1. maí, hátíðarræða Drífu Snædal framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins
Kæru félagar,
Vorsins 2015 verður minnst um langan tíma í verkalýðssögunni. Við stöndum í miðjum átökum, þeim hörðustu sem hafa verið á vinnumarkaði í áratugi. Svona átök spretta ekki upp úr engu og eiga sér langan aðdraganda. Uppskriftin að þeirri samstöðu sem við finnum fyrir og þeim víðtæka stuðningi sem er í samfélaginu við hækkun launa er ekkert sérstaklega flókin. Í uppskriftina fer ósanngjörn skipting auðs og óbilgirni viðsemjenda.
Þegar fótunum var kippt undan samfélaginu okkar árið 2008 fór af stað sú lífseiga saga að við værum öll í sama báti. Það er kjaftæði því við höfum aldrei öll verið í sama báti. Í hruninu misstu sumir lífsafkomu sína en aðrir gátu reddað sér með því að skrá íbúðina sína á eignarhaldsfélag. Sumir komust í uppgrip í skilanefndunum á meðan aðrir þurftu að flytja inn til foreldra sinna á nýjan leik. Við erum ekki og höfum aldrei verið öll í sama báti. Við gerðum okkur hins vegar öll grein fyrir því að staða landsins var erfið og vissum að það væri ekki mikið að sækja í kjarabótum. Þessi staða er gjörbreytt hin allra síðustu ár. Við getum valið hvort við ætlum aftur í ruglið sem var fyrir hrun og kom á endanum niður á lífskjörum okkar eða við getum valið að byggja sanngjarnara þjóðfélag þar sem stefnt er að jöfnuði, velferð og réttlæti! Aðeins þannig er hægt að ræða um stöðugleika, þegar því er náð. Stöðugleiki sem byggir á ósanngjarnri misskiptingu auðs og löskuðu velferðarkerfi er ekki stöðugleiki sem hægt er að sætta sig við.
Það eru ýmsir mælikvarðar til að mæla gott samfélag. Við getum skoðað tækifæri til menntunar, tækifæri til heilbrigðis, aðgang að náttúru og hreinu lofti og svo framvegis. Eitt lykilatriðið í mínum huga og einn helsti mælikvarði á það hvort samfélög séu góð eða ekki eru möguleikar fólks til að framfleyta sér og lifa sómasamlegu lífi. Það er ekki ósanngjörn krafa að geta lifað á 8 stunda vinnudegi – það er mælikvarði á það hvort um lífvænlegt samfélag er að ræða! Þetta eru einmitt kröfur okkar í dag sem alla aðra daga.
Á haustdögum þegar við undirbjuggum kjarasamningana þá settu formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins völdin í hendurnar á félagsmönnum. Hvað viljið þið? Hvað þurfið þið? Hvað eruð þið til í að ganga langt til að styðja við ykkar kröfur?
Skilaboðin frá verkafólki um allt land voru mjög skýr: Við viljum 300 þúsund króna lágmarkslaun og við erum tilbúin til að berjast fyrir því! Með þessa kröfu fóru formennirnir til atvinnurekenda sem að sjálfsögðu höfðu aldrei séð þvílíka kröfuhörku. Orðið sem var oftast notað var Ábyrgðaleysi! Hvað með vextina? Hvað með verðbólguna? Hvað með stöðugleikann?
Verkafólk var ekki ginkeypt fyrir slíkum áróðri enda hafa engir aðrir verið gerðir ábyrgir fyrir vöxtum, verðbólgu og stöðugleika. Þegar hæst launuðu stéttirnar voru hækkaðar um tugi og jafnvel hundruð þúsunda var ekkert rætt um að hér færi allt til fjandans. Ekki heldur þegar 80 milljörðum var stráð yfir samfélagið í skuldaleiðréttingu – aðgerð sem var ekki til að jafna kjörin og var svo sem ekki ætluð til tekjujöfnunar heldur. Þegar verkafólk kemur hins vegar með kröfur um að geta lifað á laununum sínum þá fer allt til fjandans – þvílíkt bull!
Þegar við hófum þessa vegferð vorum við ekki viss hvaða stuðningur væri raunverulega á bak við kröfurnar. Var fólk tilbúið til að fylgja þeim eftir og myndi almenningur styðja okkur?
Í dag – fyrsta maí – get ég viðurkennt að ég hefði ekki látið mig dreyma um stuðninginn og meðbyrinn sem íslenskt verkafólk nýtur. Í atkvæðagreiðslunni um hvort boða ætti verkfall náðum við kosningaþátttöku sem hefur varla sést áður í leynilegum kosningum meðal félagsmanna almennra verkalýðsfélaga. Og niðurstaðan gat varla verið meira afgerandi – 95% sögðu JÁ – við erum tilbúin til að berjast þótt það krefjist fórna!
