Við vinnum fyrir þig

Translate to

50-75% verðmunur á umfelgun

Þann 15. apríl eiga vetrardekkin að vera horfin undan bifreiðum landsmanna enda komið vor skv. almanakinu. Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 36 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. mánudag. Þjónustan var könnuð fyrir nokkrar tegundir fólksbíla. KvikkFix var með lægsta verðið í könnuninni í öllum tilvikum, en allt að 3.499 kr. verðmunur var á þjónustu hjólbarðaverkstæðanna við að skipta, umfelga og jafnvægisstilla dekk á 16´´ álfelgu undir meðalbíl.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl (Subaru Legacy) með 16´´ áfelgum(205/55R16) sem var ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix í Kópavogi en dýrust á 8.149 kr. hjá Kletti í Reykjavík. Verðmunurinn er 3.499 kr. eða 75%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á 14´´ stálfelgu (175/65R14) undir smábíl (Toyota Yaris). Þjónustan var ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix í Kópavogi, en dýrust á 6.990 kr. hjá umboðsaðila Toyota á Selfossi. Verðmunurinn er 2.340 kr. eða 50%.

Ef skoðað er verð á þjónustu fyrir minni meðalbíl (Ford Focus Trend) á 15´´ álfelgum (195/65R15) var þjónustan ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix í Kópavogi en dýrust á 7.650 kr. hjá Kletti í Reykjavík. Verðmunurinn er 3.500 kr. eða 75%.


Allt að 29% hækkun frá síðustu könnun

Átta hjólbarðaverkstæði hafa hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti frá því í haust. Mesta hækkunin var hjá Toyota umboðinu á Akureyri um 29%, Pitstopp og Dekkjalagerinn Selfossi um 18% og 10% hjá Barðanum í RVK. Verð þjónustunnar hefur lækkað eða staðið í stað síðan í fyrra, hjá 20 aðilum af 28. Mesta lækkun var hjá Hjólkó/Vöku um 14% og Nesdekk um 6% og Smurstöðinni Klöpp um 3%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.


Eftirfarandi aðilar neituðu þátttöku í verðkönnunni

Dekkjahöllin, Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, Bílkó og Hjólbarðaþjónusta Magnúsar Selfossi neituðu þátttöku í verðkönnun verðlagseftirlitsins. Lokað var hjá Umfelgun á Norðurhellu 8 í Garðabæ.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15 og 16´´ á 36 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