundaði einnig sjósókn og var formaður á róðrarbát og þótti sókndjarfur og aflasæll.
En Guðni varð síðar meðal bestu templara og fljótlega eftir það var hann kjörinn formaður verkamannafélagsins Bárunnar. Það átti hins vegar ekki fyrir Guðna að liggja að verða gamall maður. Hann veiktist skyndilega er hann var á leið til Þorlákshafnar með færi og annan búnað til sjósókna og lést skömmu síðar aðeins 45 ára gamall þann 26. febrúar 1912. Eftirfarandi kveðjuljóð samdi Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi fyrir hönd Verkamannafélagsins árið 1912:
Kveðja Verkamannafélagsins
Hin forna saga
var söm alla daga,
og ennþá ný og ný,
að ýmsir bana bíða,
í blóma lífsins líða.
Og manndómsstörfum miðjum í
vort félag má þess minnast,
og mikið um það finnast,
við þetta þunga spor,
er hér þig kveðja hljótum
á hinstu vegamótum.
Starfsbróðir kær og vinur vor,
þín sakna mjög við megum.
Af meðbræðrum vér eigum
of fáa, sem þér.
Jafnsnjallir metast megi,
svo missi þinn upp vegi.
Sá skaði brátt ei bættur er.
Þín hrein og hógvær lundin,
var hyggni og gætni bundin
og ötull viljinn var.
Ei tál var þér að treysta
frá trúar helgum neista
á ævistarf þitt birtu bar.
Nú fer þú fyrr en varði,
nú fylgir þér úr garði
vort sorgblítt þakkarþel.
Nú ferðu í félag æðra
til frelsaðra himinbræðra.
Þar finnumst aftur.
Farðu vel.
Brynjúlfur Jónsson.
Hleðslumaðurinn Þorleifur ríki
Þeir báru ekki alltaf mikið úr býtum, verkamennirnir á Eyrarbakka í eina tíð og þannig var það þegar sjógarðurinn fyrir Skúmstaðarlandi var hlaðinn á árunum milli 1830 og 1840 að verkamenn töldu laun sín ekki hrökkva fyrir fatasliti. Þó var þar í hópi einn maður sem lést vel við una. Það var Þorleifur Kolbeinsson sem þá var ungur maður, seinna kaupmaður á Háeyri og gekk þá undir nafninu Þorleifur ríki. Sagt var að á kvöldin eftir að vinnu lauk, hafi hann gert leit umhverfis búðir verslunarinnar að skinnsneplum og vaðmálssnifsum sem lestarmenn höfðu látið eftir liggja, en notuðu annars undir reiðinga. Hafði Þorleifur sitthvað upp úr þeirri leit og sat á kvöldum við að bæta flíkur sínar og skó með ræksnum þessum, enda mun honum hafa enst sami búnaðurinn meðan á verki þessu stóð, sem var eitthvað á þriðja ár.
Keðja Bárufélaga
Báran á Eyrarbakka var fyrsta félagið á forgangslista þeirra Sigurðar og Ottós stórformanns Bárufélaganna en samningur þeirra var á þá leið að Ottó lofaði Sigurði að koma á fót „sjómannastúku“ í Reykjavík gegn því að Sigurður stofnaði „Bárudeildir“ í sjávarplássum Suðvesturlands. Og varð Báran á Eyrarbakka þriðja deildin utan Reykjavíkur.
Stofnfélagar voru 12 talsins að sumra sögn en fljótlega var félagatalið komið upp í 18 manns. Fyrsta fundagerðabókin glataðist í húsbruna um eða eftir 1930 að talið er.
Samið við Lefoli-verslun
Árið 1905 var Báran orðið verkamannafélag en það ár var gerður verkamannasamningur um vinnulaun og vinnutíma við verslanirnar á Eyrarbakka. Ekki var þó full samstaða um þetta mál meðal félagsmanna og á einum félagsfundi þar sem málið var til umræðu sagði Erlendur gamli í Smiðshúsum þau fleygu orð: „Ég vil ekki hafa neitt andskotans bríarí fyrir Lefolii-verslunina.“
Aðalforsvarsmaður samningsins var Ólafur Bjarnason frá Silfurtúni, faðir Þorkels kaupmanns á Eyrarbakka og síðar bankaritara á Selfossi. Með samningi þessum hækkaði kaupið úr 12,5 aurum í 19 aura. Um sláttutímann var þó greitt allt að helmingi hærra kaup.
Sýslumaður skarst í leikinn
Atburðir þessir munu hafa gerst síðari hluta árs 1905. Sigurður Þorsteinsson kom þarna nokkuð við sögu en hann var í nefnd sem fjallaði um málið í byrjun. Með Sigurði í nefndinni mun hafa verið Ólafur Bjarnason frá Stíghúsi en formaður var Guðni Jónsson. Sigurður segir svo frá:
„Samningur var saminn og var ráðgert að allir verkamenn skrifuðu undir hann. Áður en hann var gjörður opinber fór ég ásamt öðrum nefndarmanni á fund Sigurðar sýslumanns (Ólafssonar) og óskuðum eftir að hann skoðaði samninginn með það fyrir augum að hann færi ekki í bága við gildandi lög og hvort að eftir honum yrði dæmt ef til þyrfti að taka.
