Við vinnum fyrir þig

Translate to

Áróður Seðlabanka Íslands vegna kjarasamninga í hæsta máta ósmekklegur

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags á Selfossi haldinn 9 maí 2011 mótmælir harðlega afskiptum hagfræðings Seðlabanka Íslands af kjaraviðræðum. Fundurinn telur það ekki í verkahring Seðlabankans eða starfsmanna hans að hafa skoðanir með eða á móti óundirrituðum kjarasamningum.

Fundurinn telur að opinber stofnun af þessu tagi eigi að gæta hlutleysis í umfjöllun sinni og láta aðilum vinnumarkaðarins eftir að reka áróður með eða á móti samningum. Söngurinn um lítið svigrúm til launahækkana í aðdraganda kjarasamninga er jafn öruggur og að nótt fylgir degi og textann kann hvert mannsbarn. Betur hefði farið ef Seðlabankinn hefði sinnt eftirlitsskyldu sinni með fjármálafyrirtækjum og bönkum, en um það hafa vaknað margar spurningar á undanförnum misserum.

Félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags er ljóst, eins og landsmönnum öllum, að þessir samningar eru gerðir við erfiðar aðstæður en telur nýgerða samninga ekki síður vera tilraun til að rétta hlut þeirra sem eru á lægstu laununum. Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags spyr Seðlabanka Íslands hvort menn þar á bæ séu ekki „uggandi yfir afkomu þeirra lægst launuðu“

 

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags