Öllum launagreiðendum er skylt að draga staðgreiðslu opinberra gjalda frá launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum til launamanna og skila í ríkissjóð. Á sama hátt á að draga staðgreiðslu frá reiknuðu endurgjaldi þeirra sem starfa við eigin atvinnurekstur. Staðgreiðslan samanstendur af tekjuskatti og útsvari og er fyrirframgreiðsla upp í álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum einstaklinga. Tekjuskattur rennur í ríkissjóð og útsvarið til viðeigandi sveitarfélags.
Hægt er að nálgast allar nánari upplýsingar um skattkerfið inná heimasíðu RSK
Skatthlutfall í staðgreiðslu samanstendur annarsvegar af tekjuskatti og hinsvegar meðalútsvari (14,45%). Skatthlutfallið er
- 31,45% af tekjum 0 - 349.018 kr. (þar af 17,00% tekjuskattur)
- 37,95% af tekjum 349.019 - 979.847 kr. (þar af 23,50% tekjuskattur)
- 46,25% af tekjum yfir 979.847 (þar af 31,80% tekjuskattur)
Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 2006 eða síðar, er 6% (4% tekjuskattur, 2% útsvar) af tekjum umfram frítekjumark barna sem er 180.000 kr.
Persónuafsláttur
Allir sem náð hafa 16 ára aldri á tekjuárinu og eru heimilisfastir á landinu eiga rétt á persónuafslætti. Sama gildir um þá sem hafa rétt til að halda hér á landi skattalegu heimili þrátt fyrir dvöl erlendis vegna náms eða veikinda. Hjá þeim sem ná 16 ára aldri á tekjuárinu reiknast fullur persónuafsláttur fyrir allt árið.
Persónuafsláttur 2022 er 646.993 kr. eða 53.916 kr. á mánuði.
Skattaframtal
Skattframtal er staðfesting á öllum þeim tekjum, eignum og skuldum sem þú áttir á skattárinu sem leið. Mikilvægt er að allir standi skil á sínu framtölum. Réttar upplýsingar þurfa að berast skattstjóra svo hægt sé að reikna út skatta og bætur.
Ítarlegar leiðbeiningar um skattframtöl má finna á heimasíðu skattsinns.