Allt að 35% verðmunur á páskaeggjum
Algengast er að 20-30% verðmunur sé á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum milli matvöruverslana að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem Verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Bónus var oftast með lægsta verðið á þeim eggjum sem skoðuð voru en Samkaup-Úrval og Iceland voru oftast með hæsta verðið. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Iceland og Fjarðarkaupum en fæst í Kosti og Nóatúni.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 19 af þeim 27 tegundum páskaeggja sem kannað var verð á. Af þeim 18 tegundum eggja í könnuninni sem unnt var að bera saman verð á milli Bónuss og Krónunnar reyndist einungis 1 krónu verðmunur á verslunum tveimur í 11 tilvikum og innan við 10 króna verðmunur í 15 tilvikum.
Hæsta verðið í könnuninni var oftast í Samkaupum-Úrvali eða á 10 páskaeggjum af 27 og í Iceland sem reynst 8 sinnum með hæsta verðið.
Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Iceland sem átti öll eggin sem skoðuð voru, í Fjarðarkaupum voru 26 af 27 tegundum fáanlegar og í Hagkaupum 25 tegundir. Fæst eggjanna voru fáanleg í Kosti eða 5 talsins en af þeim tegundum sem könnunin náði til voru aðeins fáanleg egg frá Góu í Kosti. Í Nóatúni voru 12 af þeim 27 eggjum sem skoðuð voru fáanleg.
Oftast var 20-30% munur á hæsta og lægsta verði páskaeggjanna í könnuninni. Sem dæmi má nefna að 25% verðmunur var á 320 gr. páskaeggi nr. 4 frá Nóa Síríus sem var ódýrast á 1.279 kr. í Bónus en dýrast á 1.598 kr. í Samkaupum–Úrvali, en það er 319 kr. verðmunur. Þá var 35% verðmunur á 250 gr. páskaeggi nr. 4 frá Freyju sem var ódýrast á 995 kr. í Krónunni en dýrast á 1.346 kr. í Iceland sem er 351 krónu verðmunur. Minnstur verðmunur í könnuninni var á Góu páskaeggi nr. 6 sem var ódýrasta á 1.549 kr. í Kosti en dýrast á kr. 1.799 í Nettó sem er 16% verðmunur.
Sjá nánar niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ
Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.
Könnunin var gerð í samtímis í eftirfarandi verslunum þriðjudaginn 19. mars: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Fjarðarkaupum, og Samkaup-Úrvali. Vegna þeirra þeirra afstöðu verslana Kosts, Nóatúns og Víðis að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins á dyr voru verð tekin í þeim verslunum miðvikudaginn 20. mars.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Tekið af heimasíðu ASÍ