Einhverjir höfðu veitt því eftirtekt að sýslumaður gerði sér erindi niður á Bakka þá um kvöldið, en sama kvöld fór fram fjölmennur fundur (í Barnaskólahúsi)þar sem allir skrifuðu undir samninginn fyrir utan 5 eða 6 menn sem skoruðust undan.
Morguninn eftir kom tilkynning uppfest í verslunarhúsum,að á næsta vori yrðu verkamenn ráðnir upp á tímakaup( áður á daglaunum miðað við 12 klst. á 12 ½ eyri pr. klst.).
Þetta tímakaup var að vísu lítið eitt lægra en tiltekið var í samningnum en þó að 2/5 hærra en verið hafði áður. Við höfðum nokkra vissu fyrir því að Sigurður sýslumaður hafi hér haft hönd í bagga um sættir í málinu og út frá þessu var samið um málið svo ekki kom til árekstra að sinni. Samþykkt var á fundi í félaginu að laga samninginn að þessu til bráðabirgða. Seinna kom til þess að verslunin rifti samkomulagi þessu að nokkru og áttu örugglega þessir 5-6 menn er áður var getið, sinn þátt í því.
Út af þessu var haldinn sáttafundur á Bakkanum er stóð í 8-10 klst. Endaði sátt á þann veg að verslunin gekk að öllum kröfum stjórnar verkamannafélagsins og lofaði að ekki skyldi framar rifta samningum af verslunarinnar hálfu.
Mér er ekki grunlaust að sáttafundurinn hafi verið dreginn svo á langinn sem raun varð á, vegna þess að leitað var ráða hjá Sigurði sýslumanni, meðan á fundinum stóð.“
– Heimildir úr viðtali við Sigurð Þorsteinsson er birtust í bókinni Gamalt og nýtt, útg. 1948. Þar lofar Sigurður alla þá heiðursmenn er komu að málinu; Sigurð sýslumann og P. Nílsen verslunarstjóra en vill þó ekki fella dóm um þá ónafngreindu fimm eða sex menn er reyndu að standa gegn þessu samkomulagi.
Ýmis framfaramál
Þann 18. febrúar árið 1906 var stofnaður styrktarsjóður félagsmanna og stóðu 40 aðilar að honum fyrsta árið og var árstillag 25 aurar en aðaltekjur sjóðsins voru lengst af komnar úr hlutaveltum og bögglauppboðum. Þetta sama ár var stofnuð vörupöntunardeild innan félagsins en var þó fljótlega lögð niður þar eð fólk tók gjarnan út vörur í verslununum upp á krít frekar en að staðgreiða pöntunarvöruna.
Árið 1906 stóðu sjógarðshleðslur fyrir dyrum sem stærstu framkvæmdirnar í þorpinu og unnu margir verkamenn við hleðslu þessa merka mannvirkis. Réði Báran þar miklu um vinnutilhögun og mannaráðningar að undanskildu því að Eyrarbakkahreppur áskyldi sér rétt til að ráðstafa ¼ hluta vinnunnar gegn 1000 króna framlagi.
Árið 1907 fengu verslunarmenn inngöngu í félagið og um sama leyti hóf félagið að gefa út handskrifað blað er nefndist Blær og kom það út í einn áratug.
Árið 1908 var „símamálið“ á dagskrá. Þar var skorað á hreppinn að taka þátt í rekstri símstöðvar. Helstu talsmenn um lagningu símanns voru Oddur Oddson gullsmiður og Jón V. Daníelsson sölustjóri. Símstöðin tók svo til starfa 9. september 1909 og varð Oddur fyrsti símstöðvarstjórinn.
Allt til ársins 1907 hélt félagið fundi sína án endurgjalds í Bræðrafélagshúsi sem var vörugeymsla við Háeyri en þar var upphitun engin og lýsing léleg. Þó voru aðalfundir stundum haldnir í barnaskólanum. Síðar voru fundir gjarnan haldnir í samkomuhúsinu Fjölni.
Árið 1910 kom fram tillaga að félagið gengist fyrir byggingu nýs bakarís og var talið að með því fengist brauðverð lækkað um tvo aura. Skömmu síðar var ráðist í hlutafjársöfnun og urðu nokkuð ágengt en aldrei komst málið lengra en svo að kjallari væri byggður en sökum fjárskorts varð ekkert úr frekari framkvæmdum og töpuðu þar margir fé.
Árið 1910 voru félagsmenn á milli 50 og 60 og að auki níu heiðursfélagar sem voru orðnir 60 ára eða eldri en áratug síðar hafði félagatalan þrefaldast.
Vikur- og skolpmál
Árið 1942 gegndi Ólafur Ólafsson formennsku og þá var „vikurmálið“ á dagskrá en félagið vildi fá því framgengt að vikur yrði ekki fluttur óunnin úr þorpinu. Þess í stað skyldi þorpsbúum tryggð vinnsla hans. Annað mikilvægt mál var „skolpmálið“ en félaginu þótti það „nauðsynlegt menningarmál“ að gera skolpræsi um allt þorpið.
Árið 1943 voru atvinnumálin í brennidepli og uppi voru hugmyndir um stórtæka sjávarútvegsstarfsemi og byggingu læknisbústaðar undir héraðslækninn. Skoraði félagið á að í þessi mál væri lagt aukið fé.
Árið 1947 stóð „ASS-málið“ upp úr en félagið vildi stofna Alþýðusamband Suðurlands en Alþýðusamband Íslands stóð gegn því.
Árið 1949 voru „dýrtíðarmálin“ helst á dagskrá en það ár rauk vísitalan upp í 326 stig.
Árið 1950 var hraðfrystistöðin orðin helsta málefnið og átti eftir að verða það áfram alla næstu áratugina á eftir ásamt útgerð og hafnargerð.
Undir áhrifum hersetu Breta
Stofnun verkalýðsfélagsins í vaxandi þéttbýli við Ölfusárbrú réðst af kringumstæðum sem Vigfús Guðmundsson, fyrsti formaður Þórs, lýsti í viðtali við son sinn Þór þann 24. apríl 1990. Var þetta rifjað upp í tilefni af 50 ára afmæli félagsins 5. janúar 1991 er saga félagsins var rakin. Þar var lýst þeim aðstæðum sem knúðu menn til að stofna verkalýðsfélag.
Upp úr 1930 fjölgaði íbúum á Ölfusá, en svo var þá nefnt þéttbýlið við Ölfusárbrú, sem reyndar tilheyrði Sandvíkurhreppi og heitir nú Selfoss. Lausavinna jókst, til að mynda byggingavinna og vinnslustörf hjá Mjólkurbúinu og Kaupfélaginu. Einn og einn maður komst í vegavinnu. Aðallega voru það þó Eyrbekkingar sem gengu að þeirri vinnu. Þessa daglaunavinnu stunduðu einnig bændasynir og jafnvel bændur úr Sandvíkurhreppnum. Iðulega fóru þessir lausamenn á vetrarvertíðir. Efnahagur var þá erfiður, kreppa hafði gengið yfir og atvinna ótrygg.
Eftir hernám Breta 1940 hófust miklar framkvæmdir í Kaldaðarnesi við byggingu herflugvallar og aðra mannvirkjagerð, meiri en þar hafði áður þekkst. Fyrst í stað voru það Eyrbekkingar sem réðust þar í vinnu og var Verkalýðsfélagið Báran á Eyrarbakka í fyrirsvari gagnvart heryfirvöldum. Stirðara var og ótryggara um ráðningu fyrir lausamenn í Sandvíkurhreppi, suma fátæka og þótti mönnum vera rangindi, enda vinnusvæðið í þeirra hreppi. Ýtti það mjög undir menn að láta nú til skarar skríða um stofnun verkalýðsfélags. Einn helsti frumkvöðullinn var Björgvin Þorsteinsson í Hamri, (sem nú er Eyravegur 5) eldheitur áhugamaður um verkalýðsmál.
Vissulega sáu það fleiri en verkamenn að það væri hagur hreppsins að stofnað yrði verkalýðsfélag við þessar aðstæður.
Stofnun Verkamannafélagsins Þórs
Nokkur aðdragandinn var að stofnun verkalýðsfélagsins Þórs. Var fyrst skráð í fundargerðarbók er nokkrir verkamenn úr Sandvíkurhreppi komu saman í Tryggvaskála föstudaginn 20. desember 1940 í þeim tilgangi að ræða stofnun verkamannafélags í Sandvíkurhreppi.
Björgvin Þorsteinsson setti fundinn og lýsti aðdraganda þessarar hugmyndar og gat þess að áður hefðu verið gerðar ítrekaðar tilraunir af sumum þeim mönnum sem á fundinum voru staddir til að koma slíku félagi á fót en ætíð orðið árangurslaust sökum ónógrar þátttöku. Las Björgvin síðan upp fundargerð frá 20. febrúar 1938 og uppkast að lögum sem samin höfðu verið og rædd.
Auk innanhreppsmanna voru mættir á fundinn þeir Gunnar Benediktsson og Kristján Guðmundsson frá Eyrarbakka. Tók Gunnar Benediktsson til máls og skýrði fyrir mönnum tilgang slíks félags sem hér var um að ræða og erfiðleika sem kynnu að verða á vegi, einkum í byrjun. Félagið myndi verða lítið en hins vegar myndi verða við harðsnúna atvinnurekendur að etja. Bað hann menn að láta sér erfiðleikana ekki vaxa í augum.
