Allt að 9.500 kr. verðmunur á legokassa
Mjög mikill verðmunur er á leikföngum og spilum á milli verslana en í mörgum tilfellum hleypur hann á nokkur þúsund krónum. Í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 6. desember kemur fram allt að 98% verðmunur á leikföngum og allt að 100% verðmunur á spilum.
Mesti verðmunur á leikföngum í krónum talið var 9.500 kr. (95%) verðmunur á Lego City lögreglustöð, hæst var verðið í Hagkaup, 19.499 kr. en lægst var verðið í Toys‘r us, 9.999 krónur. Mesti verðmunur á spilum var 100% verðmunur á Sequence, lægst var verðið í Nexus, 3.495 kr. en hæst í Toys‘r us, 6.999 kr. sem gerir 3.504 kr. verðmun. Toys‘r us var oftast með lægsta verðið á leikföngum en Heimkaup oftast með það hæsta. Heimkaup var einnig oftast með hæsta verðið á spilum.
Hægt er að spara háar fjárhæðir með því að gera samanburð á verslunum áður en leikföng og spil eru keypt. Flestar verslanir í könnuninni eru með netverslanir þar sem hægt er að sjá hvað vörurnar kosta. Þá geta verð breyst hratt en sumar verslanir eru með tilboð á vörum á þessum árstíma og skiptir því enn meira máli að gera samanburð milli verslana áður en haldið er af stað í jólagjafainnkaup.
Mörg þúsund króna munur á mörgum leikföngum
Mesti verðmunur á leikföngum í krónum talið var 9.500 kr. (95%) verðmunur á Lego City lögreglustöð eins og fyrr segir. Þar var verðið hæst í Hagkaup en lægst var verðið í Toys‘r us. Mesti verðmunur í prósentum var 98% verðmunur á Lego dublo hesthúsi eða 5.378 kr., lægst var verðið í Toys‘r us, 5.490 kr. en hæst hjá Heimkaupum, 10.868 kr. Þá var 6.865 kr. eða 59% verðmunur á Lego City slökkviliðsstöð, lægst var verðið í Toy‘s r us á 11.625 en hæst hjá Heimkaup, 18.490 kr.
Mikill verðmunur var á litlum Hvolpasveitarböngsum, 83% eða 1.991 kr. en hæsta verðið var hjá Heimkaup, 7.390 kr. en það lægsta hjá Hagkaup, 2.399 kr.
Heimkaup var oftast með hæsta verðið á leikföngum í könnuninni eða í 13 skipti af 32, sem vekur athygli fyrir þær sakir að Heimkaup er netverslun og því takmarkaða yfirbyggingu. Toys‘ r us var oftast með lægsta verðið eða í 13 skipti af 32.
Heimkaup oftast með hæstu verðin á spilum
Mesti verðmunur á spilum var 100% verðmunur á Sequence, lægst var verðið í Nexus en hæst í Toys‘r us. Mikill verðmunur var á Monopoly en hæsta verðið var í Heimkaup, 7.890 kr. en það lægsta hjá Nexus, 4.495 kr. Þá var 75% verðmunur á Cortex Challenge 2, hæsta verðið var hjá Heimkaup 3.490 kr. en það lægsta hjá Nexus, 1.995 kr. Oftast var yfir 30% verðmunur á borðspilum og oftast um 1.000 kr. – 2.000 kr. verðmunur. Heimkaup var oftast með hæsta verðið á spilum eða í 9 skiptum af 21 og aldrei með það lægsta en lægstu verðin dreifðust annars á milli verslananna.
Um könnunina
Í könnuninni var verð á 32 leikföngum og 21 spili skráð niður. Ef afsláttur var gefinn upp af verði var hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru; Heimkaup, Toy‘s r us, Hagkaup, Elko, Spilavinir, Nexus og A4.
Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekki lagt mat á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana. Einhverjar verslanir bjóða t.d. upp á heimsendingu með sínum vörum en ekki er tekið tillit til þess í könnuninni. Sum leikfanganna og spilanna voru einungis fáanleg á tveimur stöðum enda fáir staðir með mikið eða sama úrval af leikföngum og spilum.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.