Við vinnum fyrir þig

Translate to

  1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1       Sjóðurinn heitir Sjúkra­sjóður Bárunnar, stéttarfélags.

1.2       Sjúkra­sjóður Bárunnar, stéttarfélags er stofnaður með til­vísun til laga nr. 19, frá 1. maí 1979 og sjóða félaga sem sameinaðir voru sjúkrasjóði.

1.3        Sjúkra­sjóður Bárunnar, stéttarfélags er eign Bárunnar, stéttarfélags. Heimili hans og varnar­þing er á Selfossi.

  1. gr. Verk­efni sjóðsins

2.1       Verk­efni sjóðsins er að veita sjóðs­fé­lögum Sjúkra­sjóðs Bárunnar, stéttarfélags fjár­hags­að­stoð í veikinda-, slysa- og dá­nar­t­il­vikum. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins.

2.2       Verk­efni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrir­byggjandi að­gerðum sem snerta öryggi og heilsu­far.

  1. gr. Tekjur

3.1       Tekjur sjóðsins eru skv. kjarasamningi Bárunnar, stéttarfélags sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979, samnings­bundin gjöld atvinnu­rek­enda til sjóðsins.

3.2.      Vaxta­tekjur og annar arður.

3.3       Gjafir, fram­lög og styrkir.

3.4       Aðrar tekjur sem að­al­fundur fé­lagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

  1. gr. Stjórn og rekstur

4.1       Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm félagsmönnum sem kosnir eru á að­al­fundi Bárunnar, stéttarfélags með sama hætti og stjórn félagsins til tveggja ára í senn. Stjórnin ber ábyrgð á öllum fjár­reiðum sjóðsins.

4.2       Stjórnun sjóðsins skal vera í sam­ræmi við þau sjónar­mið sem gilda skv. almennum stjórn­sýslu­reglum, lögum félagsins, starfs og siðareglum.

4.3       Heimilt er að fela skrif­stofu Bárunnar, stéttarfélags fjár­reiður og um­sjón með sjóðnum. Þó skal halda bók­haldi sjóðsins að­skildu frá öðrum fjár­reiðum Bárunnar, stéttarfélags.

4.4       Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum.

  1. gr. Bókhald, reikningar og endur­skoðun

5.1       Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af fé­lags­legum skoðunar­mönnum og lög­giltum endur­skoðanda fyrir að­al­fund Bárunnar, stéttarfélags (að­al­fund sjóðsins).

5.2       Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

5.3       Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12.gr.

5.4       Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 3.mgr. 44.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.

  1. gr. Út­tekt óháðra eftir­lits­aðila

6.1       Ár hvert, að loknum aðalfundi, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ.

6.2       Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá trygginga­fræðing eða lög­giltan endur­skoðanda til þess að meta fram­tíðar­stöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um at­hugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda mið­stjórn ASÍ út­tekt þessa með árs­reikningi sjóðsins.

6.3       Við mat á fram­tíðar­stöðu sjóðsins skal til­greina rekstrar­kostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuld­bindingar sínar. Sér­staka grein skal gera fyrir áhrifum á af­komu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.3 og 12.4.

6.4       Geti sjóðurinn ekki staðið við skuld­bindingar sínar skv. niðurstöðu út­tektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir að­al­fund tillögu að breytingu á reglu­gerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuld­bindingar sínar.

  1. gr. Ávöxtun sjóðsins

7.1       Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftir­far­andi hætti;

  1. a)         í ríkis­skulda­bréfum eða skulda­bréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkis­sjóðs,
  2. b)         með kaupum á markaðs­skráðum verð­bréfum,
  3. c)         í bönkum eða spari­sjóðum,
  4. d)         í fas­t­eignum tengdum starf­semi sjóðsins,
  5. e)         á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11. gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41. gr. laga ASÍ.

8.gr.    Ráð­stöfun fjár­muna

8.1       a)  Ávallt skal þess gætt að ráð­stöfun fjár­muna sjóðsins brjóti ekki í bága við til­gang hans eða verk­efni.