Kristján Guðmundsson skýrði fyrir fundarmönnum kauptaxta Bárunnar á Eyrarbakka svo og viðskipti verkamanna við Bretana í Kaldaðarnesi. Lögðu hann og Gunnar Benediktsson áherslu á góða samvinnu við verkalýðsfélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Á fundinum var svohljóðandi tillaga samþykkt:
„Leggjum til að stofnað verði verkalýðsfélag í Sandvíkurhreppi og fundurinn kjósi þriggja manna nefnd til að undirbúa lög fyrir félagið.“
Í nefndina voru kosnir þessir menn:
Jóhann Hannesson, Vigfús Guðmundsson og Guðbjörn Sigurjónsson.
Í fundarbyrjun kom Grímur E. Thorsteinsson á fundinn. Komu þá fram mótmæli um að hann sæti fundinn. Krafðist hann þá atkvæðagreiðslu þar um. Fór hún fram og var samþykkt að hann gengi af fundi sem hann og gerði tafarlaust.
Formleg stofnun Þórs 1941
Framhaldsstofnfundur var svo haldinn í Tryggvaskála þann 5. janúar 1941 og var þá félagið formlega stofnað, lög þess samþykkt og kosin stjórn.
Formaður var kosinn Vigfús Guðmundsson, ritari Guðbjörn Sigurjónsson, gjaldkeri Sveinn Sveinsson. Í varastjórn voru kosnir Jóhann Hannesson, Guðmundur Guðjónsson og Sigurjón Steinþórsson. Endurskoðendur voru kosnir Björgvin Þorsteinsson og Ásbjörn Guðjónsson.
Á fundinum voru mættir 19 menn og eru þeir allir skráðir sem stofnendur félagsins.
Félagið hlaut nafnið Verkamannafélagið Þór.
Fyrsti formaðurinn
Vigfús Guðmundsson var formaður félagsins til 30. júní 1944 en gegndi síðan ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið þar til hann gekk í Vörubifreiðastjórafélagið Mjölni árið 1953.
Þann 30. júní 1944 tók nýr formaður við. Var það Björgvin Þorsteinsson. Á þeim fundi var Hraungerðishreppi bætt við félagssvæðið og kosið var í trúnaðarmannaráð í fyrsta sinn. Kosnir voru fjórir menn og aðrir fjórir til vara.
Merkilegur samningur við Breta
Þór gekk í Alþýðusamband Íslands þann 23. janúar árið 1942. Merkustu atburðir í sögu félagsins eru taldir samningar sem félagið gerði við breska setuliðið skömmu eftir félagsstofnunina. Greint er frá þessu í Vinnunni á 50 ára afmæli ASÍ 1965. Þar segir að það muni hafa verið einstakt að breska heimsveldið hafi gert kjarasamninga við svo fámennt stéttarfélag. Samningar þessir munu vera glataðir og ekki hefur verið upplýst hverjir undirrituðu þá af hálfu Breta.
Í fundabók VLF Bárunnar er herstöðvarvinnu fyrst getið á félagsfundi 2. desember 1940. Breska setuliðið greiddi þá fyrst kauptaxta Dagsbrúnar í Reykjavík ásamt hefðbundnum matar- og kaffitímum. Þann 23. september fór yfirmaður setuliðsins fram á að Íslendingar ynnu í kaffitímum og tækju aðeins hálftíma í mat og kaup hækkaði að sama skapi í 1,95 krónur á klukkustund. Fljótlega lækkaði setuliðið kaup niður í 1,78 krónur á klukkustund. Einhverjar deilur urðu um málið og þann 3. janúar 1941 var öllum sagt upp, 200-300 manns.
Á fundi Bárunnar 5. janúar 1941 skýrði Jóhann Ólafson, kaupmannssonur og mælskur á ensku, frá viðtali sínu við yfirmenn Breta í Kaldaðarnesi og kvað þá vera ósammála vinnustöðvuninni sem stjórn setuliðsins kom á 3. janúar.
Svo virtist að hreyfing væri komin á málið frá æðri stöðum og þann 9. janúar 1941 lá fyrir hjá Bárunni tilboð frá breska setuliðinu um 2,06 krónur á klukkustund miðað við níu klukkustunda vinnudag. Tilboðinu var tekið hið snarasta.
„Jón Ólafsson tók að sér að vera túlkur Íslendinga í flugvallarvinnunni en starf hans þróaðist i að vera trúnaðarmaður verkamanna og allt að því að vera ráðningastjóri setuliðsins á tímabili og réði hann fyrst í stað Eyrbekkinga til verksins, enda hæg heimatökin. Var sagt að hann hafi „sópað þorpið“.
-Heimild úr skýrslu Páls Lýðssonar frá Litlu-Sandvík, „Úr bretavinnu til betra lífs“.
Samið við hrepp og verslun
Félagið auglýsti kauptaxta 26. júní árið 1944 en atvinnurekendur vildu ekki hlíta honum og var þá boðuð vinnustöðvun 11. júlí 1944. Til hennar kom þó ekki þar sem samningar tókust þann 8. júlí. Voru það fyrstu samningar sem félagið gerði við hreppsnefnd Selfosshrepps, Kaupfélag Árnesinga og fleiri aðila á svæðinu.
