Þegar þú ræður þig í vinnu er mikilvægt að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi í upphafi. Í ráðningarsamningi þurfa eftirtalin atriði m.a. að koma fram: nafn starfsmanns og atvinnurekanda, vinnustaður, tegund starfs eða stutt lýsing á starfinu, fyrsti starfsdagur, lengd ráðningar sé hún tímabundin, uppsagnarfrestur, mánaðar- eða vikulaun, lengd vinnudags, lífeyrissjóður og tilvísun til kjarasamnings.
Sé ekki kveðið á um tímalengd ráðningar er ráðning ótímabundin þ.e. ekki er ákveðið hvenær starfslok muni eiga sér stað. Sé ráðning ótímabundin getur vinnuveitandi ekki sagt þér upp störfum nema veita þér þann uppsagnarfrest sem þér ber samkvæmt kjarasamningi.
Mundu að semja með skriflegum hætti við atvinnurekanda, bæði þegar þú ræður þig í starf en líka þegar gerðar eru breytingar á starfskjörum þínum.