Ályktun frá stjórn Bárunnar vegna fjárfestingastefnu Festu, lífeyrissjóðs
Báran sendi fulltrúa sína á aðalfund Festu lífeyrissjóðs og tóku þeir virkan þátt í umræðum á fundinum. Eitt helsta hitamálið á fundinum var fjárfestingastefna lífeyrissjóðsins. Allmargir komu upp og töldu óeðlilegt að lífeyrissjóður í eigu láglaunafólks væri að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem firring væri ríkjandi og stjórnendur gerðu launakröfur sem næmu jafnvel nokkrum árslaunum verkafólks.
Stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum upplýsti um að stjórn Festu hefðu komið sér saman um hluthafastefnu þar sem tekið væri á þessum málum. Einnig steig formaður stjórnar í pontu og lýsti því yfir skýrt og skorinort að auðvitað ætti Festa lífeyrissjóðs ekki að taka þátt í svoleiðis rugli, svo notuð séu hans eigin orð.
Í framhaldi af þessum aðalfundi sendi stjórn Bárunnar frá sér eftirfarandi ályktun:
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags vekur athygli á og fagnar nýrri hlutafélagastefnu sem stjórn Festu lífeyrissjóðs kynnti á aðalfundi 13. maí síðastliðinn.
Í hlutafélagastefnunni kemur skýrt fram að Festa lífeyrissjóður mun ekki fjárfesta í né leggja fé til þeirra fyrirtækja þar sem rekin er ofurlaunastefna eða bónusgreiðslur til stjórnenda.
Í hluthafastefnunni kemur fram að Festa lífeyrissjóður geri kröfu til að fyrirtæki, sem sjóðurinn fjárfesti í, sýni ábyrgð gagnvart samfélagslegum gildum og að starfskjör stjórnenda séu í hófi og séu í samræmi við þau starfskjör sem almennt séu í boði á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á.
Stjórn Bárunnar fagnar einnig orðum stjórnarformanns á aðalfundinum þar sem skýrt kom fram að ekki stæði til að taka þátt í þeirri firringu sem ríkir meðal stjórnenda sumra fyrirtækja um leið og almennum starfsmönnum er neitað um sómasamleg laun.
Stjórn Bárunnar stéttarfélags álítur til að með þessu hafi Festa lífeyrissjóður gengið fram fyrir skjöldu og sýni ábyrgð sem fleiri aðilar sem höndla með almannafé megi taka sér til fyrirmyndar.
Selfossi 21. maí 2013