Við vinnum fyrir þig

Translate to

ASÍ varar við skerðingu á eftirlitsgetu verkalýðshreyfingarinnar

Alþýðusamband Íslands hefur skilað umsögn um drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga, sem meðal annars fjalla um útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa.

Sambandið gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir um að stjórnvöldum verði ekki lengur skylt að leita umsagnar viðkomandi stéttarfélags við útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa.

Í núgildandi kerfi fær verkalýðshreyfingin upplýsingar um þau atvinnuleyfi sem gefin eru út og geta þannig haft virkt eftirlit með kjörum þeirra sem hingað koma til starfa frá löndum utan EES, ekki síst með heimsóknum á vinnustaði.

Reynsla verkalýðshreyfingarinnar er að 3. ríkis borgarar á vinnumarkaði og sérstaklega þeir sem eru berskjaldaðir gagnvart misneytingu vegna bágrar efnahagslegrar stöðu eru ólíklegri en annað launafólk til að leita til stéttarfélaganna að fyrra bragði og því mikilvægt að verkalýðshreyfingin geti átt frumkvæði að eftirliti með þeirra kjörum.

Í frumvarpsdrögunum er hins vegar gert ráð fyrir að stéttarfélög fái einungis aðgang að tölulegum upplýsingum um fjölda útgefinna leyfa og ríkisfang umsækjenda en ekki persónugreinanleg gögn nema í undantekningartilvikum. Að mati ASÍ myndi það draga verulega úr getu verkalýðshreyfingarinnar til að sinna árangursríku eftirliti á vinnumarkaði. 

ASÍ krefst þess að ef umsagnarréttur stéttarfélaganna verður felldur á brott verði tryggt að verkalýðshreyfingin fái áfram upplýsingar um nöfn, kennitölur, atvinnurekendur og starfsstöðvar þeirra sem koma hingað til starfa frá ríkjum utan EES.

Rafrænt fréttabréf

Kæru félagsmenn, við höfum sent frá okkur nýtt rafrænt fréttabréf í tölvupósti til allra sem eru með skráð netfang.

Meðal efnis er:

  • Kvennaverkfall 24. október 2025
  • Umsóknir og úthlutun orlofshúsa/íbúða 2025-2026.
  • Desemberuppbót 2025
  • Kjarasamningsbundnar launahækkanir í apríl
  • Vertu röddin okkar – Vertu trúnaðarmaður

Er lægsta verðið alltaf hag­stæðast?

Á árinu 2025 er áætlað að ríkissjóður einn og sér verji um 240 milljörðum króna í kaup á vöru og þjónustu. Sveitarfélög landsins verja jafnframt háum fjárhæðum ár hvert. Hér er því um að ræða stórar fjárhæðir úr vösum skattgreiðenda, en samt er sjaldan rætt um þær afleiðingar sem val opinberra aðila á fyrirtækjum og þjónustuveitendum hefur fyrir fólkið sem vinnur störfin, eða hvernig þörf og mat á útvistun er ákvörðuð.

Stefnulaus sparnaður

Á undanförnum árum hefur útvistun í opinberri þjónustu aukist jafnt og þétt, yfirleitt í nafni sparnaðar og án skýrrar stefnu. Þau störf sem helst hafa verið flutt frá hinu opinbera eru yfirleitt lægst launuðu störfin, sem þó eru ómissandi við rekstur samfélagsins. Þetta eru störfin sem halda sjúkrahúsum, skólum, skrifstofum og þjónustukjörnum hreinum og öruggum. Störfin eru innt af hendi af fólki sem sjaldan fær athygli, fólki sem sinnir mikilvægu starfi oft á lágum launum og við erfiðar aðstæður.

Samhliða þessari þróun hefur borið á fréttum af uppsögnum, versnandi vinnuaðstæðum og lækkun launakjara. Þegar þjónustan færist á milli aðila, t.d. frá opinberum aðila til verktaka er hætta á að starfsfólks missi áunninn rétt, starfsöryggi og taki jafnvel á sig launalækkun. Þeir sem hafa starfað lengi á sömu stofnun og byggt upp reynslu og fagmennsku hverfa á brott og með þeim tapast þekking sem þjónustan byggist á.

Dræm viðbrögð við kjörum ræstingarfólks

Nýlega skapaðist mikil umræða um kjör ræstingarfólks hér á landi sem verkalýðshreyfingin, með ASÍ, SGS og Eflingu í fararbroddi, beindi sjónum að, m.a. með fyrirspurnum til ríkis og sveitarfélaga um hvernig staðið væri að kaupum á þjónustu sem að stórum hluta er útvistað til verktaka. Viðbrögð opinberra aðila voru dræm og ekki í samræmi við þann vilja til umbóta sem kom fram meðal almennings.

Íslensk lög, líkt og hin evrópsku, gera skylt að velja hagkvæmasta tilboðið með hliðsjón af gæðum, aðbúnaði og réttindum starfsfólks og tryggja jafnframt jafnræði og gagnsæi. Í framkvæmd hefur hins vegar oftar en ekki verið gengið að því sem gefnu að velja lægsta boðið, án þess að kanna til hlítar hvort það standist lög og reglur.

Samkvæmt nýrri úttekt Evrópuþingsins eru 95% opinberra innkaupa í Evrópu ákvörðuð út frá lægsta boði. Þetta vekur furðu enda voru árið 2016 gerðar sérstakar breytingar á löggjöfinni til að færast frá þessu formi. Við útboðsferli eru notaðar svokallaðar viðmiðunarfjárhæðir sem eiga að tryggja mælanleika í reglum um útboðsskyldu og hvenær þær skulu fara fram innan landsteina og utan, en í reynd virðast þær oftar en ekki ráða úrslitum um hvort tilboð teljist óeðlilega lágt, þótt lögin geri ráð fyrir mati á gæðum og kostnaði hvers tilboðs. Lögin skylda opinbera aðila til mats og rannsóknar og að hafna tilboðum sem standast ekki m.a. ákvæði kjarasamninga, vinnuvernd og félagsleg réttindi. Viðmiðunarfjárhæðir hafa þarna ekkert eiginlegt hlutverk.

Krafa um skýra stefnu og viðmið

Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað bent á dæmi, einkum á sviði ræstingarþjónustu, þar sem rökstuddur grunur hefur verið um óeðlilega lág tilboð, launasvik eða önnur frávik, en engu að síður hafa samningar verið undirritaðir. Hreyfingin hefur kallað eftir skýrari stefnu og málefnalegum viðmiðum við mat á slíkum tilboðum, meðal annars til að þröskuldur fyrir mat á óeðlilega lágu tilboði verði ekki stilltur svo lágur að reglurnar verði að engu. Þrátt fyrir þetta ákall hefur lítið sem ekkert breyst.

Opinber innkaup eru vannýtt verkfæri

Á sama tíma hafa ríki og sveitarfélög lagt áherslu á aðhald í fjármálum og leitað leiða til sparnaðar, án þess að nýta tækifærið til að beita opinberum innkaupum sem verkfæri til að tryggja bæði betri kjör og mannlegri aðstæður starfsfólks og jafnframt heilbrigða samkeppni á vinnumarkaði. Skemmri tíma sparnaður getur svo auðveldlega orðinn lengri tíma kostnaður ef molnar undan heilbrigðum vinnumarkaði. Undirrituð skorar á ríki og sveitarfélög að gera betur og sýna gott fordæmi með því að auka vægi félagslegra þátta og sjálfbærni á vinnumarkaði við mat á viðsemjendum.

Lægsta verðið er alls ekki hagstæðast ef heilbrigðum vinnumarkaði er ógnað.

Karen Ósk Nielsen Björnsdóttir

Höfundur er lögfræðingur á skrifstofu Alþýðusambands Íslands.

Greinin birtist fyrst á Vísi, 8. október 2025.

