Á að markaðsvæða stéttarfélögin?
Fundur trúnaðarráðs Bárunnar, stéttarfélags sem haldinn var 24.10 2022 fordæmir frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði, lagt fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, annarra en ráðherra og forseta þingsins. Trúnaðarráði þykir furðu sæta í byrjun kjarasamningsviðræðna að fá þessa köldu gusu framan í launafólk.
Gildissvið frumvarpsins er allur vinnumarkaðurinn, og er því frumvarpinu ætlað að ná til bæði almenns og opinbers vinnumarkaðs.
Yfirlýst markmið frumvarpsins er að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði, nánar tiltekið neikvætt félagafrelsi, þar sem stéttarfélög eiga að vera á „félagsmannaveiðum“ .
Tilgangur stéttarfélaganna er að sameina launafólk, vinna að sameiginlegum hagsmunum launafólks, gæta réttar launafólks í hvívetna og vinna að fræðslu og menningarmálum.
Næði þetta frumvarp fram að ganga yrði það gróf aðför að launafólki, starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðsmódelinu sem hefur verið góð sátt um á Íslandi og aðrar þjóðir hafa horft til með virðingu.
Báran, stéttarfélags skorar á þingheim að hafna slíkri aðför að launafólki og minnir á að launafólk eru kjósendur þeirra.
Selfossi 25.10 2022
f.h. Trúnaðarráðs Bárunnar, stéttarfélags
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður.