Ámælisverð vinnubrögð útgerðarmanna
Undanfarna daga hafa nokkrir útgerðarmenn haldið fundi með starfsfólki sínu vegna þeirrar ólögmætu vinnustöðvunar sem LÍÚ boðaði til. Fulltrúum stéttarfélaga hefur verið meinaður aðgangur að þessum fundum þegar þeir ætluðu að gæta að því að ekki væri verið hóta starfsfólki ef það fylgdi ekki útgerðinni að málum. Hafa verður í huga að við núverandi aðstæður á vinnumarkaði hafa starfsmenn engan annann valkost en að taka undir með sínum atvinnurekanda af ótta við hugsanlegar afleiðingar.
Ef þetta eru vinnubrögðin sem tíðkast hjá íslenskum útgerðum um þessar mundir, er gróflega brotið gegn þeim reglum sem gilda um samskipti atvinnurekenda og starfsmanna annars vegar og atvinnurekenda og stéttarfélaga hins vegar. Slík vinnubrögð verða ekki liðin.
Í fjórðu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir:
Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:
a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.
ASÍ telur að framganga útgerðarmanna í þessu máli vinni algerlega gegn því markmiði að ná fram mikilvægum breytingum á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða.