Við vinnum fyrir þig

Translate to

1. maí 2020

„Byggjum réttlátt þjóðfélag“

Gleðilegt sumar og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks  1. maí.

 

Þegar skrifað var undir kjarasamninga á almennum markaði síðastliðið vor (2019) óraði engan fyrir því að við stæðum frammi fyrir þeim áskorunum sem við gerum nú. Þetta kemur við okkur öll og erum við enn að máta okkur inn í þessa stöðu. Aðrar eins atvinnuleysistölur hafa ekki sést, launafólk er að missa vinnuna, það má ekki heimsækja fólk, ekki vera í fjölmenni, ekki fara erlendis og svona má lengi telja. Almennt er þjóðin að standa sig vel í þessu öllu sem kemur ekki á óvart með frábæra framvarðarsveit sem fer yfir þetta með þjóðinni á hverjum degi.

 

Alþýðusamband Íslands  (ASÍ) er stærsta fjöldahreyfing launafólks í landinu sem stendur fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og vörð um réttindi þeirra. Það liggur því í hlutarins eðli að af nógu er að taka þessa daganna. Það eru stíf fundarhöld hjá verkalýðshreyfingunni alla daga þar sem farið er yfir einstaka mál og hvað hægt sé að gera til þess að verja félagsmenn þeim áföllum sem þeir verða fyrir.

 

Ferðaþjónustan og það sem henni tengist er alveg stopp. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið síðustu ár svo að mörgum hefur þótt nóg um. Það hafa verið gríðarlegar fjárfestingar í ferðaþjónustu og ekki er séð fyrir endann á þeirri stöðu sem greinin er nú í. Ferðaþjónustan átti stóran þátt í því að leiða okkur út úr síðustu kreppu. Þrátt fyrir að þessi atvinnugrein er orðin sú stærsta í okkar þjóðarbúi virðist hún standa á mjög veikum grunni og óvissan er mikil.

 

Stjórnvöld hafa kynnt efnahagspakka 1 og 2 vegna COVID 19. Þar kennir ýmissa grasa aðallega varðandi fyrirtækin. Það sem helst kemur inn á borð stéttarfélaganna er vegna hlutabótanna. Það er tímabundin aðgerð sem hugsuð var til þess að fyrirtækin og launafólk gæti haldið ráðningarsambandi og að ekki kæmi til uppsagnar.  Atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli. Launafólk getur verið á atvinnuleysisbótum að hluta og í ráðningarsambandi að hluta. Samtök atvinnulífsins „túlkuðu“ þetta strax þannig að hægt væri að fara þessa leið með því að nýta þetta á uppsagnarfresti. Búið er að leiðrétta þetta núna en því miður erum við hjá stéttarfélögunum enn að fá tilkynningar um viðlíka mál. Dæmi eru um að uppsagnarbréf eru dagsett aftur í tímann og taki svo gildi t.d. frá og með 1. apríl sem er í raun bara svindl í formi skjalafals og ekkert annað. Það er einnig dapurleg staðreynd á tímum sem þessum þegar stórfyrirtæki sem greitt hafa milljarða í arð stökkva strax á spena skattgreiðanda kinnroðalaust.

 

Það er alveg ljóst að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er ekki verið að leitast við að tryggja afkomuöryggi t.d þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóm, óléttar konur og foreldra sem misst hafa úr vinnu vegna takmarkaðs leikskóla- og skólastarfs. Stuðningur ríkisstjórnarinnar beinist aðallega að fyrirtækjum eftir óljósum leikreglum óháð því hvort þau viðhalda störfum eða fara almennt eftir lögum og reglum á vinnumarkaði. Aðgerðirnar eiga að vera í þágu fólks ekki fjármagns.

 

Í gegnum tíðina hafa Samtök atvinnurekanda og launafólks verið samband sem allir reyndu að byggja á trausti milli aðila, því ef ekki eru til fyrirtæki verða engin störf. Síðustu misseri hafa Samtök atvinnulífsins (SA) ítrekað reynt að veikja styrkleika verkalýðshreyfingarinnar/stéttarfélaganna. Mörg fyrirtæki eftir ráðleggingar frá SA hafa t.d á sama vinnustað reynt að dreifa launafólki í mörg stéttarfélög og þar með veikt samstöðuna. Það hefur jafnvel hefur verið gengið svo langt að banna launafólki að greiða í stéttarfélög. Félagið hefur fengið inn á borð til  sín allt of mörg dæmi þess að launafólk er algjörlega réttlaust og erfitt að verja það ef ekki er greitt af því eftir þeim leikreglum sem eru á vinnumarkaði.

 

Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim leikreglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins til hvað félags þeir eiga að greiða. Stéttarfélagsaðild fer eftir þeim kjarasamningi sem starfið fellur undir og starfssvæðinu. Þegar upp kemur þessi staða eins og í dag fer ekki á milli mála gildi þess að vera félagi í stéttarfélagi er óumdeilanlegt og hefur marg oft sannað sig, sérstaklega á tímum samdráttar.

Það er mörgum spurningum ósvarað varðandi kaup og kjör á þessum skrýtnu tímum. Stéttarfélögin hvetja launafólk til þess að hafa samband við sitt félag ef eitthvað er óljóst eða grunur er um að brot sé að ræða. Félögin safna saman í gagnagrunn og farið verður yfir það eins fljótt og hægt er.

Það er erfitt að sjá fyrir hvernig þetta fer allt saman en  vonandi ber þjóðinni gæfa til að vinna þetta saman á heiðarlegan og sanngjarnan hátt þar sem launafólk verður ekki skilið eftir.

Samstaða okkar launafólks er okkar sterkasta vopn.

 

 

Farið vel með ykkur

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.