Við vinnum fyrir þig

Translate to

Allt að 83% verðmunur á skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. þriðjudag. Farið var í 8 verslanir og skoðað verð á 33 algengum skólabókum. Enginn bókabúðanna átti allar bækurnar sem skoðaðar voru. En af þeim bókatitlum sem verðkönnunin náði til voru flestir titlarnir til hjá Bókabúðinni Iðnú eða 31 af 33. Griffill og Forlagið Fiskislóð áttu til 28 titla af 33. A4 – Office 1 og Bóksala stúdenta áttu til 27 titla og Eymundsson 25.  

A4 – Office 1 var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 15 titlar af 33 voru ódýrastir hjá þeim. Forlagið á Fiskislóð kom þar á eftir með lægsta verðið á 8 titlum og Grifill á 7. Eymundsson í Kringlunni var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 21 af 33.

Mestur verðmunur í könnuninni var á sögubókinni “Nýjir tímar“, en bókin var dýrust á 5.499 kr. hjá  Eymundsson en ódýrust á 2.999 kr. hjá Griffli sem er 2.500 kr. verðmunur eða 83%. Einnig var mikill verðmunur á bókinni „Kemur félagsfræðin mér við“ sem var dýrust á 5.199 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 2.990 kr. hjá A4 – Office 1 sem er 2.209 kr. verðmunur eða 74%.

Minnstur verðmunur var á bókinni “Skyndihjálp og endurlífgun“, en bókin var dýrust á 3.799 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 3.599 kr. hjá Griffli sem var 6% verðmunur. Kennslubókin „Almenn jarðfræði“ var dýrust á 5.910 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 5.299 kr. hjá Griffli sem er 12% verðmunur.

Mikill verðmunur á skiptibókum.

Í þeim þremur verslunum þar sem boðið upp á skiptibókamarkað, var A4 – Office 1 oftast með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum eða á 22 af 23 titlum. Grifill var oftast með hæsta útsöluverðið á notuðum skólabókum eða á 19 titlum, Eymundsson var með hæsta verðið á 13, en verslunin átti aðeins til 18 titla af 23 af notuðum skólabókum þegar könnunin var gerð. Í þriðjungi tilvika er sama útsöluverð á notuðum bókum, sem voru bæði til hjá Griffli og Eymundsson þrátt fyrir að verslanirnar tvær séu ekki að greiða sama innkaupsverð. Hægt er að nota innleggsnótur frá Eymundsson hjá Griffli. Munur á álagningu skiptibókamarkaðanna var í flestum tilvikum mikill eða um og yfir 50%.

Sjá nánari niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Hringbraut, Eymundsson Kringlunni, A4-Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni, A4 – Office 1 Skeifunni og Griffli Skeifunni. Mál og menning Laugavegi neitaði þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