Kæru félagar
Þetta ár hefur verið viðburðaríkt eins og flest ár. Hvert ár er með sínu sniði eins og sagt er og oft eru góðir og slæmir hlutir að gerast sem koma misjafnlega við okkur launafólk. Hlutur kvenna hefur verið áberandi varðandi þær kosningar sem hafa verið á þessu ári. Kona komin í embætti biskups Íslands, kona kosin forseti Íslands og þrjár konur leiða hér stjórnunarmyndunarviðræður. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi sögunnar og maður freistast til að halda að þetta gæti þýtt eitthvað nýtt og væri skref áfram til jafnréttis.
Á þessu ári voru undirritaðir kjarasamningar til fjögurra ára. Markmið þeirra var að ná hér niður verðbólgu og vaxtarstigi. Ekki eru heimilin enn þá farin að sjá miklar breytingar í sínum heimilisrekstri því margt hefur hækkað á móti og hafa þessi loforð ekki gengið eftir eins og um var rætt og þarf að velta stöðunni fyrir sér við endurskoðun kjarasamninga, hvað hefur áunnist og hverjir stóðu við gefin loforð um að styðja við þessu tilraun til verðbólgu og vaxtalækkun.
Ekki var samið um vinnutímastyttingu á almennum vinnumarkaði (Efling og SGS). Flestir innan ASÍ aðrir eru komnir með vinnutímastyttingu.
Það er með ólíkindum að vinnutímastytting skulu ekki ná til þeirra sem vinna mjög erfið störf og eru á lægstu laununum. Markaðirnir (opinberi og almenni) tala ekki saman og eru að skapast ýmis vandamál vegna þessa á vinnumarkaði t.d dæmis á leikskólum.
Það þarf að huga að vistunartíma í leikskólum og að þeir foreldrar sem vinnu sinnar vegna hafa ekki rétt á styttingu vegna þess að það var ekki samið um hana í kjarasamningi þeirra þurfi ekki að greiða hærra gjald vegna lengi viðveru barna þeirra. Oftast er þetta launafólk á lægstu laununum, konur með lítið bakland. Það þarf að endurskoða styttingu vistunartíma á leikskólum með hag heildarinnar í huga. Þetta er stórt jafnréttismál.
Þetta mál sem hér hefur verið nefnt er eitt af mögum málum sem eru að koma inn á borð til félagsins. Það eru ýmsar áskoranir fram undan í mörgum málum. Hér viðgengst vinnumansal og ýmis brot á vinnumarkaði og hefur málum fjölgað mjög hjá félaginu varðandi það. Stofnuð hafa verið gervistéttarfélög (t.d Virðing) af atvinnurekendum með mun lakari kjör en þegar eru á vinnumarkaði. Við vörum við slíkum félögum. Endilega ef þið verðið vör við að brotið er á ykkur eða ykkar vinnufélaga hafið samband við okkur hjá Bárunni, stéttarfélagi. Við vinnum fyrir þig..
Við viljum benda ykkur á að fylgjast vel með fréttabréfunum sem félagið sendir reglulega út skoða nýju orlofshúsin sem keypt voru á þessu ári. Endilega farið á mínar síður og uppfærið upplýsingar varðandi síma og netföng.
Hugsum hlýtt til hvors annars og þeirra sem um sárt eiga að binda hér heima og annars staðar.
Báran, stéttarfélag óskar ykkur gleðilegra jóla, farsældar og friðar á komandi árum með þakklæti fyrir samfylgdina liðinna ára.
F.h. Bárunnar, stéttarfélags
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir