Ályktun frá stjórn Bárunnar
Báran, stéttarfélag lýsir vanþóknun sinni á því hugarfari sem lýsir sér í flestum þeim aðgerðum stjórnvalda sem snerta almennt launafólk á Íslandi og opinberar, í besta falli algjöra vanþekkingu á kjörum venjulegs fólks.
Það verður ekki lengur við unað að láglaunahópar innan verkalýðshreyfingarinnar beri hitann og þungann af viðreisn efnahagslífsins. Hagsmungæsla stjórnvalda gagnvart þeim efnameiri í formi lækkaðra og niðurfelldra skatta eru stjórnvaldsaðgerðir sem ekki eru til þess fallnar að jafna kjörin.
Almennt launafólk á Íslandi er búið að leggja sitt á vogarskálar efnahagsviðreisnarinnar og hefur borið þær byrðar möglunarlítið meðan ákveðnir hópar samfélagsins hafa komið sér undan því að taka ábyrgð og haldið sínu striki. Ljóst er að nægt fjármagn er til í landinu til að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Um það vitna hagnaðartölur fyrirtækja og hækkandi laun stjórnenda þeirra.
Báran, stéttarfélag hvetur stjórnvöld til að setjast niður til heiðarlegra viðræðna um hvernig skipta má lífsgæðum þessa lands á sanngjarnari hátt en nú er.
Selfossi 19.09 2014
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags á Suðurlandi