Við vinnum fyrir þig

Translate to

8. mars – 8 konur og 8. sýningin.

Við hér á Suðurlandi tökum við fagnandi á móti kvennaárinu 2025. Báran, stéttarfélag, Foss (félag opinbera starfsmanna á Suðurlandi) og Verkalýðsfélag Suðurlands buðu félagskonum í leikhús á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Leikfélag Selfoss er með sýninguna „Átta konur“ sem fjallar um átta konur. Verkinu leikstýrir Rakel Ýr Stefánsdóttir.

Félögunum þótti vel við hæfi að nýta það sem er í nærumhverfinu. Þetta er frábær sýning og allir skemmtu sér konunglega.

Takk fyrir okkur og þið sem mættuð takk fyrir samveruna.

 

Konur styðja konur, saman erum við sterkastar!

🎭 Boð í leikhús

Félagskonum er boðið í leikhús laugardaginn 8. mars kl. 18:00 í Leikfélagi Selfoss að
fagna kvennaárinu 2025!

Leikverkið Er „Átta konur“ eftir franska leikskáldið Robert Thomas. Verkið var frumflutt í
París árið 1961 og naut mikilla vinsælda. Árið 2002 var gerð kvikmynd byggð á leikritinu.

Mömmur, ömmur, dætur og vinkonur eru velkomnar!

🎟 Hver félagskona getur fengið tvo miða.

📩 Skráning miða fer fram með tölvupósti á:
👉 vs@vlfs.is – skráningu þarf að fylgja nafn, kennitala og stéttarfélag.

Takmarkað magn miða og fyrirvarinn stuttur
Svo endilega skráið ykkur sem fyrst

Við hlökkum til að njóta kvöldsins með ykkur

Sumarúthlutun orlofshúsa

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins í Þóristöðum 1 og 2,  við Þverlág 2, 4 og 6 á Flúðum, í Kiðárskógi 10 í Húsafelli (skiptibústaður) og íbúð á Akureyri Ásatún 12 til leigu sumarið 2025 fyrir félagsmenn.

Umsóknafrestur er frá 26. febrúar til 10. mars nk.

 

Sótt er um á Félagsvef Bárunnar, hægt er að fá aðstoð við umsóknarferlið á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, 800 Selfoss.

Allir félagsmenn geta sótt um, það er eingöngu punktastaða umsækjenda sem ræður niðurstöðu úthlutunar.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir þann 13. mars nk.

Greiðslufrestur er til 20. mars kl.10:00 eftir að úthlutað verður.

20. mars klukkan 11:00 verða ógreiddar og óúthlutaðar vikur opnar á Félagsvefnum og gildir þá „fyrstur kemur fyrstur fær“.

Öllum umsóknum verður svarað.

Vikuleigan á Flúðum, Þórisstöðum og Kiðárskógi í Húsafelli er frá fimmtudegi til fimmtudagss.

Vikuleigan á Akureyri er frá miðvikudegi til miðvikudags.

 

Tímabilin eru:

Þverlág 2, 4 og 6 , Þórisstaðir 1 og 2, Kiðárskógi 10 í Húsafelli –  frá 29.05.2025 - 28.08.2025

Akureyri, Ásatún 12  -  frá 28.05.2025 – 27.08.2025.

 

Íbúðirnar í Sóltúni 28, Rvk. og Borgartúni 24a, verða ekki úthlutað heldur verða í sveigjanlegri leigu eins ávallt.

 

Félagsvefur

Niðurstöður síðustu kjarasamninga vonbrigði

Þegar kjarasamningar á almennum markaði voru undirritaðir voru meginmarkmið samningsins meðal annars að lækka verðbólgu með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, ríkis, atvinnurekanda, sveitarfélaga og annarra. Ríkið skuldbatt sig til að hækka ekki umfrá 2,5% á árinu 2025. Tilmæli voru til sveitarfélaga um að endurskoða áður útgefnar hækkanir og halda þeim innan 3,5% vegna barnafjölskylda. Fyrir kjarasamningsgerðina lágu fyrir niðurstöður skýrslu Vörðu rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins.

