Við vinnum fyrir þig

Translate to

127 þúsund króna munur á ári fyrir skóladagvist og skólamat

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám frá árinu 2017 – 2018 fyrir skóladagvistun, hressingu og hádegismat í skólunum. Mikill munur er á kostnaði við skóladagvistun og skólamáltíðir hjá sveitarfélögunum en hæst eru gjöldin fyrir skóladagvistun ásamt hádegismat og hressingu hjá Garðabæ eða 37.114 kr. en lægst hjá Vestmanneyjum eða 24.360 kr. Munurinn nemur 12.754 kr. á mánuði sem gera 127.540 kr. á ári miðað við 10 mánaða vistun og er þetta 52% verðmunur.

Verðhækkanir sveitarfélaganna á kostnaði fyrir 1 barn í skóladagvistun með hressingu og hádegismat þetta árið eru á bilnu 1-4,6%. Mesta hækkunin á heildarkostnaði er í Kópavogi en þar er nemur hækkunin 4,6% en Reykjavík kemur í humátt á eftir með 4,5% hækkun og Akraneskaupsstaður með 4,3% hækkun. Gjöldin hækka ekkert milli ára í Hafnafirði, Reykjanesbæ og Vestmanneyjum.

Gjaldskrá fyrir skóladagvistun, hressingu og hádegismat í skólum – TAFLA.

Hæstu gjöldin í Garðabæ, lægstu í Vestmanneyjum

Mikill munur er á milli sveitarfélaganna á heildarkostnaði við skóladagvist barna þar sem foreldrar eru með börn í frístund, hádegismat og síðdegishressingu. Þannig borgar foreldri í Garðabæ með barn í frístund og hádegismat í skólanum 12.754 krónum meira á mánuði en foreldri í Vestmanneyjum en það gerir 127.540 krónur á ári (miðað við 10 mánaða vistun) og er það munur upp á 52%. Seltjarnarnes er með önnur hæstu gjöldin eða 36.297 kr. og Akureyri með þriðju hæstu gjöldin, 35.721 kr. Eins og fyrr sagði býður Vestmanneyjabær upp á lægstu gjöldin á 24.360 en Reykjanesbær býður upp á næst lægstu gjöldin á 24.565 kr. sem er einungis 205 kr. hærra en gjöld Vestmanneyja. Reykjavík kemur síðan á eftir Reykjanesi með þriðju lægstu gjöldin, 27.279 kr.

Heildarkostnaður fyrir skóladagvist og hádegismat hækkar hjá 12 sveitarfélögum af 15 en mesta hækkunin er í Kópavogi upp á 4,6%, 4,5% í Reykjavík og 4,3% á Akranesi. Minnsta hækkunin er á Ísafirði eða 1,2% og 1,3% í Mosfellsbæ en Vestmanneyjabær, Reykjanesbær og Hafnafjarðarkaupsstaður hækka gjöldin ekkert milli ára.

Mesta og minnsta hækkun á heildargjöldum frá árinu 2017-2018; skóladagvist, síðdegishressing og hádegismatur  
Kópavogskaupstaður 4,6%
Reykjavíkurborg 4,5%
Akraneskaupstaður 4,3%
Fjarðarbyggð 2,9%
Sveitafélagið Árborg 2,7%
Seltjarnarneskaupstaður 2,4%
Akureyrarkaupstaður 2,1%
Garðabær 1,7%
Sveitarfélagið Skagafjörður 1,6%
Borgarbyggð 1,6%
Mosfellsbær 1,3%
Ísafjarðarbær 1,2%
Hafnarfjarðarkaupstaður 0,0%
Reykjanesbær 0,0%
Vestmannaeyjar 0,0%

 

40% munur á verði á hádegismat

Hádegismatur hækkar í 11 af 15 sveitarfélögum frá síðasta ári en mesta hækkunin er hjá Reykjavíkurborg þar sem hádegismatur hækkar um 8%, úr 441 kr. í 476 kr. Næstmesta hækkunin á mat er í Mosfellsbæ eða um 5%. Engar verðhækkanir eru á hádegismat í Vestmannaeyjum, Garðabæ og á Reykjanesi. Eftir stendur að hádegismaturinn er dýrastur á Ísafirði á 505 kr. máltíðin. Þar á eftir kemur Reykjavík með 476 kr. fyrir máltíðina og Garðabær með 474 kr. fyrir máltíðina. Ódýrastur er hádegismaturinn í Sveitarfélaginu Árborg en þar kostar máltíðin 359 kr. og Akranes er með næst ódýrasta hádegismatinn en þar kostar máltíðin 369 kr.

 

Reykjavík með hæstu systkinaafslættina – Fjarðarbyggð með lægstu

Systkinaafslættir er eitt af því sem getur skipt miklu máli fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn enda getur kostnaður heimilisins við frístund og mat í skóla verið ansi hár. Systkinaafslættir sveitarfélaganna fyrir fólk með fleiri en 1 barn eru þó afar misjafnir. Reykjavík er með hæstu afslættina í heildina litið eða 75% afslátt fyrir annað barn og 100% afslátt fyrir þriðja barn en Fjarðarbyggð er með lægstu afslættina eða 25% fyrir annað barn og 50% fyrir þriðja barn. Í Kópavogi færðu 30% afslátt fyrir annað barn og sama gildir fyrir Ísafjörð. Flest sveitarfélögin eða tíu af fimmtán sveitarfélögum bjóða upp á 50% afslátt fyrir annað barn og átta af fimmtán bjóða upp á 75% afslátt fyrir annað barn. Reykjavík, Akureyri, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Sveitarfélagið Skagafjörður og Ísafjarðabær eru allt sveitarfélög með 100% afslætti af gjöldum fyrir þriðja barn.

Um samantektina

Misjafnt er milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin er uppbyggð en svo dæmi séu tekin eru sum sveitarfélög með hámarksgjald, mánaðargjald, aukagjald fyrir aðstoð við heimanám, skráningar gjald o.s.frv. Sama gildir um hádegismatinn sem er sums staðar seldur sem annaráskrift, mánaðargjald eða sem klipikort eða stakar máltíðir. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlitið við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag sem gerir 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin. Einnig er oft í boði ávaxtastund og mjólkuráskrift sem er ekki tekin með í verðsamanburðinum.

Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.

 

Tekið af heimasíðu ASÍ