Við vinnum fyrir þig

Translate to

107% verðmunur á bílatryggingum

Mjög mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði fyrir bílatryggingar í nýjustu könnun Verðlagseftirlits ASÍ. Í könnuninni kemur fram að 107% munur er á milli hæsta og lægsta tilboðsins í ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu. Lægsta verðið var hjá VÍS, 129.559 kr. fyrir ábyrgðartryggingu og 43.631 kr. fyrir kaskótryggingu, samtals 170.190 krónur. TM var með hæsta tilboðið, 261.061 kr. fyrir ábyrgðartryggingu og 90.800 fyrir kaskótryggingu, samtals 351.861 krónur. Könnunin var gerð í samstarfi við bifreiðaeigenda sem fékk tilboð í lögboðnar ökutækjatryggingar ásamt bílrúðutryggingu og kaskótryggingu fyrir árgerð 2009 af VW Polo.

VÍS með lægsta verðið en TM það hæsta

Öllum bifreiðaeigendum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir ökutæki sitt ásamt slysatryggingu ökumanns og eiganda. Í könnuninni var því gerður verðsamanburður á þessum tryggingum auk bílrúðu- og kaskótryggingar en kaskótryggingin veitir tryggingarvernd ef hinn tryggði veldur sjálfur tjóni á eigin bifreið vegna áreksturs og veltu eða ef tjón verður vegna innbrots, þjófnaðar eða skemmdarverka. Í meðfylgjandi töflu má sjá verðsamanburð á tilboðum tryggingafélaganna fjögurra.

Eins og sjá má býður VÍS lægsta verðið, bæði fyrir ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu, 126.559 kr fyrir ábyrgðartrygginguna og 43.631 kr. fyrir kaskótrygginguna eða 170.190 kr. ef báðar tryggingarnar eru teknar. Tilboð TM, sem var lang hæst af öllum tilboðunum, hljóðaði upp á 261.061 kr. fyrir ábyrgðartryggingu og 90.800 kr. fyrir kaskótryggingu eða 351.861 kr. fyrir báðar tryggingarnar. Verðmunurinn á tilboðunum er því 181.671 kr., eða 106%, á ábyrgðartryggingu hjá TM og VÍS en 169.791 kr., eða 107%, ef bæði ábyrgðartrygging og kaskótrygging eru keyptar.

Tiltölulega lítill munur er á tilboðunum frá Verði og Sjóvá en ábyrgðartryggingin var ódýrari hjá Sjóvá, 159.332 kr. en 165.558 kr. hjá Verði. Kaskótryggingin var hins vegar ódýrari hjá Verði, 52.663 kr. samanborið við 62.432 kr. hjá Sjóvá. Heildarverð fyrir ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu hjá Verði var 218.221 kr. en 221.766 kr. hjá Sjóvá.

Mishá sjálfsábyrgð hjá tryggingafélögunum

Þó að verð vegi þungt þegar tekin er ákvörðun um val á tryggingarfélagi þarf líka að skoða fjárhæð sjálfsábyrgðar, sem er sá peningur sem eigandi þarf sjálfur að reiða af hendi vegna tjóna. Engin eigin áhætta eða sjálfsábyrgð er á ábyrgðartryggingu hjá VÍS. Hjá TM leggst 35.000 kr. viðbótariðgjald eftir tjón umfram 200.000 kr. en það fellur í gjalddaga þegar tryggingafélagið hefur greitt fyrrnefnda upphæð. Sjálfsábyrgðin hjá Verði er 34.600 kr. en Sjóvá innheimtir iðgjaldsauka að upphæð 25.300 krónur vegna tjóna sem fara yfir 100.000 krónur. Í öllum þessum tilfellum er verið að tala um sjálfsábyrgð vegna ábyrgðartryggingar (skyldutryggingar) en eigin áhættu vegna kaskótryggingar má sjá í tölfunni. Þá skal tekið fram að iðgjöld hjá tryggingafélögunum geta hækkað við endurnýjun í kjölfar tjóns.

Verðhækkanir á bílatryggingum langt umfram vísitölu neysluverðs

Miklar verðhækkanir hafa orðið á bílatryggingum síðustu ár en hækkanirnar eru langt umfram hækkun á vísitölu neysluverðs. Á árunum 2014-2018 hafa bílatryggingar hækkað um 25% á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7%. Bílatryggingar hafa því hækkað um 17 prósentustig umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir að bílar hafa lækkað um 13% í verði og varahlutir um 20% á sama tímabili. Ef tímabilið 2016-2018 er skoðað hækkuðu bílatryggingar um 15% en vísitala neysluverðs um 4% og hækkuðu bílatryggingar því um 11% umfram verðlag á því tímabili.

 

Neytendur geta skipt um tryggingafélög með mánaðarfyrirvara

Árið 2015 tóku gildi breytingar á lögum um vátryggingarsamninga sem kveða á um að viðskiptavinir tryggingafélaga geti sagt upp tryggingum með eins mánaðar fyrirvara vilji þeir skipta um tryggingafélag. Viðskiptavinir eru því ekki skuldbundnir viðskiptum við tryggingafélögin lengur en til eins mánaðar í senn en fyrir lagabreytinguna árið 2015 var einungis hægt að skipta um tryggingafélag einu sinni á ári. Neytendur eru því hvattir til að gera verðsamanburð með því að fá tilboð í tryggingar sínar þar sem að tryggingafélög birta ekki verðskrár sem hægt er að gera samanburð á.

Við val á tryggingarfélagi er mikilvægt að kynna sér vel skilmála tryggingafélaganna því þeir geta verið mjög mismunandi. Við samanburð á bílatryggingum er nauðsynlegt að neytendur beri ekki einungis saman það iðgjald sem greiða þarf í upphafi heldur taki einnig með í reikninginn þann kostnað sem við bætist, annað hvort vegna sjálfsábyrgðar eða vegna hækkunar iðgjalds við næstu endurnýjun, ef viðkomandi hefur valdið tjóni sem tryggingafélagið hefur bætt.

Leitað var tilboða hjá eftirtöldum tryggingafélögum: Sjóvá, VÍS, TM og Verði.

Nánari samanburð má sjá í töflu hér. 

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.