Úthlutun orlofshúsa fyrir Jól og áramót

Nú styttist í umsóknarfrest vegna úthlutunar á orlofshúsum um jól og áramót 2025/2026. Sótt er um á Félagavef Bárunnar

Mikilvægar dagsetningar og upplýsingar sem þarf að hafa í huga.

Umsóknarfrestur:

Umsóknarfrestur er frá 8. október 2025 kl. 10:00 til 20. október 2025 kl. 10:00. Athugið að umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar gildar.

Leigutímabil:

Boðið er upp á tvö leigutímabil yfir hátíðirnar:

  • Jólin: 22. desember 2025 – 29. desember 2025 (mánudagur til mánudags)
  • Áramótin: 29. desember 2025 – 5. janúar 2026 (mánudagur til mánudags)

Úthlutun og tilkynning:

Niðurstöður úthlutunar verða tilkynntar 22. október 2025.

Við minnum á að það er gríðarlega mikilvægt að fara vel yfir og skrá rétt netfang í umsókninni. Allar tilkynningar um úthlutun og önnur mikilvæg samskipti verða send á það netfang sem gefið er upp. Ef netfangið er rangt gætu tilkynningar ekki skilað sér.

Sérstök athygli:

Íbúðirnar í Sóltúni 28 og Borgartúni 24a í Reykjavík verða í sveigjanlegri leigu. Það þýðir að þær eru ekki hluti af hefðbundinni úthlutun í þessum potti. Nánari upplýsingar um þær leigueiningar er hægt að finna hér.

Vinnustaðaeftirlit virkar

Vinnustaðaeftirlit ASÍ ásamt lögreglu, Skattinum og Vinnueftirliti ríkisins stóðu í sumar að sameiginlegu eftirlitsátaki í ferðaþjónustu á Suður- og Suðvesturlandi. Stofnanir og stéttarfélög lögðu saman krafta sína í þeim tilgangi að tryggja að farið væri eftir lögum og reglum sem gilda um rekstur, farþegaflutninga og leiðsögn í ferðaþjónustu. 

Eftirlitsaðilar könnuðu meðal annars ökurita, rekstrarleyfi, skattgreiðslur, hvíldartíma, sem og kjör hópbifreiðastjóra og leiðsögumanna í greininni. 

Í eftirliti sem þessu er fræðsla og leiðbeining alltaf veigamikill þáttur og almennt tóku launafólk og verktakar eftirlitinu vel. Margir lýstu ánægju yfir að aðhald væri haft með greininni. 

Samstarf stofnananna og verkalýðshreyfingar var vel heppnað og sýndi að það er verulegur ávinningur af því að sinna sameiginlega eftirliti. Með því móti náðist betri yfirsýn og eftirlit varð skilvirkara.

Átakið í sumar var aðeins fyrsta skrefið. Stefnt er að því að endurtaka leikinn næsta vor og sumar, með það að markmiði að standa vörð um réttindi launafólks, auka öryggi á vegum úti og tryggja rétta og sanngjarna starfshætti í greininni.

Frétt tekin af heimasíðu ASÍ

Margvíslegar athugasemdir launafólks við frumvarp um loftslagsmál

ASÍ, BHM, BSRB og KÍ fagna því að í drögum að frumvarpi til laga um loftslagsmál sé lögð áhersla á meginregluna um réttlát umskipti. Samtökin hafa hins vegar margvíslegar athugasemdir fram að færa við drögin.

Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn þessara fjögurra heildarsamtaka launafólks um frumvarpsdrögin.

Á meðal þeirra efnislegu athugasemda sem samtökin gera við frumvarpið er að þau ákvæði þess sem snúa að réttlátum umskiptum séu of óskýr og veikburða til að þau nái því markmiði. Gera þurfi breytingar á frumvarpinu svo að lög um loftslagsmál kveði á um skyldu stjórnvalda til að taka mið af réttlátum umskiptum við mótun stefnu og aðgerða í loftslagsmálum.

Réttlát umskipti

Hugtakið „réttlát umskipti“ felur í sér að afkoma launafólks sé tryggð, vinnumarkaðstengd réttindi varin, að breytingarnar leiði ekki til aukins ójafnaðar og fólki sé gert kleift að sækja sér menntun og þjálfun til að takast á við ný eða breytt störf. Krafan er sú að þær aðgerðir sem ráðast þarf í vegna loftslags- og tæknibreytinga byggi á réttlæti og jöfnuði.

Samtökin leggja til breytingar á skilgreiningu á réttlátum umskiptum sem finna má á tveimur stöðum í greinargerð með frumvarpinu. Að mati samtakanna er núverandi skilgreining í greinargerðinni of þröng.

Breytt Loftslagsráð

Samtökin gagnrýna að í frumvarpsdrögum sé lagt til að Loftslagsráð verði eingöngu skipað sérfræðingum á sviði loftslagsmála. Þetta marki grundvallarbreytingu frá fyrra fyrirkomulagi þar sem fulltrúar launafólks og atvinnurekenda hafa átt fast sæti. Meginregla réttlátra umskipta krefjist þess að samtal og samráð fari fram á vettvangi þar sem vinnumarkaðurinn hefur tryggan aðgang að upplýsingum og geti komið á framfæri sjónarmiðum sínum og hagsmunum starfsfólks, atvinnugreina og byggðarlaga.

Heildarsamtökin kveðast geta stutt þær breytingar sem lagðar eru til á skipan fulltrúa í Loftslagsráð, að því gefnu að stjórnvöld setji á fót vettvang um réttlát umskipti. Þannig megi tryggja raunverulega þátttöku launafólks í stefnumótun og þríhliða samtal og samráð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda þar sem samstöðu er náð um vegferðina áfram og hún undirbyggð með rannsóknum og greiningu.

Grænvangur án þátttöku launafólks

Samtökin segja ámælisvert að stjórnvöld hafi árið 2019 haft frumkvæði að stofnun Grænvangs, sem sagður er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum, án þess að boða heildarsamtök launafólks til þátttöku í starfi hans. Samkvæmt ársskýrslu Grænvangs fyrir árið 2024 fari stjórn vettvangsins með stefnumótun og samhæfingu aðgerða í loftslagsmálum, þar sem fimm fulltrúar séu skipaðir af stjórnvöldum og fimm af samtökum atvinnulífsins. Enginn fulltrúi launafólks eigi þar sæti.

Fjármögnun aðgerðaáætlunar í lausu lofti

Þá gagnrýna samtökin að í frumvarpsdrögum sé ekki að finna ákvæði sem feli í sér skuldbindingu um fjármögnun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum með skýrum tengslum við fjárlög og framkvæmd á stefnu stjórnvalda. Í greinargerð með frumvarpinu komi fram að hverjum ráðherra sé ætlað að standa straum af þeim aðgerðum sem heyri undir viðkomandi málefnasvið „eftir því sem fjárheimildir leyfa“. Slík vísun til almenns fjárhagslegs svigrúms ráðuneyta veitir enga raunverulega tryggingu fyrir því að aðgerðaáætlun verði hrint í framkvæmd.

Sameiginlega umsögn ASÍ, BHM, BSRB og KÍ um frumvarpsdrögin má finna hér:

Hingað og ekki lengra – Um þögnina sem styður of­beldi

Undanfarna daga hefur þjóðin fylgst með umræðu sem hefur beinst að minnihlutahópum á fordæmalausan hátt. Í miðju alls þessa eru hatursfull ummæli, grímulaus ögrun og persónulegar árásir. Það sem eitt sinn þótti óboðlegt í opinberri umræðu virðist nú orðið hversdagslegt — jafnvel ásættanlegt.

Fjölmiðlar virðast í auknum mæli sækjast eftir öfgunum. Þeir sem tala hátt, rífast, ráðast að fólki og skapa klofning fá pláss og hlustun. Þetta er orðið eins konar „söluvænn leikur“ þar sem öfgar og niðurrif eru í forgrunni — en mannvirðing og siðferði víkja.

Við megum ekki láta þetta viðgangast. Ofbeldi kemur í mörgum myndum. Það birtist ekki aðeins í barsmíðum eða öskrum, heldur líka í því að líta undan. Að þegja. Að samþykkja með því að gera ekki neitt.