Þegar stuðningur meðal almennings er mældur þá lýsa yfir 90% landsmanna yfir stuðningi við kröfurnar. Einstakir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa lýst eindregnum stuðningi og meira að segja hafa einstaka fjölmiðlar lýst því yfir að þeir bakki okkur upp. Ég leyfi mér að segja að varla hafi nokkurn tíman verið á lofti jafn skýr krafa um bætt kjör og varla hefur nokkurn tíman verið jafn víðtækur stuðningur við þá kröfu. Við erum á réttri leið!
Það eru forréttindi að fá að starfa með hreyfingu þar sem samstaðan er jafn órofa, þar sem skilaboðin eru jafn skýr og fólk jafn tilbúið til að taka þátt og berjast. Verkalýðshreyfingin er lýðræðisleg hreyfing og tæki fólks til að koma kröfum sínum á framfæri og skipuleggja sig til samstöðu. Þetta hlutverk verkalýðshreyfingarinnar hefur kristallast í vinnu síðustu mánaða. Almennt verkafólk á Íslandi á kröfurnar, á baráttuandann og samstöðuna og hreyfingin er tækið til að fá kröfunum framgengt. Það eru fáir sem segja það í dag að verkalýðshreyfingin sé ekkert annað en sumarbústaðaleiga – hún sannar gildi sitt aftur og aftur.
En verkalýðshreyfingin er ekki sér íslenskt fyrirbæri heldur er hún í eðli sínu alþjóðleg enda hagsmunir launafólks í öllum löndum þeir sömu. Í alþjóðlegum samanburði megum við vera stolt af okkar hreyfingu og þeim árangri sem við höfum náð. Víðsvegar í Evrópu er verið að berjast gegn 20% atvinnuleysi, starfsmannaleigum, endalausum tímabundnum ráðningum, félagslegum undirboðum og svo framvegis. Kúgun verkafólks tekur á sig alls konar grimmar myndir, flestar höfum við náð að uppræta hér á landi. Eitt svakalegasta dæmið eru svokallaðir núlltímasamningar sem fólki víða um álfuna er boðið uppá. Þá er skrifað undir ráðningarsamning án skilgreinds starfshlutfalls og starfsfólk fær einungis greitt fyrir það sem það vinnur. Á morgnana berast SMS um hvort nærveru þinnar sé óskað eða ekki. Þetta er nútímaútgáfan af daglaunamanninum sem mætti niður á höfn á morgnanna í þeirri von að fá eitthvað að gera þann daginn. Sem betur fer erum við laus við slíkt hér á landi og megum við þakka það sterkri verkalýðshreyfingu. Við verðum hins vegar að styðja félaga okkar í öðrum löndum, leita frétta og miðla upplýsingum og stuðningi.
Við búum svo sannarlega við það í dag að vera hluti af alþjóðlegri hreyfingu. Ég hef síðustu tvo daga tekið á móti tugum skeyta víðs vegar að úr heiminum þar sem félagar okkar senda okkur stuðning. Allt frá frændum okkar á Norðurlöndunum til félaga okkar í Suður Ameríku og í Eyjaálfu. Sum skeytanna eru á tungumálum sem ég skil ekki einu sinni en google translate ber okkur fallegar kveðjur sem ylja baráttuandanum. Ómurinn berst um heiminn – á Íslandi er barist fyrir mannsæmandi grunnlaunum og við styðjum skilyrðislaust baráttuna og réttinn til að leggja niður vinnu til að fá kröfunum framgengt.
Kæru félagar,
Ég vil nota tækifærið til að þakka stéttarfélögunum hér á svæðinu fyrir samstarfið og lýsa aðdáun minni á þeirri vinnu sem er hér unnin. Hingað hef ég mætt síðustu ár til að hitta trúnaðarmenn, kíkt í kaffi á skrifstofuna og fengið liðsinni þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í launaútreikningum. Ég hef fylgst með störfum hér á vettvangi og veit að hér er unnið bæði með hjartanu og hausnum en þannig er að mínu mati best að vinna. Vera tilbúin til að leggja mikið á sig fyrir þá einstaklinga sem leita aðstoðar, eins og ég veit ótrúleg dæmi um hér á svæðinu, en geta jafnframt lagt kalt mat á hlutina og fundið frjóar lausnir þegar öll sund virðast lokuð. Þetta kæru félagar hafið þið til að bera og ég fylgist af aðdáun með störfum ykkar. Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að ávarpa ykkur. Baráttan er rétt ný hafin og ef við höldum áfram á sömu braut eru okkur allir vegir færir.
Til hamingju með daginn! Berjumst til sigurs!
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands