Af hverju er greitt í stéttarfélag?
Það gætir ákveðins misskilnings á almennum vinnumarkaði um það hvort hægt sé að sleppa greiðslu iðgjalda í stéttarfélag eða hvort velja megi stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamnninga.
Samkvæmt lögum nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags sem gert hefur kjarasamning um störf hans. Atvinnurekanda er einnig skv. lögunum skylt að skila til stéttarfélagsins gjöldum í fræðslusjóð, sjúkrasjóð og orlofssjóð.
Má velja í hvaða stéttarfélag er greitt?
Það sem ræður stéttarfélagsaðild er starfsgreinin sem starfsmaður starfar í og það félagssvæði sem hann starfar á. Stéttarfélög gera kjarasamninga um ákveðnar starfsgreinar. Greitt er af starfsmanni til þess félags sem félagssvæðið tilheyrir og gerir kjarasamning um það starf sem starfsmaður sinnir.
Getur atvinnurekandinn ákveðið í hvaða félag ég greiði?
Atvinnurekanda ber að fara eftir þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði og getur ekki ákveðið fyrir hönd starfsmanna til hvaða félags á að greiða iðgjöldin. Ef tvö félög eða fleiri hafa gert kjarasamning um sömu störf á sama félagssvæði skal starfsmaðurinn velja félag við gerð ráðningarsamning.