þar sem gerð var sérstök úttekt á stöðu og lífsskilyrðum ræstingarfólks. Niðurstöðurnar voru vægast sagt sláandi. Konur og innflytjendur er í meirihluta starfandi við ræstingar. Miðað við aðra hópa á þessi hópur erfitt með að ná endum saman, eru frekar í vanskilum miðað við aðra hópa. Þessi hópur býr frekar í leiguhúsnæði. Líkamleg og andleg heilsa mælist verri en hjá öðrum hópum og eru líklegri til þess að mælast með kulnun eða örmögnun. Niðurstöður þessar leiddu til þess að ákveðið var að hækka ræstingafólk umfram aðra hópa.
Nú virðist svar ræstingafyrirtækja við þessu við þessu að breyta kjörum þessa fólks og þá helst að lækka kjörin og í leiðinni að herða á vinnutakti. Staðfest dæmi eru frá þessu ári að sum þeirra greiða laun undir lágmarksákvæðum kjarasamnings stundi mjög alvarleg kjarasamningsbrot. Ríki og sveitarfélög bjóða út mest af þeim ræstingum sem fellur undir þeirra starfsemi og bera að mestu leyti ábyrgð á þessari þróun.

Tilmæli til sveitarfélaganna að endurskoða útgefnar hækkanir virðast ekki ganga eftir. Eru ýmsar æfingar þar á bæ sem samræmast ekki markmiðum kjarasamninga eða kjarasamningum almennt. Ekki var samið um vinnutímastyttinguna hjá Eflingu og SGS. Flestir á vinnumarkaði eru komnir með vinnutímastyttingu. Er það bagalegt að hluti af almenna markaðnum er ekki í takt við aðra hópa. Furðu sætir að fólkið á lægstu launum sem sinnir mjög krefjandi og erfiðum störfum skuli ekki vera komið með vinnutímastyttinguna og hefur þessi slagur staðið frá 2019. Þeir sem eru að greiða lengri viðveru á leikskólum eru lægst launaði hópurinn og tölur um þann tíma sem er umfram vinnutímastyttingu hjá öðrum hópum kostar allt að kr. 3.700 hver tími.

Spurning: Eru forsendur kjarasamninga brostnar?

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

Febrúar Fréttabréf Bárunnar

Við höfum greitt út úr Félagsmannasjóði fyrir árið 2024, en eins og oft áður vantar okkur bankaupplýsingar frá nokkrum félagsmönnum sem eiga rétt á greiðslu.

Félagsmannasjóðurinn er fyrir starfsfólk sveitarfélaga. Atvinnurekendur greiða í hann mánaðarlega, alls 2,2% af heildarlaunum. Ef þú starfar eða starfaðir hjá sveitarfélagi eða stofnunum þeirra árið 2024, skráðu þig inn á félagsvefinn okkar og settu inn bankaupplýsingar svo við getum komið greiðslunni til þín.

Félagsvefur

 

Launahækkanir fyrir félagsmenn Bárunnar

Þann 1. janúar síðastliðinn hækkuðu laun félagsmanna Bárunnar sem starfa á almennum vinnumarkaði og í hótelum, veitingahúsum, í samræmi við kjarasamninga. Þessar hækkanir voru greiddar út með launum þann 1. febrúar síðastliðinn.

Við hvetjum félagsmenn til að fara vel yfir launaseðlana sína og ganga úr skugga um að launahækkunin hafi skilað sér. Ef upp koma villur eða vantar upp á greiðslur er mikilvægt að hafa strax samband við atvinnurekanda og krefjast leiðréttingar. Starfsfólk Bárunnar er einnig til staðar til að aðstoða ef þörf krefur.

Hækkanir á launum og kjaratengdum liðum 

  • Föst mánaðarlaun í dagvinnu hækka um 3,5%, þó aldrei um minna en 23.750 krónur, nema annað sé tilgreint í launatöflum kjarasamningsins.
  • Kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka einnig um 3,5%, nema um annað hafi verið samið.

Við höfum tekið upp tímapöntunarkerfi fyrir félagsmenn sem vilja fá ráðgjöf á skrifstofu okkar. Á heimasíðunni okkar finnurðu nú hnappinn "Bóka tíma í ráðgjöf", sem leiðir þig á skráningarform. Þar er gott að tilgreina hvað þú vilt ræða, svo kjaramálafulltrúar okkar geti undirbúið sig og afgreitt erindið hratt og vel.

Með þessu aukum við þjónustustigið fyrir þá sem þurfa persónulega ráðgjöf, og hvetjum alla til að bóka tíma ef þeir þurfa aðstoð. Athugið að ekki er hægt að tryggja ráðgjöf á skrifstofu nema með fyrirfram bókuðum tíma.