Árið 1945 virðist fyrst hafa verið undirbúið að halda 1. maí-hátíð og var nefnd kosin í þeim tilgangi. Næsta ár bauð Verkamannafélagið Þór Félagi mjólkuriðnaðarmanna þátttöku í 1. maí-hátíðahöldum.
Hugmynd að Alþýðusambandi Suðurlands
Á aðalfundi 10. apríl 1947 bættist Selfosshreppur, sem þá var nýstofnað sveitarfélag, við félagssvæðið og náði það þá yfir þrjá hreppa.
Sama ár barst félaginu tillaga um stofnun Alþýðusambands Suðurlands og skyldi svæði þess ná frá Búðardal allar götur austur til Víkur. Undanskilin áttu þó að vera félögin í Reykjavík og Hafnarfirði. Á fundinum var og rætt bréf frá Alþýðusambandi Íslands sem úrskurðaði slíkt félagssamband lögleysu. Ákveðið var að hafna þátttöku í stofnun slíks sambands.
Árið 1949 tók við formennsku Einar Jónsson og var hann formaður Þórs til 1951 er Einar Sigurjónsson tók við. Þá var samþykkt að Þór gerðist aðili að stofnun fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Árnessýslu.
Á þessum tíma sýnast verkalýðsfélögin ekki alltaf hafa verið tilbúin að hlýða fyrirmælum Alþýðusambandsins. Bókað var á aðalfundi 4. mars 1951 að ekki væri talið tímabært að segja upp samningum þrátt fyrir tilmæli ASÍ um slíkt fyrr en tryggt væri að samstaða félaganna í Árnessýslu væri örugg.
Ekki mikill áhugi á aðild kvenna
Árið 1953 var fyrst rætt á félagsfundi hvort konur skyldu teknar inn í félagið en þó nokkuð var þá orðið um að konur stunduðu vinnu utan heimilis.
Vigfús Guðmundsson var fylgjandi því að taka konurnar inn sem aukafélaga og aðstoða þær í samningagerð. Samþykkt var þó að fresta afgreiðslu á inntökubeiðnum kvennanna þar til álit ASÍ hefði borist.
Frímann Einarsson tók við formennsku í félaginu árið 1954 og gegndi hann starfinu í eitt ár.
Árið 1955 má sjá í fundargerðum að enn var rætt um inngöngu kvenna í Þór en auðséð er að karlarnir voru ekki mjög áhugasamir um að fá þær inn í félagið. Betra virðist hafa verið talið að þær reyndu að stofna eigið félag og ákvörðun um inngöngu þeirra var enn frestað.
Á aðalfundi 25. apríl 1955 var Skúli Guðmundsson kosinn formaður Þórs og var þá verkfallssjóður félagsins stofnaður formlega með 5000 króna stofnframlagi og ákveðið að leggja til hans 20 krónur af árgjaldi hvers félaga. Einnig skyldi hann hljóta 0,5% vexti af því fé sem til hans rynni. Árgjald hvers félaga var þá ákveðið 115 krónur.
Árið eftir var ákveðið að allur ágóði af 1. maí-skemmtunum skyldi renna til verkfallssjóðs og rætt um að auka enn framlög til hans þannig að 50% af árgjöldum félaga og öll gjöld aukafélaga skyldu renna til sjóðsins.
Framlag félagssjóðs var síðar lækkað aftur vegna þess að sýnt þótti að hann stæði ekki undir svo miklum útgjöldum.
Þá var ákveðið að hækka félagsgjöldin í 140 krónur en samþykkt að taka ekki félagsgjald af félagsmönnum sem væru orðnir 70 ára eða eldri. Sú ákvörðun stendur enn.
Síðari hluta árs 1956 var skýrt frá því á félagsfundi að kosin hefði verið stjórn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Árnessýslu. Formaður var Björgvin Sigurðsson, ritari Sigurður Árnason og gjaldkeri Kristján Guðmundsson. Nokkur gagnrýni kom fram um stofnun fulltrúaráðsins.
Nafninu breytt
Í byrjun árs 1957 var félagssvæðið enn stækkað og náði nú yfir Grímsneshrepp austan Sogs, auk Selfoss-, Sandvíkur- og Hraungerðishrepps. Ástæða þess að Grímsnesið kom þarna inn var sú að ekki hafði tekist að endurvekja Verkalýðsfélagið Íra sem áður hafði starfað í Grímsnesi og Grafningi.
Á aðalfundi 25. febrúar 1958 var loks samþykkt að konur þær er stunduðu vinnu hjá hinum ýmsu fyrirtækjum á Selfossi fengju inngöngu í Þór og var nafni félagsins breytt í Verkalýðsfélagið Þór.
