Ályktun – Miðstjórn ASÍ krefst þess að lækkun vaxta skili sér til almennings
Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega hækkun vaxtaálags banka og krefst þess að fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum og lægri bankasköttum til neytenda.
Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 2019, Lífskjarasamningunum, var samið um launahækkanir þar sem einkum var hugað að lægstu launum. Samið var um krónutöluhækkanir með það að markmiði að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör almennings í landinu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.
Í kjölfar kjarasamninganna vorið 2019 skapaðist svigrúm til lækkunar vaxta eins og til stóð. Vaxtalækkanir hafa gengið eftir en meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 0,75% og hafa lækkað um 3,75 prósentustig frá byrjun síðasta árs. Fyrir komu kórónuveirunnar til landsins lækkuðu meginvextir Seðlabanka Íslands um 1,75 prósentustig, niður í 2,75%.
Því til viðbótar hafa stjórnvöld forgangsraðað þannig að bankaskattur verði lækkaður. Meginrökin fyrir lækkun skattsins eru þau að hann leiði til hærri vaxta til heimilanna. Með lagasetningu er unnið að lækkun bankaskatts sem nemur 7,7 milljörðum króna í fjórum þrepum á árunum 2020–2023 og ákveðið var að flýta þessari lækkun vegna Covid-19.
Það skýtur því skökku við að bankarnir ákveði við þessar aðstæður að hækka vaxtaálag. Gengur sú aðgerð þvert gegn markmiðum Lífskjarasamningsins og vinnur beinlínis gegn viðspyrnu í kjölfar COVID-kreppunnar. Með þessu taka bankarnir til sín stóran hlut af lækkun vaxta og axla ekki ábyrgð á erfiðum tímum. Á sama tíma eru bankarnir að auka hagnað sinn og eigið fé á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að lækkun vaxta skili sér til almennings og að bankar hverfi frá áformum um hækkun vaxtaálags þegar í stað. Að öðrum kosti þarf að endurskoða nálgun stjórnvalda og hverfa frá áformum um lækkun bankaskatts en beita heldur öðrum aðferðum við að tryggja lága vexti til almennings.