Að sjálfsögðu er enn hægt að senda okkur tölvupóst eða hringja með fyrirspurnir.

Panta tíma

 

Okkur hafa borist ábendingar um að umgengni í orlofshúsunum sé nú oftar ekki til fyrirmyndar. Þessi hús eru ekki aðeins eign félagsins heldur sameiginleg eign allra félagsmanna, og það er á ábyrgð okkar allra að halda þeim í góðu ástandi.

Við viljum því hvetja alla sem nýta sér orlofshúsin til að ganga vel um, þrífa vandlega og ganga úr skugga um að næsti gestur fái hús í sama góða ástandi og þeir sjálfir vildu taka við því. Það er einföld kurteisi og virðing gagnvart félögum okkar sem einnig vilja njóta orlofsins í hreinu og vel viðhöldnu húsnæði.

Við viljum einnig vekja athygli félagsmanna á því að gæludýr eru ekki leyfð í neinum af orlofshúsum okkar, nema í Þverlág 2 á Flúðum. Gæludýraeigendur eru vinsamlegast beiðnir að virða þessa reglu.

Þegar allir leggja sitt af mörkum tryggjum við að orlofshúsin haldist í góðu ástandi til framtíðar og að sem flestir geti notið þeirra með ánægju. Því biðlum við til félagsmanna: sýnum ábyrgð og umgöngumst þessi sameiginlegu gæði af virðingu.

 

Kveðja,
Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

Félagsmannasjóðurinn

Í gær 30. janúar var greitt úr Félagsmannasjóði. Allir félagsmenn sem störfuðu hjá sveitarfélagi á árinu 2024 eiga rétt á að fá greitt úr sjóðnum.

Þeir sem ekki hafa fengið greitt út sjóðnum hafa ekki fyllt út reikningsnúmerið á innri síðum félagsins. Til þess að fá greitt verða að vera til staðar upplýsingar um reikningsnúmerið. Næsta föstudag þann 7. febrúar verður greitt til þeirra sem hafa þá fyllt út reikningsnúmerið á mínum síðum. Við hvetjum ykkur sem eiga rétt úr sjóðnum og hafa ekki fengið greitt að fara inn á mínar síður og fylla út reikningsnúmerið.

Leiðbeiningar

Þegar þú ert kominn inn á síðuna smellir þú á hnappinn í efra hægra horninu, þaðan kemur valmynd þar sem þar sem þú slærð inn upplýsingarnar sem beðið er um og fyllir það út skilmerkilega.

Félagsvefur

Páskaúthlutun 2025

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins laus til umsókna fyrir páskavikuna 16. apríl – 23. apríl 2025.

 

Umsóknarfrestur er frá 16. janúar kl.10:00 til 5. febrúar  kl.10:00 nk. Hægt er að sækja um á Félagsvef Bárunnar.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir þann 7. febrúar nk.

Öllum umsóknum verður svarað.

 

Verð á vikudvöl í Þverlág 2, 4 og 6, Grýluhrauni og orlofsíbúð á Akureyri er 24.000 kr. (24 punktar).

Verð á vikudvöl í Þórisstöðum 1 og 2 er 28.000 kr. (24 punktar).

Leigutímabil er frá miðvikudegi til miðvikudags.

 

Íbúðir í Sóltúni 28 og Borgartúni 24 a. eru ekki úthlutað heldur verða í sveigjanlegri leigu eins og ávallt og opnar 26. febrúar.

 

Athugið að ekki skiptir máli hvenær á umsóknartímabilinu sótt er um, kerfið raðar umsóknum eingöngu eftir punktastöðu félagsmanna.

Greiðslufrestur er til og með 13. febrúar. Eftir það opnast bókunarvefurinn þann 14. febrúar kl. 10:00 fyrir alla félagsmenn með réttindi til að bóka og þá gildir fyrstur kemur fyrstur fær fyrirkomulag.

 

Sæktu um núna í hnappnum hér að neðan

 

Félagsvefur

Félagsmannasjóðurinn

Allir félagsmenn sem störfuðu hjá sveitarfélagi á árinu 2024 eiga að fá greitt úr Félagsmannasjóði í byrjun febrúar nk. Iðgjald í sjóðinn er 2,2% af heildarlaunum.
Þar sem að Báran greiðir úr sjóðnum er mikilvægt að við höfum aðgang að upplýsingum um reikningsnúmer og netfang allra

Það er því mikilvægt að allir þeir sem að störfuðu hjá sveitarfélögum og greiddu til Bárunnar af launum sínum skrái þær upplýsingar inná félagsvef bárunnar.