  1. b)  Þegar um er að ræða ráð­stöfun fjár­muna til verk­efna sem ekki falla undir megintil­gang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðli­lega ávöxtun þess fjár­magns sé að ræða, sbr. a, b og c lið greinar 7.1.
  2. gr.   Grund­völlur styrk­veitinga úr sjúkra­sjóði

9.1       Rétt til styrk­veitinga úr sjóðnum eiga þeir sem full­nægja eftir­töldum skil­yrðum, sbr. þó 10. gr.

9.2       Einungis þeir sem sannan­lega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til að­stoðar myndast.

9.3       Þeir sem greidd hafa verið af til sjóðsins 1% iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði, sbr. þó gr. 12.5. Heimilt er að greiða hlutfallslega dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna veikinda unnið fulla vinnu samkvæmt læknisráði.

9.4        Hafi um­sækjandi verið full­gildur aðili í sjúkra­sjóði annars fé­lags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins, sbr. 10. gr.

9.5       Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

9.6.         Réttur miðast við greiðslu iðgjalds. Óheimilt er að skapa sér rétt til bóta með greiðslu iðgjalda aftur í tímann.

  1. gr. Sam­skipti sjúkra­sjóða

10.1     Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysa­dag­peninga úr sjúkra­sjóði eins verka­lýðs­fé­lags, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum.

10.2     Vinni maður á fleiri en einum vinnu­stað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkra­sjóð þegar sótt er um greiðslu, skal um­sækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur stað­festing annarra sjóða á því að um­sækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkra­sjóðurinn skal leita slíkrar stað­festingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfir­lit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna um­sækjandans, tegund og fjár­hæð bóta.

  1. gr. Geymd réttindi
  2. 1    Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfs­þjálfun, sækir nám­skeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ, endur­nýjaðan bóta­rétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi um­sækjandi áður verið full­gildur sjóð­fé­lagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilis­á­st­æðum.

11.2     Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi. 

 

11.3 Stjórn sjóðsins er heimilt að veita félagsmanni sem verið hefur atvinnulaus en greitt félagsgjald af atvinnuleysisbótum, rétt til dagpeninga og styrkja enda hafi hann verið sjóðfélagi í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann varð atvinnulaus. Heimild til greiðslna dagpeninga er þó háð því að félagsmaður hafi ekki fullnýtt rétt sinn til dagpeninga næst liðna 12 mánuði áður en hann missti starf sitt.

 

  1. gr. Styrk­veitingar

12.1     Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.2     Dagpeninga í 90 daga að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.

12.3     Dagpeninga í 90 daga vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

12.4     Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 180.000.-[1] krónum m.v. starfshlutfall hans. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans. Bótafjárhæð miðast við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur sömu breytingum og hún.

12.5     Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1 lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.

12.6     Dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 sem þó sé ekki lægra en 250.000.-[2] á mánuði miðað við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur fjárhæðin sömu breytingum og hún.

12.7     Réttur skv. 12.1, 12.2 og 12.3 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.

12.8     Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðs­fé­laga í formi for­varnar- og endur­hæfingar­styrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysa­kostnaðar. Fjárhæð styrkja fer eftir ákvörðun stjórnar og úthlutunarreglum sjóðsins Hámarksupphæðir styrkja skulu kynntar stjórn félagsins og bornar undir aðalfund ár hvert.

12.9     Styrkir til stofnana og fé­laga­sam­taka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. gr. 2.2.

12.10   Við ráð­stöfun fjár­muna skv. 12.8 og 12.9 skal þess gætt að mögu­leiki sjóðsins til að standa við upp­haf­legar skuld­bindingar sínar vegna sjúk­dóma og slysa skerðist ekki. Í reglu­legri út­tekt á af­komu sjóðsins, skv. 6. gr., skal út­tektar­aðili skoða þennan þátt sér­stak­lega.

12.11   Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, þar sem bætur greiðast skv. skaðabótalögum.

12.12   Sjóðnum er heimilt samkvæmt ákvörðun aðalfundar að gerast aðili að samstarfi stéttarfélaga um tryggingavernd fyrir sjóðsfélaga eða endurtryggja hjá viðurkenndu tryggingafélagi. Sé þessi heimild notuð fara greiðslur dánarbóta, örorkubóta, greiðslur vegna slysatryggingar í frítíma og slysatryggingar barna, eftir því sem við á, samkvæmt ákvæðum í samningi þar um. Um efnisatriði og gerð slíkra samninga skal fjallað á aðalfundi sjóðsins

 

  1. gr. Lausn frá greiðslu­skyldu

13.1     Ef far­s­óttir geisa getur sjóðs­stjórn leyst sjóðinn frá greiðslu­skyldum sínum um stundar­sakir. Einnig getur sjóðs­stjórn ákveðið að lækka um stundar­sakir upp­hæð dag­peninga ef af­komu sjóðsins virðist hætta búin.

