Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun miðstjórnar ASÍ um stöðu mála í mjólkuriðnaði

Stjórnvöld hafa í samstarfi við bændur og afurðastöðvar gert miklar breytingar á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar. Það hefur löngum verið skoðun miðstjórnar ASÍ að núverandi fyrirkomulag í mjólkuriðnaði sé hvorki besta leiðin til að bæta hag neytenda né að það skapi næga hvata fyrir framleiðendur til þess að auka samkeppnishæfni, framleiðni og lækka vöruverð. Þvert á móti hefur núverandi fyrirkomulag komið í veg fyrir að virkja þá hvata sem leiða til heilbrigðrar samkeppni sem kemur öllum til góðs. Nýleg dæmi, þar sem MS hefur kerfisbundið komið í veg fyrir innkomu nýrra aðila á markað gert stórum aðilum kleift að nýta, og í mörgum tilfellum misnota, sér markaðsráðandi stöðu til að koma í veg fyrir samkeppni.

 

Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað ályktað að aukinn innflutningur landbúnaðarvara, minnkun framleiðslutengdra styrkja og afnám opinberrar verðlagningar geti bæði aukið framleiðni og samkeppnishæfni mjólkuriðnaðar og skilað ábata til framleiðenda og jafnt verið eina vörn sem neytendur hafa gegn þessum einokunartilburðum. Vert er að árétta að þessum sjónarmiðum hélt fulltrúi ASÍ fram árið 2003 í nefnd sem skipuð var af þáverandi landbúnaðarráðherra og hafði það hlutverk að móta nýja stefnu fyrir mjólkurframleiðslu hér á landi. Það voru hins vegar mikil vonbrigði þegar samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu var loks undirritaður í kjölfarið að lítið tillit hafði verið tekið til tillagna mjólkurnefndarinnar. Miðstjórn ASÍ gagnrýndi þetta harðlega á sínum tíma.

Frá þeim tíma hefur mjólkurframleiðsla verið undanþegin samkeppnislögum en Alþingi ákvað í kjölfar gagnrýni ASÍ að viðhalda aðhaldshlutverki Verðlagsnefndar mjólkurframleiðslu, en takmarkaði umboð hennar verulega. Afleiðingin hefur verið veruleg samþjöppun í mjólkuriðnaði á meðan aðhald í formi erlendrar samkeppni hefur verið í lágmarki og í reynd nánast engin. Framleiðni í íslenskum mjólkuriðnaði er lág í alþjóðlegum samanburði og meðalnyt kúa mun lægri hér á landi en í nágrannalöndum.  Segja má að varnaðarorð fulltrúa ASÍ frá nefndarstarfinu árið 2003 hafi orðið að veruleika. Þrátt fyrir að Verðlagsnefnd mjólkurafurða hafi haldið aftur að verðþróun á mjólkurafurðum undanfarin áratug er ljóst að mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir verulegum breytingum bæði hvað varðar stuðning hins opinbera og innra skipulag.  Þannig hafa mjólkurframleiðendur krafist frjálsrar verðmyndunar á hrámjólk til bænda og að dregið verði úr framleiðslustýringu, en samhliða því hefur verið vaxandi óánægja meðal neytenda um meinta einokunartilburði mjólkuriðnaðarins gagnvart nýsköpun í greininni.

Nú er svo komið að miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB hafa sameiginlega lýst því yfir, að samböndin muni hætta allri þátttöku í Verðlagsnefnd mjólkurafurða.  Jafnframt er það krafa miðstjórnar ASÍ að allur mjólkuriðnaðurinn, frá framleiðendum til smásöludreifingar, verði felldur undir ákvæði samkeppnislaga og lúti sömu reglum og önnur atvinnustarfsemi, þmt. ákvæði um takmörkun á áhrifum og umfangi markaðsráðandi aðila.

Tekið af heimasíðu ASÍ