Hægt er að komast á hann í vefinn í hnappnum hér að neðan.

Þegar þið eruð kominn inn ýtir þú á hnappinn í efra hægra horninu með, þaðan kemur valmynd þar sem þið veljið persónu og bankaupplýsingar og fyllið það út skilmerkilega.

 

Félagsvefur

Fréttabréf Bárunnar – Desember

Kæru félagar

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt eins og flest ár. Hvert ár er með sínu sniði eins og sagt er og oft eru góðir og slæmir hlutir að gerast sem koma misjafnlega við okkur launafólk. Hlutur kvenna hefur verið áberandi varðandi þær kosningar sem hafa verið á þessu ári. Kona komin í embætti biskups Íslands, kona kosin forseti Íslands og þrjár konur leiða hér stjórnunarmyndunarviðræður. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi sögunnar og maður freistast til að halda að þetta gæti þýtt eitthvað nýtt og væri skref áfram til jafnréttis.

Á þessu ári voru undirritaðir kjarasamningar til fjögurra ára. Markmið þeirra var að ná hér niður verðbólgu og vaxtarstigi. Ekki eru heimilin enn þá farin að sjá miklar breytingar í sínum heimilisrekstri því margt hefur hækkað á móti og hafa þessi loforð ekki gengið eftir eins og um var rætt og þarf að velta stöðunni fyrir sér við endurskoðun kjarasamninga, hvað hefur áunnist og hverjir stóðu við gefin loforð um að styðja við þessu tilraun til verðbólgu og vaxtalækkun.

Ekki var samið um vinnutímastyttingu á almennum vinnumarkaði (Efling og SGS). Flestir innan ASÍ aðrir eru komnir með vinnutímastyttingu.

Það er með ólíkindum að vinnutímastytting skulu ekki ná til þeirra sem vinna mjög erfið störf og eru á lægstu laununum. Markaðirnir (opinberi og almenni) tala ekki saman og eru að skapast ýmis vandamál vegna þessa á vinnumarkaði t.d dæmis á leikskólum.

Það þarf að huga að vistunartíma í leikskólum og að þeir foreldrar sem vinnu sinnar vegna hafa ekki rétt á styttingu vegna þess að það var ekki samið um hana í kjarasamningi þeirra þurfi ekki að greiða hærra gjald vegna lengi viðveru barna þeirra. Oftast er þetta launafólk á lægstu laununum, konur með lítið bakland. Það þarf að endurskoða styttingu vistunartíma á leikskólum með hag heildarinnar í huga. Þetta er stórt jafnréttismál.

Þetta mál sem hér hefur verið nefnt er eitt af mögum málum sem eru að koma inn á borð til félagsins. Það eru ýmsar áskoranir fram undan í mörgum málum. Hér viðgengst vinnumansal og ýmis brot á vinnumarkaði og hefur málum fjölgað mjög hjá félaginu varðandi það. Stofnuð hafa verið gervistéttarfélög (t.d Virðing) af atvinnurekendum með mun lakari kjör en þegar eru á vinnumarkaði. Við vörum við slíkum félögum. Endilega ef þið verðið vör við að brotið er á ykkur eða ykkar vinnufélaga hafið samband við okkur hjá Bárunni, stéttarfélagi. Við vinnum fyrir þig..

Við viljum benda ykkur á að fylgjast vel með fréttabréfunum sem félagið sendir reglulega út skoða nýju orlofshúsin sem keypt voru á þessu ári. Endilega farið á mínar síður og uppfærið upplýsingar varðandi síma og netföng.

Hugsum hlýtt til hvors annars og þeirra sem um sárt eiga að binda hér heima og annars staðar.

Báran, stéttarfélag óskar ykkur gleðilegra jóla, farsældar og friðar á komandi árum með þakklæti fyrir samfylgdina liðinna ára.