Ekki virðist þó sem konur hafi gengið í félagið fyrr en árið 1961 en þá óskuðu 18 konur eftir inngöngu. Á þeim fundi var rætt hvort ekki skyldu gilda einhverjar takmarkanir á inngöngu kvenna í félagið, sérstaklega þeirra sem ynnu utan heimilis stuttan tíma úr árinu. Þessu lyktaði með því að 13 konur fengu inngöngu en fimm til viðbótar gengu í félagið á næsta fundi þar á eftir.
Á þeim fundi var samþykkt að enginn skyldi vera fullgildur félagsmaður nema hann eða hún hefði áður unnið í að minnsta kosti fimm mánuði á félagssvæðinu. Þótti þá skilyrðum um takmörkun á inngöngu kvenna fullnægt.
Konur hafa síðan gengið í félagið nokkuð jafnt og karlar, þó hafa karlar oftast verið aðeins fleiri á félagaskrá.
Á aðalfundi 15. maí 1963 var samþykkt reglugerð fyrir sjúkrasjóð félagsins en nokkru fé hafði þó áður verið úthlutað úr sjóðnum eftir þörfum.
Í reglugerð sjúkrasjóðs er skráð að gjaldkeri sjúkrasjóðs skuli vera formaður sjóðsstjórnar en Geirmundur Finnsson hafði þá verið gjaldkeri Þórs síðan 1960. Hefur hann gegnt því starfi af mikilli samviskusemi allar götur síðan eða í ríflega 30 ár.
Árið 1964 var Sigurður Einarsson kosinn formaður eftir að Skúli Guðmundsson hafði gegnt því starfi frá árinu 1955. Sigurður var formaður Þórs til 1969 en þá tók Benedikt Franklínsson við til ársins 1972. Þá tók Sigurður við formennsku aftur og var formaður félagsins til 1977 en þá gaf hann ekki kost á sér lengur og við tók Hjörtur Hjartarson.
Í apríl 1964 var samþykkt að Verkalýðsfélagið Þór gerðist aðili að stofnun Verkamannasambands Íslands og var Sigurður Einarsson kosinn fulltrúi félagsins á stofnfund Verkamannasambandsins. Á sama fundi var ákveðið að flytja skjöl félagsins og starfsemi í húsnæði að Eyravegi 8 sem tekið yrði á leigu hjá Selfosshreppi í samstarfi við þau önnur félög sem að málinu stóðu.
Félagssvæðið stækkað
Þann 1. apríl 1965 var enn ákveðið að stækka félagssvæði Þórs og náði það þá einnig yfir uppsveitir Árnessýslu, það er Þingvalla-, Laugardals-, Biskupstungna-, Hrunamanna-, Skeiða- og Gnúpverjahreppa, auk þeirra hreppa sem áður voru komnir en það voru Selfoss-, Sandvíkur-, Hraungerðis- og Grímsneshreppar.
Árið 1967 var ákveðið að félagið skyldi kaupa hlut í orlofshúsi í Ölfusborgum í félagi við þau önnur félög sem aðild áttu að fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Árnessýslu.
Haustið 1972, á síðbúnum aðalfundi, var fyrsta konan kosin sem varamaður í trúnaðarmannaráð og síðan hafa konur jafnt og þétt aukið þátttöku sína í starfsemi félagsins og margar mætar konur hafa komið þar við sögu. Ekki ber á að karlar hafi nú orðið neitt á móti því að hafa konur sér við hlið í félaginu.
Á aðalfundi félagsins 1980 tók Þórður Sigurðsson við formennsku í Þór og tók hann við af Hirti Hjartarsyni. Um það leyti áttu sér stað mikil átök innan félagsins. Það var þó ekki í fyrsta skipti sem átök áttu sér stað; menn deildu hart þegar meiningar voru skiptar.
Upp úr þessu, eða árið 1981, var tekin ákvörðun um að segja upp aðild að rekstri skrifstofu þeirrar sem verkalýðsfélögin höfðu haft sameiginlega um árabil. Eftir að þessu samstarfi verkalýðsfélaganna var slitið rak Þór skrifstofuna einn og sér, fyrst í stað með einum starfsmanni en brátt var bætt við hálfu starfi og síðan öðru hálfu nokkrum árum síðar og veitti ekki af.
Fyrsta konan í formannssætið
Á aðalfundi í byrjun apríl 1982 tók fyrsta konan við embætti formanns. Það var Ingibjörg Sigtryggsdóttir en þá voru konur búnar að taka þátt í stjórn félagsins í ein 10 ár og þótti orðið ekkert tiltökumál. Kannski hefur þó einhver hugsað, þótt hann léti það ekki uppi, að illa væri nú komið fyrir Verkamannafélaginu Þór. Á þessum aðalfundi voru reyndar kosnar mun fleiri konur en karlar í stjórn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Síðan hefur verið reynt að viðhafa jafnrétti eins og kostur hefur verið á.
Árið 1983 var farið að huga að því hvort félagið gæti ekki fest kaup á eigin húsnæði en skrifstofa þess hafði verið rekin í leiguhúsnæði á Austurvegi 22 og var þar mjög takmarkað pláss fyrir aðra starfsemi en rekstur skrifstofunnar.
