ASÍ mótmælir aðgerðum LÍÚ
Eins og komið hefur fram í fréttum hefur LÍÚ boðað að skip í eigu félagsmanna samtakanna muni ekki sigla til veiða í þessari viku. Aðgerðin miðar að því að hafa áhrif á stjórnvöld og Alþingi vegna þeirrar umræðu sem nú á sér stað um lagasetningu varðandi fiskveiðistjórnun og auðlindagjald. Komi þessar hótanir til framkvæmda er um að ræða skýlaust brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem jafnframt getur haf alvarleg áhrif á afkomu þeirra sem starfa við sjávarútveg og fiskvinnslu. Í framangreindu ljósi hefur forsvarsmönnum SA og LÍÚ verið sent skeyti með eftirfarandi texta:
„Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega boðuðum ólögmætum aðgerðum LÍÚ sbr. fréttatilkynningu samtakanna frá 2. júní sl. Aðgerðirnar fela í sér skýrt brot á 17. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og alvarlegt brot á samskiptareglum á vinnumarkaði. ASÍ áskilur sér, aðildarsamtökum sínum og einstaka félagsmönnum, rétt til málshöfðunar til heimtu skaðabóta og sekta komi aðgerðirnar til framkvæmda.“
Jafnfram hefur ríkissáttasemjari verið upplýstur um málið.
————
Í 17. gr laga um stéttarfélög og vinnudeilur 2. tölulið segir:
Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun: Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.
Tekið af heimasíðu ASÍ