Aðgerðir ríkissstjórnarinnar
Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir í 11 liðum til að greiða fyrir kjarasamningum en stefnt er að undirritun samninga Starfsgreinasambandsins, Flóabandalagsins og verslunarmannafélaganna við SA milli klukkan 14 og 15 í dag. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er svohljóðandi:
Aðgerðir í 11 liðum vegna kjarasamninga
- Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
- Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
- Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
- Komið til móts viðefnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð
Aukið samstarf við aðila vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs
Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru í 11 liðum og lúta að ýmsum sviðum skatta- og velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Mikilvæg forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að kjarasamningar á almennum og opinberum markaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka mið af því að í fyrirhuguðum samningum á almennum vinnumarkaði er hugað sérstaklega að þeim tekjulægstu og að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund krónur á samningstímanum.
Ríkisstjórnin mun meðal annars beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem munu leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa. Sem dæmi má nefna að ráðstöfunartekjur um 65% fullvinnandi launamanna munu aukast um 50 þúsund eða meira á ári og ráðstöfunartekjur launþega með meðaltekjur munu aukast um tæpar 100 þúsund á ári. Breytingarnar munu einnig leiða til einföldunar tekjuskattkerfisins og aukins gagnsæis og skilvirkni, en skattþrepum verður fækkað úr þremur í tvö. Þá mun persónuafsláttur hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.
Með aðgerðunum mun heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga því nema um allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015.
Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19.
Einnig verði stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verði hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verði komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum.
Í því skyni að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna að stofna sérstakt þjóðhagsráð þar sem aðild eigi oddvitar ríkisstjórnar og fulltrúar Seðlabankans, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.
Aðrar aðgerðir lúta að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu tolla á fatnað og skó, lækkun á kostnaði sjúklinga, auknum framlögum til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, átaki gegn skattaundanskotum, einföldun og endurskoðun regluverks og eftirlits með atvinnustarfsemi, stefnumörkun í opinberum fjármálum og samstarfi um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulag vinnumarkaðsmála.
Tekið af heimasíðu SGS