Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ætlar ríkisstjórnin að neyða ASÍ til að segja upp kjarasamningum?

Skömmu fyrir helgi óskaði forysta ASÍ eftir fundi með formönnum stjórnarflokkanna, formönnum þingflokka stjórnarflokkanna og formönnum og varaformönnum Fjárlaganefndar og Efnahags og viðskiptanefndar. Fundað var á  föstudag. Á þessum fundum var ábyrgðarmönnum stjórnarflokkanna gerð grein fyrir þeirra stöðu sem upp gæti komið við endurskoðun kjarasamninga í janúar nk. verði áform ríkisstjórnarinnar um takmarkaða hækkun bóta almannatrygginga og sérstakar álögur á lífeyrissjóðina samþykktar á Alþingi.

Eitt af meginmarkmiðum þeirra kjarasamninga sem gerðir voru milli ASÍ og SA í maí sl. var jöfnun lífeyrisréttinda. Samninganefnd ASÍ taldi sig ná samningi um þrjú mikilvæg og markviss skref í átt til meiri jafnræðis í lífeyrismálum en verið hefur.

Í fyrsta lagi hækkun á mótframlögum atvinnurekenda í áföngum upp að núverandi framlagi ríkisins vegna ríkisstarfsmanna. Í öðru lagi að staðinn verði vörður um lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði með því að bætur almannatrygginga (og atvinnuleysisbóta) hækki með hliðstæðum hætti og hækkun lægstu launa. Í þriðja lagi að fundin verði leið til þess að jafna áunninn lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði upp á við vegna afleiðinga fjármálahrunsins.

Áform ríkisstjórnarinnar um að skerða hækkun bóta almannatrygginga (og atvinnuleysistrygginga) og álögur á lífeyrissjóðina til að fjármagna umboðsmann skuldara, sérstakar vaxtabætur og almenna skattlagningu á launakostnað lífeyrissjóðanna eru klárt brot á þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga og þeim forsendum sem þeir byggja á. Verði þau að veruleika munu lífeyrissjóðir almenns launafólks þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðsfélaga og auka þar með enn frekar á þann mun sem á lífeyrisréttindum milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin að almennt launafólk, einkum það sem verið hefur í aðildarfélögum Alþýðusambandsins og komið er á eftirlaun eða hefur misst starfsgetuna, eigi að greiða þennan reikning? Við því hafa ekki fengist nein svör. Á hinn bóginn setur þessi atlaga Alþýðusambandið óneitanlega í þá stöðu að setja upp sterkar varnir gegn þessum áformum.

Tekið af heimasíðu ASÍ