Skoðað var húsnæði á efri hæð hússins að Eyravegi 29 sem þá var nýbyggt og útlit var fyrir að hægt væri að fá það keypt á góðum kjörum. Síðar það sama ár var gengið frá kaupum á húsnæðinu sem þá var óinnréttað en seljandi tók að sér að smíða innréttingar og skyldi félagið taka við því fullbúnu.
Í desember sama ár flutti Verkalýðsfélagið Þór starfsemi sína „…loks í eigið húsnæði eftir að hafa verið á vergangi í 44 ár“, svo höfð séu eftir óbreytt orð Sigurðar Einarssonar fyrrverandi formanns félagsins.
Mikill fögnuður ríkti meðal félagsmanna vegna þessara tímamóta og svo mikil bjartsýni ríkti að farið var að ræða um að selja hlut félagsins í orlofshúsinu í Ölfusborgum og festa sér land undir sumarhús sem félagið ætti eitt.
Sumarhúsabyggð
Afráðið var að festa sér land undir sumarhús í Úthlíð í Biskupstungum en þar er mjög fagurt umhverfi. Á það land var síðan flutt nýsmíðað sumarhús árið eftir, árið 1984.
Húsið var smíðað af Hafsteini Stefánssyni sem var starfsmaður á skrifstofu félagsins frá 1984 og síðar varaformaður. Pláss var á lóðinni fyrir annað hús ef ákveðið yrði síðar að bæta við sumarhúsaeignina. Síðan hefur bæst við annað sumarhús sem var þá sameign Þórs og Bílstjórafélagsins Ökuþórs. Einnig á félagið orlofsíbúð á Akureyri þannig að bersýnilega hefur bjartsýnin ekki minnkað.
Bjarmi Stokkseyri
Verkalýðs- og sjómannafélagið Bjarmi á Stokkseyri var stofnað þann 12. febrúar árið 1904 í Góðtemplarahúsinu á Stokkseyri en stofnendur voru 36 talsins. Félagssvæðið var Stokkseyrar-, Gaulverjabæjar- og Villingaholtshreppar. Var ákveðið á stofnfundinum að félagsmenn greiddu 50 aura í árgjald. Bjarmi gekk í ASÍ árið 1922.
Fyrsti formaður félagsins var Jón Adólfsson og voru með honum í stjórn Ásgrímur Jónsson ritari og Guðni Árnason gjaldkeri. Aðalhvatamaður að stofnuninni var Sigurður Eiríksson, regluboði og faðir Sigurgeirs biskups.
Formaður félagins um þriggja áratuga skeið, eða fram á 7. áratuginn, var Björgvin Sigurðsson. Hann var einnig um tíma formaður Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Árnessýslu.
Strax eftir stofnun tókum menn að vinna að kaupgjaldsamálum. Fyrsti kauptaxti félagsins undirritaður 8. febrúar 1905 og var hann svohljóðandi:
„Frá 1. apríl til 1. júlí, 20 aurar á klukkustund fyrir karla og 15 aurar fyrir konur. Frá 1. júlí til 10. september lægst 30 aurar á klukkustund fyrir karla og 20 aurar fyrir konur. Frá 10. september til ársloka skal kaupið vera 20 aurar á klukkustund í út- og uppskipun, en við aðra vinnu 15 aurar. – Öll vinnulaun skal borga í peningum.“
Samþykkt var að hækka kaupið um fimm aura þegar unnið væri að nóttu, frá kl. 9 að kvöldi til kl. 6 að morgni, einnig fimm aura hækkun í sunnudagavinnu.
Bjarmi rak lengi pöntunarfélag sem starfaði með miklum blóma. Varð það síðan undirstaða myndarlegs verslunarrekstrar KÁ á Stokkseyri.
Bjarmi ýtti mjög undir ýmsar framkvæmdir í vegagerð, lendingarbótum, holræsagerð, eflingu útgerðar og fleira. Hafði félagið einnig forystu um stofnun samvinnufélags sem keypti þrjá báta árið 1933.
Félagið hafði forystu um það árið 1910 að koma á heilbrigðisnefnd á Stokkseyri. Þá var hreyft við hugmyndum um stofnun sjúkrasamlags árið 1911 en það varð þó ekki að veruleika fyrr en árið 1942.
Styrktarsjóður var starfræktur í félaginu um áratuga skeið og greiddi hann dagpeninga í veikindatilfellum auk þann hluta lyfjakostnaðar og læknishjálpar sem ekki var greiddur af sjúkrasamlaginu. Einnig veitti sjóðurinn jarðarfararstyrk og greiddi læknisvitjanakostnað og fleira.
Ökuþór á Selfossi
Bílstjórafélagið Ökuþór var stofnað þriðjudaginn 20. febrúar árið 1945 í Selfossbíói. Fyrsti formaður Ökuþórs var Steindór Sigurðsson. Með honum í stjórn voru Karl Eiríksson ritari og Jón Ingvarsson gjaldkeri.
Helstu forgöngumenn að stofnun félagsins voru þeir Jón Ingvarsson, Karl Eiríksson og Brynjólfur Valdimarsson.
Samkvæmt lögum félagsins var félagssvæðið Selfosshreppur. Brynjólfur Valdimarsson var lengi formaður félagsins en það gekk í ASÍ árið 1950.
Þór og Ökuþór sameinuð
Eftir að félagið hafði flutt í eigið húsnæði og eignast sumarhúsin mátti segja að félagsstarfið gengi án stórviðburða en þá var afráðið að Bílstjórafélagið Ökuþór sameinaðist Verkalýðsfélaginu Þór þann 14. desember 1995. Jafnframt var samþykkt að taka alla félaga í Ökuþór inn í einu lagi með fullum réttindum. Talið var að þessi ráðstöfun yrði félagsmönnum beggja félaganna til hagsbóta. Ökuþór lagði til með sér allar eignir sínar og þar með talið hlut sinn í sumarhúsi í Úthlíð.
Á þessum árum kom til umræðu milli stéttarfélaganna á Selfossi að félögin réðust saman í að kaupa húsnæði þar sem rúmast gæti öll starfsemi félaganna auk starfsemi Vinnumiðlunar við úthlutun atvinnuleysisbóta.
Úr þessu varð að Verkalýðsfélagið Þór, Verslunarmannafélag Árnessýslu og Samiðn, félag iðnaðarmanna, festu kaup á 3. hæð hússins Austurvegur 56 sem var óinnréttað og var hafist handa við að innrétta húsið þannig að sem haganlegast væri fyrir starfsemi allra félaganna og Vinnumiðlunar. Talið var til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn að öll þessi starfsemi væri á einum stað. Þess má geta að Fræðslunet Suðurlands hefur einnig aðstöðu í þessu húsnæði.
Víðtækari sameining
Nokkuð hafði á þessum tíma verið rætt um þann möguleika að sameina Verkalýðsfélagið Þór, Verkalýðs- og sjómannafélagið Báruna á Eyrarbakka og Verkalýðs- og sjómannafélagið Bjarma á Stokkseyri. Loks á árinu 2000 var ákveðið að sameina Þór og Báruna og að undangengnum lögboðnum fundarhöldum voru félögin sameinuð þann 11. janúar 2000. Nýja félaginu var gefið nafnið Báran-Þór.
Ingibjörg Sigtryggsdóttir lét af störfum sökum vanheilsu snemma árs 2001 eftir 19 ára starf. Kristján S. Jónsson var þá kosinn formaður félagsins en hann hafði áður verið formaður Ökuþórs og gegnt þar öðrum trúnaðarstörfum. Eftir sameiningu félaganna var hann einnig í stjórn Bárunnar-Þórs um tíma
Ákveðið var að gefa Bjarma á Stokkseyri lengri frest til umhugsunar en viðræðum um sameiningu var þó haldið áfram. Snemma árs 2002 var ákveðið að Bjarmi skyldi sameinast Bárunni-Þór og þann 25. júní 2002 var síðan haldinn stofnfundur nýja félagsins. Ákveðið var að félagið skyldi hljóta nafnið Báran, stéttarfélag, þar sem Verkalýðs- og sjómannafélagið Báran á Eyrarbakka var elsta félagið sem gekk inn í þessa sameiningu en það var stofnað 1903.
Fyrstu formenn eftir sameiningu
Fyrsti formaður var kosinn Kristján S. Jónsson en á fyrsta aðalfundi Bárunnar, stéttarfélags, sem haldinn var 28. maí 2003 (rétt rúmum hundrað árum eftir stofnun Bárunnar á Eyrarbakka), sagði Kristján lausu formannsembættinu og var Ragna G. Larsen þá kosin formaður. Hún hafði þá gegnt störfum á skrifstofu félagsins um árabil eða frá júní 1987. Ragna hafði verið ritari félagsins til fjölda ára og gegnt öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Stjórn Bárunnar sem kosin var á aðalfundi 28. maí 2003:
Formaður: Ragna G. Larsen.
Varaformaður: Örn Bragi Tryggvason.
Meðstjórnendur: Ásdís Ágústsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Jóhannes Kjartansson, Vernharður Stefánsson og Steingrímur Jónsson.
Varastjórn: Eva María Hillströms, Þórdís Þórðardóttir og Óðinn K. Andersen.
Á skrifstofu Bárunnar starfa nú þrír starfsmenn, formaður félagsins og tveir aðrir og er allt kapp lagt á að veita félagsmönnum sem besta þjónustu .
Félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags nær yfir allt svæðið milli Ölfusár og Þjórsár og horfa félagsmenn vongóðir til framtíðar fyrir sameinað öflugt verkalýðsfélag til varnar í baráttu fyrir betri kjörum.
Auk formanna og annarra stjórnarmanna sem getið hefur verið hafa margir lagt hönd á plóginn og unnið mikið starf sem engin laun hafa verið borguð fyrir önnur en misjafnir dómar samtíðarmanna.