Við vinnum fyrir þig

Translate to

Allt að 57% verðmunur á páskaeggjum

Mikill verðmunur var á páskaeggjum og páskamat þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum þann 20. mars síðastliðinn. Ódýrustu páskaeggin var langoftast að finna í Bónus eða í 28 tilfellum af 32 á meðan Hagkaup var oftast með dýrustu páskaeggin eða í 19 af 32 tilfellum. Lítill verðmunur er í flestum tilfellum á verði páskaeggja milli Krónunnar og Bónus, en í 25 tilfellum af 32 munaði einungis einni krónu á verð milli þessara verslana.

Þegar litið er til matvöru sem gjarnan er á borðum landsmanna á páskum þá reyndist mikill verðmunur vera á kjöti milli verslana en allt að 127% munur var á frosnum kjúklingabringum, 84% á frosnu lambalæri og 52% fersku lambafille. Mikill verðmunur var einnig á ýmsum öðrum vörum í könnuninni eins og ís, grænmeti, brauði og drykkjarvörum.


Oft einnar krónu verðmunur á páskaeggjum milli Bónus og Krónunnar
Mesti verðmunurinn var á páskaeggjum frá Freyju en allt að 57% verðmunur eða 1.240 kr. munur reyndist á Freyju Ríseggi með saltkaramellubragði nr. 9, Freyju Ríseggi nr. 9, Freyju draumaeggi nr. 9 og Freyju draumaeggi með lakkrís nr. 9. Í öllum þessum tilfellum voru páskaeggin ódýrust í Bónus á 2.129 kr. en dýrust í Hagkaup á 3.399 kr.

Ódýrustu páskaeggin var oftast að finna í Bónus eða í 28 tilfellum af 32 á meðan Hagkaup var með dýrustu páskaeggin í 19 tilfellum. Í 25 tilfellum af 32 munaði einungis einni krónu á verði eggjanna í Bónus og Krónunni.

Smellið á myndina til að stækka hana.

Verðmerkingum var talsvert ábótavant í Hagkaup en í 8 tilfellum voru páskaegg þar óverðmerkt. Ekkert af þeim páskaeggjum sem verðlagseftirlitið kannaði verð á var fáanlegt í verslun Víðis í Skeifunni og í Costco.  Í meðfylgjandi töflu má sjá dæmi um mikinn verðmun á páskaeggjum milli verslana.


Allt að 127% verðmunur á kjöti
Mikill verðmunur var á kjöti í könnuninni en 127 % munur var á frosnum kjúklingabringum, lægsta verðið mátti finna í Hagkaupum, 1.189 kr. kg en það hæsta í Víði, 2.698 kr./kg. Þá var mikill verðmunur á fersku lambafille eða allt að 52%. kg. Þrjár verslanir voru með sama og lægsta verðið á lambafille, 4.998 kr. kg. en það voru verslanirnar Kjörbúðin, Nettó og Bónus en hæsta verðið mátti finna í Víði, 6.850 kr./kg. Töluverður verðmunur var einnig á frosnu lambalæri eða allt að 84% sem gera 751 kr., lægst var verðið í Víði, 898 kr./kg en hæst í Hagkaup 1.649 kr./kg.


Hægt að spara sér töluverðar upphæðir við innkaup á mat fyrir hátíðarnar
Mikinn verðmun mátti finna í öllum vöruflokkum í könnuninni og ef verðmunurinn er skoðaður í krónum talið er ljóst að það má spara sér töluverðar upphæðir með því að leita að besta verðinu. Þannig var allt að 431 kr. eða 62% munur á 2l. pakkningu af vanillu Mjúkís frá Kjörís, ódýrastur var hann á 698 kr. í Bónus en dýrastur á 1.129 kr. í Kjörbúðinni. Allt að 800 króna eða 52% munur var á kílóverði af Piknik stráum, hæst var kílóverðið í Hagkaup á 2.349 kr. en lægst í Krónunni, 1.549 kr. Mjög mikill verðmunur var á grænmeti eða allt að 188% á lægsta kílóverðinu af lauk sem var á 75 kr. í Bónus en 216 kr. í Costco. Þá var allt að 401 krónu eða 101% munur kílóverðinu af papriku, lægst var það í Bónus, 398 kr. en hæst í Iceland, 799 krónur. Allt að 87% verðmunur á íslenskum Hornafjarðar kartöflum, lægsta kílóverðið mátti finna í Bónus, 259 kr. en það hæsta í Hagkaup, 485 krónur. Töluverður verðmunur var einnig á brauði en sem dæmi má nefna að 50% verðmunur var á Lífskorni m. tröllahöfrum og chia fræjum, ódýrast var það á 379 kr. í Krónunni en dýrast á 568 kr. í Víði.

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 89 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef að afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Granda, Nettó í Mjódd, Krónan Granda, Hagkaup í Skeifunni, Iceland í Breiðholti, Fjarðarkaup, Víði Skeifunni, Costco og Kjörbúðinni Neskaupsstað.  Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Nánari upplýsingar í frétt á heimasíðu ASÍ