Við vinnum fyrir þig

Translate to

Afmælisboð ASÍ á Árbæjarsafni 28. ágúst 2016 kl. 13-16

Alþýðusamband Íslands fagnar 100 ára afmæli í ár og einn liður í að minnast þeirra tímamóta er afmælisboð ASÍ í Árbæjarsafni í Reykjavík þann 28. ágúst nk. Alþýðusambandið býður upp á fjölbreytta dagskrá í safninu sem bregður birtu á aðstæður og aðbúnað íslensks verkafólks á síðustu öld. Boðið verður upp á leiðsagnir, ratleik, þvottaburð, kassabílaakstur auk þess sem börnin fá stutta ferð á hestbaki. Leikhópurinn Lotta mætir með söngvasyrpu, þorskur verður þurrkaður á túni, Lummur bakaðar í Hábæ, prentari, skósmiður og gullsmiður taka á móti gestum á verkstæðum sínum og Lúðrasveit verkalýðsins gleður gesti með spilamennsku sinni.


Kl. 13:00 – Baráttan um brauðið (leiðsögn)
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ og fimm barna móðir
Skoðuð verða áhrif þeirrar lífskjarabyltingar sem barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað undanfarna öld á neysluhætti almennings. Hagstærðir fortíðar settar í samhengi við nútímann.

Kl. 13:30 Lúðrasveit verkalýðsins

Kl. 14:00 – Hjáverk kvenna (leiðsögn)
Maríanna Traustadóttir, mannfræðingur og jafnréttisfulltrúi ASÍ:
Varpað verður ljósi á frumkvæði og hugmyndarauðgi kvenna við atvinnusköpun á síðustu öld. Með tekjuöflun sinni náðu þær að skapa betri aðstæður fyrir sig og sína.

Kl. 14:30 Leikhópurinn Lotta – söngvasyrpa, knús og spjall

Kl. 15:00 – Þak yfir höfuð (leiðsögn)
Halldór Grönvold, vinnumarkaðsfræðingur og áhugamaður um verkalýðssögu:
Varpað verður ljósi á húsnæðisvanda verkafólks síðustu hundrað ár. Birtingarmyndir, þróunina og baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði.

Aðgangur er ókeypis.