Við vinnum fyrir þig

Translate to

4% verðmunur á matarkörfunni í lágvöruverðsverslunum

4% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum síðastliðinn mánudag. Matarkarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði 24.420 kr. en dýrust í Nettó á 25.437 kr. sem er 1.017 kr. verðmunur. Kostur neitaði þátttöku í könnunni.

Mestur verðmunur í matarkörfunni var á „vanillusykri“ sem var dýrastur á 3.750 kr./kg. í Krónunni en ódýrastur á 1.500 kr./kg. í Nettó eða 150% verðmunur. Mikill verðmunur var einnig á „rúðuúða“ sem var dýrastur á 498 kr./l. í Krónunni en ódýrastur á 259 kr./l. í Bónus eða 92% verðmunur. Einnig var töluverður verðmunur á ódýrasta „þurrfóðrinu“ fyrir hunda semvar dýrast á 373 kr./kg. í Bónus og Nettó en ódýrast á 225 kr./kg. í Krónunni eða 66% verðmunur.

Í þessari könnun var ýmist skoðaður ódýrasti valkostur af ákveðinni vöru t.d. ódýrasta kílóverðið af hveiti eða ákveðið vörumerki t.d. haframjöl frá OTA. Mikill verðmunur er almennt á ódýrasta valkosti enda oft um vörumerki frá misjöfnum framleiðendum að ræða. Til dæmis má nefna verðmun á ódýrasta valkosti af ferskum kjúklingaleggjum, sem voru dýrastir á 999 kr./kg. í Krónunni en ódýrastur á 695 kr./kg. í Bónus sem er 44% verðmunur.

Af merkjavöru má nefna að túrtappi frá o.b. er dýrastur á 27 kr./st. í Nettó og ódýrastur í Krónunni á 22 kr./st. sem gera 23% verðmun.


Sjá nánar í töflu.

Vörukarfan samanstendur af 72 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjavörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.


Kostur neitaði þátttöku í könnuninni

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Kringlunni, Krónunni Höfða og Nettó Mjódd.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.


Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