F.h. Bárunnar, stéttarfélags

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

Allir félagsmenn sem störfuðu hjá sveitarfélagi á árinu 2024 eiga að fá greitt úr Félagsmannasjóði í byrjun febrúar nk. Iðgjald í sjóðinn er 1,5% af heildarlaunum.
Þar sem að Báran greiðir úr sjóðnum er mikilvægt að við höfum aðgang að upplýsingum um reikningsnúmer og netfang allra

Það er því mikilvægt að allir þeir sem að störfuðu hjá sveitarfélögum og greiddu til Bárunnar af launum sínum skrái þær upplýsingar inná félagsvef bárunnar.

Hægt er að komast á hann í vefinn í hnappnum hér að neðan.

Þegar þið eruð kominn inn ýtir þú á hnappinn í efra hægra horninu með, þaðan kemur valmynd þar sem þið veljið persónu og bankaupplýsingar og fyllið það út skilmerkilega.

 

Félagsvefur

Samningur sem nýverið var gerður á milli Virðingar og SVEIT hefur vakið upp margar spurningar um lagalegt gildi og áhrif hans á réttindi starfsfólks. Ef hann er skoðaður  bendir margt til þess að samningurinn kunni að ganga gegn ýmsum lögum og jafnvel stjórnarskrárbundnum reglum um jafnræði.

Í launatöflum samningsins má sjá að frá og með febrúar 2025 verða taxtarnir lægri en þeir sem eru í samningi SGS og SA. Að auki munu breytingar á vinnufyrirkomulagi, eins og stytting vaktaálags og aðrar breytingar á vinnutíma, draga úr kjörum starfsfólks samanborið við gildandi samning SGS og SA.

Greining á samningnum sýnir einnig að hann samræmist ekki helstu lögum sem fjalla um starfskjör, lífeyrisréttindi og starfshætti stéttarfélaga. Þar að auki eru í honum atriði sem virðast ekki uppfylla lagaskilyrði, þar á meðal réttindi tengd uppsögnum, launagreiðslum vegna veikinda eða slysa, og ákvæði um 40 stunda vinnuviku.

Auk þessa vekja ákvæði samningsins upp áleitnar spurningar um hvort brotið sé gegn lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og grundvallarreglum um jafnræði. Slík brot geta haft áhrif á réttindi starfsfólks og skapað ósanngjarna stöðu gagnvart öðrum hópum á vinnumarkaði.

Á meðan þessi mál eru til skoðunar mun Báran fylgjast vel með framvindunni og tryggja að réttindi starfsfólks séu virt.

• Samningurinn milli Virðingar og SVEIT gæti brotið í bága við lög og stjórnarskrárbundnar reglur um jafnræði.
• Laun samkvæmt samningnum verða lægri en í samningi SGS og SA frá og með febrúar 2025. • Breytingar á vinnutíma og vaktaálagi draga úr kjörum starfsfólks samanborið við gildandi samning SGS og SA.
• Samningurinn uppfyllir ekki skilyrði laga sem fjalla um starfskjör, lífeyrisréttindi og réttindi við uppsagnir, veikindi eða slys. • Atriði í samningnum virðast stangast á við lög um 40 stunda vinnuviku og jafna meðferð á vinnumarkaði.
• Ákvæði samningsins gætu skapað ósanngjarna stöðu gagnvart öðrum hópum á vinnumarkaði.

Þann tólfta desember síðastliðinn hélt Báran, stéttarfélag, árlegan jólafund sinn með stjórn, starfsfólki og trúnaðarmönnum félagsins. Fundurinn var haldinn á glæsilegum vettvangi þar sem dagskráin var fjölbreytt og áhugaverð, með erindum um ýmis málefni sem snerta starfsemi félagsins og framtíð verkalýðshreyfingarinnar.

Dagskráin hófst með erindi Halldórs Oddssonar frá ASÍ sem fjallaði um „Gul stéttarfélög“ og mikilvægi þess að tryggja öfluga og réttláta verkalýðshreyfingu á tímum aukinnar ásóknar þessara samtaka.

Því næst tók Þórir Gunnarsson til máls kl. 13:45 með yfirgripsmikilli umfjöllun um efnahagsmál, stöðu kjarasamninga og næstu skref í þeirri vinnu. Þórir veitti fundargestum skýra innsýn í stöðuna og skapaði grundvöll fyrir umræður í kjölfarið.

Eftir stutta pásu hófst erindi Aleksöndru Leonardsdóttur frá ASÍ þar sem hún fjallaði um inngildingu í störfum trúnaðarmanna. Aleksandra lagði áherslu á mikilvægi fjölbreytileika og að tryggja að allir félagsmenn upplifi sig sem hluta af heildinni.

