Veikindaréttur er áunninn réttur og eykst eftir því sem unnið er lengur hjá sama atvinnurekanda. Veikindarétturinn er heildarréttur á hverju 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar veikinda/sjúkdóms. Ef starfsmaður veikist og getur ekki sótt vinnu skal hann tilkynna það yfirmanni sínum. Ef atvinnurekandinn krefst læknisvottorðs vegna veikinda starfsmanns þá ber atvinnurekandanum að greiða fyrir það. Greiðslur launa í veikindum skulu fara fram með sama hætti og á sama tíma og aðrar launagreiðslur.
Veikindi barns
Fyrstu sex mánuði í starfi hjá atvinnurekanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar veikum börnum sínum undir 13 ára aldri. Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni verðskrá/vaktskrá.
Veikindi eða slys í orlofi
Komi veikindi eða slys upp á meðan starfsmaður er í orlofi. Þá ber starfsmanni að tilkynna vinnustað það með sannanlegum hætti eins fljótt og hægt er. Telst það tímabil sem starfsmaður getur ekki notið orlofs síns ekki til orlofs og getur tekið það út á öðru tímabili.
Starfsmenn á almennum vinnumarkaði
ávinna sér veikindarétt á hverju 12 mánaða tímabili sem hér segir:
- Á fyrsta ári: Tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð.
- Eftir 1 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda: Einn mánuður
- Eftir 2 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda: Tveir mánuðir
- Eftir 3 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda: Þrír mánuðir
- Eftir 5 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda: Fjórir mánuðir
Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga á mánaðarlaunum
ávinna sér veikindarétt á hverju 12 mánaða tímabili sem hér segir:
- 0-3 mánuði í starfi: 14 dagar
- Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
- Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
- Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
- Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
- Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
- Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar
Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga í tímavinnu
ávinna sér veikindarétt á hverju 12 mánaða tímabili sem hér segir:
- Á fyrsta ári: Tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð.
- Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
- Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
- Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
- Eftir 3 mánuði í starfi: 14 daga
- Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar
Önnur helstu atriði
- Veikindaréttur barnshafandi kvenna er til staðar þann tíma sem þær eru í vinnu.
- Það er ekki hægt að semja af sér veikindarétt.
- Veikindaréttur fellur niður við starfslok. Það skiptir ekki máli hvort starfsmaður hefur sjálfur sagt starfi sínu lausu eða hvort honum hefur verið sagt upp starfi.
- Forfallist starfsmaður af völdum slyss við vinnuna eða á beinni leið til eða frá vinnu og eins ef starfsmaður veikist af atvinnusjúkdómi, skal hann auk réttar til launa í veikindum halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði. Ofangreindur réttur er sjálfstæður réttur og gengur ekki á veikindarétt starfsmannsins.