Margir sem verða vitni að hatursorðræðu gera ekkert. Þeir vilja ekki „blanda sér í þetta“, vilja ekki missa stöðu sína eða verða fyrir sömu árásum. En þegar við stöndum hjá og látum sem ekkert sé, þá erum við ekki hlutlaus. Þá styðjum við óbeint við það sem við erum að horfa á. Og það er líka ofbeldi.

Við sem störfum í hreyfingu launafólks vitum að réttlæti og mannvirðing eru hornsteinar þess sem við berjumst fyrir. Það nær ekki aðeins til launakjara eða vinnutíma, heldur líka til þess hvernig við tölum um hvort annað. Hvernig við stöndum með þeim sem eru á jaðrinum. Hvernig við bregðumst við þegar á fólki er ráðist.

Þetta snýst um meira en eitt mál, eina persónu eða eina umræðu. Þetta snýst um hvaða samfélag við viljum lifa í. Og það samfélag á ekki að byggja á þögn, undanlátssemi eða ótta.

Þess vegna segi ég: Hingað og ekki lengra.

Við verðum öll að axla ábyrgð. Við verðum að segja stopp. Og við verðum að gera það saman.

Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags.

ASÍ stendur við frétt um bensínsverð og vísar ásökunum N1 á bug 

ASÍ hafnar alfarið  ásökunum N1 og forstjóra þess um óvönduð vinnubrögð í umfjöllun Verðlagseftirlits ASÍ fimmtudaginn 14. ágúst um innlend olíuverð. 

Í frétt Verðlagseftirlitsins er bent á að skýr merki séu um samræmda verðlagningu á afgreiðslustöðvum fjögurra olíufélaga, sem auglýsa sérstaklega ódýrasta verð innan hvers fyrirtækis. Þegar verð fylgjast að verður að gera greinarmun á virkum samkeppnismarkaði og þegjandi samhæfingu (e. tacit collusion).  

Þegjandi samhæfing 

Á virkum samkeppnismörkuðum geta verð fylgst að þegar fyrirtæki bregðast sjálfstætt við sömu markaðsaðstæðum. Þegjandi samhæfing á sér stað þegar fáir stórir keppinautar taka gagnkvæmt mið af hegðun hvers annars, einkum í verðlagningu, án þess að eiga í beinum samskiptum. Með því geta markaðsaðilar forðast verðsamkeppni og viðhaldið hærri álagningu.11 

Í fréttinni er aðeins tekin afstaða til þess hvort eldsneytismarkaðurinn sýni einkenni þegjandi samhæfingar. Engin afstaða er tekin til þess hvort samhæfingu megi rekja til samskipta viðkomandi keppinauta. Verðlagseftirliti ASÍ er ekki kunnugt um slík samskipti og hefur engar vísbendingar þess efnis. 

Fagleg ábyrgð Verðlagseftirlitsins er fyrst og fremst gagnvart almenningi. Því miðar framsetning ASÍ við verðlag á dælu. Sé útsöluverð leiðrétt fyrir opinberum gjöldum hefur meðaltal lægstu verða lækkað um 4,7% frá ársgrunni. Heimsmarkaðsverð lækkaði á sama tíma um 13,7%.  

Neytendur njóta ekki styrkingar krónu 

Þá laut fréttin ekki síst að þeirri staðreynd að kaupendur eldsneytis á Íslandi hafa ekki notið verulegrar styrkingar krónunnar það sem af er ári. Með því hefur vísitala neysluverðs lækkað minna en ella með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð húsnæðislán landsmanna. 

Meginefni fréttarinnar stendur því óhaggað.  

  1. Sjá t.d. Samkeppniseftirlitið (2015). Frummatsskýrsla vegna markaðsrannsóknar á eldsneytismarkaði – https://www.samkeppni.is/media/skyrslur-2015/Frummatsskyrsla–Markadsrannsokn-a-eldsneytismarkadi.pdf   ↩︎