Ágæt mæting á aðalfund Bárunnar
Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn 16. maí sl. Á fundinum var farið yfir störf félagsins á síðasta ári í skýrslu stjórnar og kynntur ársreikningur félagsins. Á fundinum var kosið til hluta stjórnar og í nefndir félagsins til næsta aðalfundar. Samþykktar voru breytingar á lögum félagsins um stjórnarkjör.
Töluverðar breytingar urðu á stjórn félagsins. Þrír stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu, þau Jóhannes Kjartansson, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Steingrímur Jónsson. Öll hafa þau sinnt verkalýðsbaráttu í mörg ár og er mikil eftirsjá að þeim. Báran, stéttarfélag þakkar þeim fyrir vel unnin störf í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar.
Einnig voru breytingar samþykktar á reglugerð sjúkrasjóðsfélagsins. Bætt var inn nýjum lið, 14.5 og er markmiðið með breytingunni að vekja athygli sjóðsfélaga sem hafa verið frá vinnu vegna slysa eða veikinda á starfsemi Virk, starfsendurhæfingar og hvetja þá til að hafa samband við Virk.
Kynntar voru hugmyndir um að sjúkrasjóður kaupi íbúð fyrir félagsmenn sem þurfa að leita læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og dvelja um lengri tíma.