Við vinnum fyrir þig

Translate to

41. þing ASÍ hófst í dag

Rúmlega 300 þingfulltrúar frá 51 félagi innan Alþýðusambandsins mættu til þriggja daga þings á Hilton Nordica í dag kl. 10. Yfirskrift þingsins er Samfélag fyrir alla – jöfnuður og jöfn tækifæri.

Í opnunarræðu brýndi Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ  þingfulltrúa á þingi ASÍ til samstöðu til að verjast aðförinni að velferðarkerfinu og vaxandi misskiptingu í samfélaginu. Um kjaramál sagði Gylfi Arnbjörnsson m.a.:

„Það er alveg ljóst að í komandi kjarasamingum verður að leiðrétta kjör félagsmanna ASÍ til jafns við aðra. Það er krafa félaga okkar.

En það er einnig ljóst að það verður engin sátt um efnahagslegan stöðugleika ef hann á að byggja á vaxandi misskiptingu og fátækt og stöðugt veikari innviðum velferðarkerfisins.

Það verður engin sátt við verkalýðshreyfinguna þegar ráðist er að lífeyrisréttindum okkar, réttindum atvinnuleitenda eða skorið á tækifæri til endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys.

Nú er einfaldlega komið nóg. Það er ljóst að ríkisstjórnin er fyrir ríka fólkið og verkalýðshreyfingin verður að beita afli sínu til að forða því að Ísland framtíðarinnar verði land misskiptingar og glataðra tækifæra. Land þar sem fyrirtækjum og efnafólki eru hyglað á kostnað alls almennings.“