Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frá vinnudögum Vinnustaðareftirlitsins 2021

Eftirlit með efnd kjarasamninga er stundað af hálfu stéttarfélaganna í umboði ASÍ.

Þetta eftirlit er byggt á lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Markmið laga þessara er að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Báran hefur stundað eftilirlitið frá 2011, í upphafi af starfsfólki félagsins meðfram öðrum störfum á skrifstofunni en 2015 var ráðinn sérstakur eftirlitsfulltrúi sem eingöngu sinnir efirliti og eftirfylgni. Eftirlitið er í töluverðu samstarfi við ýmsar opinberar stofnanir sem koma að eftirliti með vinnumarkaðnum svo sem Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu, Útlendingastofnun og Lögreglunni. Einnig er félagið í góðu samstarfi við önnur stéttarfélög.

Stór hluti starfs eftirlitsfulltrúa snýr að því að upplýsa launafólk um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og tryggja að launafólk hafi aðgang að réttum upplýsingum. Einnig ber eftirlitsfulltrúum að tilkynna kjarasamningsbrot til viðeigandi félags og til opinberra aðila ef grunur vaknar um að fleira sé athugavert en bein kjarasamningsbrot.

Stéttarfélögin sem slík hafa ekkert valdboð gagnvart fyrirtækjum utan þess sem kjarasamningar heimila en ef grunur er um lögbrot, önnur en kjarasamningsbrot þá er málum vísað til viðeigandi stofnanna. Heimilt er, samkvæmt lögunum, að leita aðstoðar lögreglunnar þegar þess er þörf, svo sem ef einstaklingar geta ekki eða vilja ekki gera grein fyrir sér eða ef eftirlitsmönnum er hamlaður aðgangur að vinnustöðum eða starfsfólki. Félaginu berast oft ábendingar um brot á kjarasamningum og aðbúnaði frá trúnaðarmönnum, samstarfsfólki og almennum borgurum. Þegar um slíkt er að ræða þá er því fylgt eftir með því að far í heimsókn til viðkomandi fyrirtækis og málin skoðuð og reynt að leysa þau eftir fremsta megni.

Farið er á hundruði vinnustaða á ári, sem dæmi má nefna að 2018 var farið í 202 fyrirtæki og rætt við 6320 einstaklinga á 1413 vinnustöðum, 2019 í 200 fyrirtæki og rætt við 5945 einstaklinga á 1288 vinnustöðum og 2020 108 fyrirtæki og náð til 2281 einstaklings á 611 vinnustöðum, þrátt fyrir Covid. Frá upphafi eftirlitsins hefur þannig verið farið í þúsundir fyrirtækja og talað við tugþúsundir starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Af ofangreindu má sjá að eftirlitsfulltrúar fara víða og ná til mikils fjölda launafólks.

Reynslan síðustu ár gefur til kynna að málum tengdum launaþjófnaði af ýmsu tagi fer fjölgandi og einnig hefur eftirlitið leitt í ljós að ýmislegt annað viðgengst á vinnumarkaði sem ekki var vitað eða í besta falli voru óljósar ábendingar um áður. 

Um þessar mundir er verið að vinna tölulegar upplýsingar upp úr skráningarkerfi eftirlitsins og einnig  hefur verið unnin mikil vinna í að sæmræma eftirlitið á landsvísu og efla samskipti við opinberu stofnanirnar. Til er orðinn verðmætur gagnagrunnur sem vinna má upp úr ýmsar tölulegar upplýsingar sem bæði verða til að auka þekkingu okkar á vinnumarkaðnum og munu gagnast í viðræðum við atvinnurekendur þegar sest er niður við samningaborðið.

Báran er með sérstaka eftirlitsfulltrúa á sínum snærum sem starfa í góðu samstarfi við eftirlitsfulltrúa annarra félaga og sambanda innan verkalýðshreyfingarinnar. Eftirlitsfulltrúar Bárunnar eru Þórarinn Smári Thorlacius og Guðjóna Björk Sigurðardóttir

Tilkynna má meint brot á kjarasamningum eða önnur brot sem tengjast vinnumarkaði á netfangið gunnar@baran.is 

Fullur trúnaður er um ábendingar sem berast.

Við hvetjum alla að lesa um réttindi sín á  https://labour.is/