Við vinnum fyrir þig

Translate to

A4 oftast með lægstu verðin á skiptibókamarkaði

A4 er oftast með lægstu verðin á notuðum námsbókum fyrir framhaldsskólanema samkvæmt nýrri
könnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 15. ágúst. A4 var með
lægstu verðin í 23 tilfellum af 42, Penninn Eymundsson í 12 tilvikum og Heimkaup.is í 6 tilvikum.
Mikill verðmunur er á nýjum og notuðum bókum og geta framhaldsskólanemendur sparað sér
skildinginn með því að taka notað fram yfir nýtt. Verðlagseftirlitið getur ekki birt innkaupsverð
skiptibókamarkaðanna á notuðum bókum eins og það hefur gert undanfarin ár og skoðað mun á
innkaupsverði og útsöluverði þar sem þau eru ekki lengur aðgengileg almenningi. Þetta gerir
samanburð á innkaupsverði milli skiptibókamarkaða erfiðan og hamlar eðlilegri samkeppni.
Algengur verðmunur á notuðum bókum í kringum 1.000 kr.
A4 eru oftast með lægstu verðin á skiptibókamarkaði, í 23 tilfellum af 42. Verðin voru í raun enn
lægri daginn sem könnunin var framkvæmd en 25% afsláttur var af öllum vörum þann dag, þ.a.m.
bókum. Penninn Eymundsson eru næst oftast með lægstu verðin eða í 12 tilvikum og Heimkaup.is
sjaldnast eða í 6 tilvikum. Í mörgum tilfellum er mikill verðmunur á skiptibókamörkuðunum og er
algengt að verðmunur sé á bilinu 20-50% eða í kringum 1.000 kr. Mestur var verðmunurinn á bókinni
Þjálfun, heilsa og vellíðan, eða 190% eða 2.950 kr. Lægsta verðið mátti finna í A4, 1.549 kr. en það
hæsta í Pennanum Eymundsson 4.499 kr. Mesta úrvalið af notuðum námsbókum var í A4 en þar
mátti finna alla þá titla sem til skoðunar voru eða 41. Í Pennanum mátti finna 37 titla af 41 en
einungis 11 á Heimkaup.is.
Mikill verðmunur á nýjum og notuðum bókum
Það borgar sig fyrir framhaldsskólanemendur að kaupa notaðar námsbækur sé það mögulegt en
algengt var að yfir 100% verðmunur sé á nýjum og notuðum bókum. Sem dæmi má taka verðmun á bókinni Almenn Jarðfræði en 112% munur er á nýrri og notaðri slíkri bók í Pennanum Eymundsson.
Verðmunurinn var enn meiri á sömu bók í A4 eða 144%. Í Heimkaup má nefna að 166% verðmunur
var á Stærðfræði 3000 en ný bók kostaði 5.290 kr. en notuð 1.990 kr.
Innkaupsverð á notuðum bókum ekki lengur aðgengileg almenningi
Skiptibókamarkaðir reiða sig á að almenningur komi með bækur sem eru ekki lengur í notkun og fái
borgað fyrir þær. Skiptibókamarkaðirnir sjá síðan um að selja þær aftur til neytenda þannig að allir
aðilar fá eitthvað fyrir sinn snúð. Misjafnt er þó hversu mikið skiptibókamarkaðirnir borga fyrir
notaðar bækur og hversu mikið þeir selja bækurnar síðan á. Hingað til hafa þeir sem hafa haft í
hyggju að selja notuðu bækurnar sínar geta séð hvað skiptibókamarkaðarnir borga fyrir bækurnar,
annaðhvort á vefsíðum verslananna eða á listum í verslununum. Þessar upplýsingar eru ekki lengur
aðgengilegar almenningi, hvorki á vefsíðum verslananna né í verslununum sjálfum. Þetta gerir að
verkum að erfiðara er fyrir almenning að gera samanburð á innkaupsverði skiptibókamarkaðanna
sem dregur úr eðlilegri samkeppni og minnkar gagnsæi á markaði. Verðlagseftirlitið getur því ekki
birt innkaupsverð á notuðum námsbókum eða fundið út mun á innkaupsverði og útsöluverði og
skoða álagningu verslananna eins og hefur verið gert undanfarin ár.
Verð var kannað í eftirtöldum verslunum: A4, Pennanum-Eymundsson og Heimkaup.is. Rétt er að
taka fram að ástand notaðra bóka getur verið mjög misjafnt. Hér er aðeins um beinan
verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Einnig má taka
fram að verð breytist mjög ört á þessum tíma í verslunum landsins vegna tíðra verðbreytinga og
ýmiskonar tilboða.
Frétt tekin af heimasíðu ASÍ