Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun miðstjórnar ASÍ um flóttamannavandann í Evrópu

Miðstjórn ASÍ fundaði í dag og sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Evrópa stendur frammi fyrir flóttamannastraumi af áður óþekktri stærðagráðu. Fólk í þúsunda vís flýr átök í Sýrlandi, Mið-Austurlöndum og Afríku á degi hverjum. Íslenska þjóðin hefur brugðist við fréttum af hörmungum flóttafólksins af hluttekningu og þegar hefur fjöldi fólks boðið fram aðstoð sína við móttöku flóttafólks í neyð. Þessi viðbrögð sýna náungakærleik og hjálpsemi sem er aðdáunarverð.

Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur ríkisstjórnina til að nálgast vandamál flóttafólks í Evrópu af festu og ábyrgð. Ísland getur svo sannarlega tekið við fleiri flóttamönnum en þeim 50 sem þegar hefur verið ákveðið að veita hér hæli.

Mikilvægt er að stjórnvöld standi vel að komu flóttamanna með því að tryggja að þeir sem hingað koma fái sannanlega nýtt tækifæri í nýju landi. Í þessu felst að tryggja þarf fólkinu bæði gott húsnæði og nauðsynlegan samfélagslegan stuðning. Slíkur stuðningur þarf að vera í formi sálfræðiaðstoðar, íslenskukennslu, aðlögunar að íslensku samfélagi, heilbrigðis- og menntakerfi sem og aðlögunar og þekkingar að íslenskum vinnumarkaði til að koma í veg fyrir að á fólkinu verði brotið. Miðstjórn ASÍ lýsir sig reiðubúna til samstarfs um þetta verkefni því verkalýðshreyfingin býr að mikilli þekkingu og reynslu í þeim þáttum sem snúa að vinnumarkaðinum.