Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktanir samþykktar á stofnþingi ASÍ-UNG

Stofnþing ASÍ-UNG ályktaði um nokkur mál sem brenna á ungu fólki í dag eins og svo oft áður. Þetta eru menntamál, húsnæðismál, jafnréttismál og fjölskyldumál.

Ályktun ASÍ-UNG um fjölskyldu- og jafnréttismál

ASÍ-UNG telur mikilvægt að öll börn hafi sömu tækifæri óháð aðstæðum fjölskyldna. Börn hafi gott aðgengi að tómstundum og heitum, næringarríkum máltíðum. ASÍ-UNG telur nauðsynlegt að tannlæknaþjónusta sé hluti af heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþátttaka í samræmi við það. ASÍ-UNG vill draga úr tekjutengingu barnabóta og minnka mun á fjárhagsstuðningi milli einstæðra foreldra og hjóna/sambúðarfólks.

ASÍ-UNG vill útrýma launamun kynjanna og leggur ríka áherslu á að tryggja fæðingarorlofsréttindi og endurheimta þær skerðingar sem orðið hafa á síðustu misserum.

———–

Ályktun ASÍ-UNG um menntamál

Stofnþing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess að auka fjölbreytni og aðsókn í iðn- og starfsnám ásamt því að stuðla að hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu gagnvart iðn- og starfsnámi og efla þarf raunfærnimat.Einnig telur ASÍ-UNG að kynna þurfi og efla starfsnám í grunnskólum.Sérstaklega er þörf á viðhorfsbreytingu á námi tengdu fiskvinnslu og sjávarútvegi.

ASÍ-UNG telur að skoða þurfi lengingu á skyldunámi um tvö ár þ.e. til 18 ára aldurs.Auka þarf framboð á námi með vinnu þ.e. fjarnám eða kvöldskóla og gera aðgengilegt fyrir alla um allt land.ASÍ-UNGvill hvetja skóla og kennara til þess að nýta síðustu daga skólaársins á vorin til þess að sýna nemendum hvaða atvinnumöguleikar eru í boði á hverju landsvæði og jafnvel fá nemendur til þess að prófa sjálf ýmis handtök.

ASÍ-UNG skorar á stjórnvöld til að fylgja eftir markmiðum í áætlun Ísland 2020 að gefa fólki annað tækifæri til náms með því aðauka aðgengi að styrkjum, námslánum ásamt möguleikum á greiðslum úr fræðslusjóðum á meðan á námi stendur.

ASÍ-UNG telur mikilvægt að breyta þurfi ásýnd verkalýðshreyfingarinnar,verkalýðsfélög eru ekki bara sumarbústaðir og íþróttastyrkir.Gera þarf ungu fólki grein fyrir mikilvægi starfsins sem fer þar fram og efla þarf fræðslu ungs fólks um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.Fá atvinnurekendur og mennta- og menningarmálaráðuneytið með í að útbúa fræðsluefni til ungs launafólks um vinnumarkaðinn.

Það er ekki púkó að vera í stéttarfélagi.

————

Ályktun ASÍ-UNG um húsnæðismál

ASÍ-UNG krefst þess að valkostum á húsnæðismarkaði sé fjölgað t.d með auknu framboði á leigu-og kaupleiguhúsnæði. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum. Draga þarf úr tekjutengingu í húsaleigubótakerfinu þannig að námsmönnum og ungu launafólki sé tryggður ásættanlegur húsnæðisstuðningur.

Tekið af heimasíðu ASÍ