Gunnar Karl Ólafsson, starfsmaður Bárunnar tók þá til máls með erindi sitt um ASÍ-UNG og þá miklu vinnu sem unnið er meðal ungs fólks í verkalýðshreyfingunni. Hann vakti athygli á nýjum verkefnum og hvatti trúnaðarmenn til að styðja við ungt fólk í sínu starfi og þá ungu til að taka þátt.

Sigurlaug Gröndal, fræðslustýra Félagsmálaskóla alþýðunnar tók svo við og fjallaði um málefni trúnaðarmanna. Hún lagði áherslu á hlutverk þeirra í að tryggja réttindi félagsmanna og hvernig fræðslan hefur verið að breytast.

Síðasta formlega erindið var flutt af Halldóru Sveinsdóttur, formaður Bárunnar, sem var með almenna kynningu á félaginu, framtíðarsýn félagsins og þau verkefni sem liggja fyrir á næsta ári.

Fundinum lauk með opnum umræðum og skemmtidagskrá, þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að koma með spurningar og hugmyndir áður en fundurinn endaði á ljúffengum kvöldverði.

Við þökkum öllum þeim sem að mættu á þessa notalegu samveru.

Ályktun formannafundar SGS - Virðing og SVEIT

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar starfsfólk í veitingageiranum við
meintu „stéttarfélagi“ sem stofnað var nýverið og ber heitið Virðing. Virðing ber öll
merki þess að vera gervi „stéttarfélag“, stofnað af hálfu atvinnurekenda í
veitingageiranum, stendur utan heildarsamtaka launafólks og hefur gert
gervikjarasamning sem er ekki í nokkru samræmi við þá lögmætu samninga sem eru í
gildi í veitingageiranum.

Þau kjör sem Virðing býður félagsfólki sínu eru ekki í samræmi við þá samninga sem
eru í gildi í veitingageiranum. Þvert á móti felur kjarasamningur Virðingar við SVEIT
(Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði) í sér verulegar skerðingar á launum og
réttindum starfsfólks og má sem dæmi nefna:

  • Dagvinna er greidd á virkum dögum til kl. 20:00 (til kl. 17:00 hjá SGS)
  • Vaktaálag á virkum kvöldum eftir kl. 20 er 31% (33% álag eftir kl. 17:00 hjá SGS)
  • Dagvinna á laugardögum til kl. 16:00 (45% álag allan daginn hjá SGS)
  • 31% álag á sunnudögum (45% álag hjá SGS)
  • Ekkert stórhátíðarkaup
  • Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert
  • Heimilt að gera breytingar á starfshlutfalli með viku fyrirvara (uppsagnarfrestur gildir hjá SGS)
  • Réttur barnshafandi kvenna er skertur.
  • Lakari veikindaréttur starfsfólks og vegna barna
  • Lakari orlofsréttur
  • Lakari uppsagnarfrestur
  • Ekkert um sérstaka sjóði og greiðslur í þá
  • Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna
    á að gegna starfi sínu.

Því skal haldið til haga að um umrædd störf er í gildi kjarasamningur milli
Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem kveður á um
lágmarkskjör fyrir alla í viðkomandi starfsgrein. Samkvæmt lögum er óheimilt að semja
um lakari kjör en kveðið er á um í þeim samningi. Samningur Virðingar og SVEIT grefur
á alvarlegan og ólögmætan hátt undan réttindum launafólks og þeim kjarasamningi
sem það starfar eftir.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fordæmir þessa ófyrirleitnu aðför sem
gengur út á að brjóta upp samstöðu meðal starfsfólks í greininni og fer á svig við þau
lög og reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Starfsgreinasamband Íslands hvetur félagsfólk til að standa þétt saman um sín
kjarasamnings- og lögbundnu réttindi og hafa samband við sitt stéttarfélag til að afla
sér frekari upplýsinga um sín réttindi og stöðu. Aðildarfélög sambandsins munu nú
sem endranær standa þétt að baki sinna félagsmanna og verja þeirra réttindi – réttindi
sem hafa byggst upp í gegnum árin með þrotlausri baráttu og samstöðu

SGS krefst þess að SVEIT láti af þessari alvarlegu aðför að kjörum og réttindum
verkafólks á veitingamarkaði og virði þau lámarksréttindi sem um hefur verið samið á
íslenskum vinnumarkaði.