Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega ákvörðun kjararáðs um laun dómara og krefst þess að stjórnvöld setji á hátekjuskatta til þess að stemma stigu við ofurlaunum.

Á fundi kjararáðs þann 17. desember sl. úrskurðaði ráðið um meira en 40% hækkun á launum dómara og verulega hækkun á launum bankastjóra Landsbankans. Þessar launahækkanir eru úr öllum takti við þann veruleika sem þorri launafólks býr við. Miðstjórn ASÍ telur augljóst, að kjararáð sé með þessum úrskurði sínum að taka mið af þeirri ofurlaunaþróun sem átt hefur sér stað hjá stjórnendum fyrirtækja á undanförnum misserum. Þarna er verið að hækka hálaunahópa langt umfram aðra og  almenningur sér augljóslega ekki hvaða sanngirni er í því? Það er eitthvað bogið við samfélag sem hækkar mánaðarlaun hátekjufólks um fleiri hundruð þúsund krónur í einu vetfangi á meðan hluti þjóðarinnar berst í bökkum.

Miðstjórn ASÍ varar einnig við því að með þessum nýjustu hækkunum kjararáðs sé í reynd lagður grunnur að frekari launahækkunum æðstu embættismanna ríkisins. Í næstu lotu verður því væntalega haldið fram, að komin sé skekkja í myndina og forseti, ráðherrar og alþingismenn þurfi ámóta glaðning frá kjararáði.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands áréttar andstöðu sína við þessa þróun ofurlaunanna og vill undirstrika að þróun í kjörum æðstu forystumanna bæði atvinnulífs og á hinum opinbera vettvangi hefur aukið hér launamun og valdið mikilli reiði almenns launafólks. Afleiðingin er að sífellt er verið að endurnýja tilefni deilna og átaka í samfélaginu og lýsir miðstjórn ASÍ þessa aðila ábyrga fyrir afleiðingunum. Jafnframt krefst ASÍ þess að ríkisstjórn og Alþingi  bregðist við með þeim eina hætti sem getur skapað sátt meðal almennings og það er að taka hér upp alvöru hátekjuskatta á ofurlaun.