  1. gr. Til­högun greiðslna úr sjóðnum

14.1     Af­greiðsla sjóðsins skal vera á skrif­stofu Bárunnar, stéttarfélags og greiðir ­sjóðurinn allan beinan kostnað af eigin rekstri, auk þess skal hann greiða til Bárunnar, stéttarfélags 15% af innkomnum iðgjöldum vegna kostnaðar við innheimtu iðgjalda.

14.2     Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrir­komu­lag á greiðslu dag­peninga og aðra starfs­til­högun. Dagpeningar skulu greiddir mánaðarlega, fyrsta virkan dag næsta mánaðar á eftir. Beri helgi- eða stórhátíðardag upp á útborgunardag skal greiða næsta virkan dag á undan.

14.3     Stjórn sjóðsins og starfs­menn hans skulu hafa að leiðar­ljósi almennar stjórn­sýslu­reglur, lög félagsins og starfs- og siðareglur um með­ferð upp­lýsinga um um­sóknir og af­greiðslu sjóðsins.

14.4     Um­sóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsyn­leg vott­orð sem tryggja rétt­mæti greiðslna.

14.5     Stjórn sjóðsins telur æskilegt og hvetur sjóðsfélaga er verið hafa frá vinnu vegna slysa eða veikinda að mæta í minnsta kosti eitt viðtal hjá Virk, starfsendurhæfingu.

15.gr.  Fyrning bótaréttar

15.1    Réttur til dagpeninga í veikinda og slysaforföllum skv. gr.12.1 og 12.4 fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

15.2    Umsóknir vegna styrkja skulu berast innan 12 mánaða frá útgáfudegi reiknings. Réttur til styrkja skv. reglugerð þessari fellur að öðru leyti niður sé þeirra ekki vitjað innan 6 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.

  1. gr. Endur­greiðsla iðgjalda

16.1     Iðgjöld til ­sjóðsins endur­greiðast ekki.

  1. gr. Upp­lýsinga­skylda

17.1     Stjórn sjóðsins er skylt að upp­lýsa sjóðs­fé­laga um rétt þeirra til að­stoðar sjóðsins á aðgengilegan hátt m.a. með út­gáfu bæklinga, dreifi­rita og/eða á heimasíðu félagsins. 

 

17.2 Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar, leynir eða lætur hjá líða að tilkynna um breytingar á högum sínum eða heilsu sem áhrif hefur á réttindi að fullu eða hluta samkvæmt þessum starfsreglum skal missa rétt til bóta úr sjóðnum. Heimilt er að endurkrefja bótaþega um þegar greiddar bætur/dagpeninga sem aflað er með sviksamlegum hætti auk dráttarvaxta. Áður en félagsmaður er sviptur bótarétti skal veita honum rétt til andmæla. Tilkynna skal félagsmanni með sannanlegum hætti ef hann er sviptur bótarétti.

  1. gr. Breyting á fjár­hæðum og styrkjum

18.1     Tillögur að breytingu á reglugerð sjóðsins skulu hafa borist stjórn sjóðsins í síðasta lagi 14 dögum fyrir aðalfund. Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir að­al­fund breytingar á al­mennum reglum um fjár­hæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.

  1. gr. Breytingar á reglu­gerðinni

19.1     Breytingar á reglu­gerðinni verða að­eins gerðar á að­al­fundi og þurfa þær að vera sam­þykktar með meirihluta greiddra at­kvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundar­boði.

19.2     Breytingar á reglugerðinni skulu sendar skrifstofu ASÍ þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi Bárunnar, stéttarfélags þann 22. maí 2017

 

 

[1] Samkvæmt launavísitölu í des 2016 kr. 365.640.

[2]  Hámarksfjárhæðin tekur breytingum með breytingu launavísitölu frá 1.3.2013 og var í des 2016  kr. 650.340.