Við vinnum fyrir þig

Translate to

Áskorun frá Bárunni stéttarfélagi og Drífanda stéttarfélagi

Báran og Drífandi stéttarfélög mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum á ræstingafólki hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands – HSS. Áunnin réttindi og kjör þeirra starfsmannanna munu rýrna til muna og skapar þeim enn meiri óvissu um framtíðina en er nú þegar í þjóðfélaginu.

Starfsmennirnir hafa undanfarnar vikur verið í framlínu þeirra sem barist hafa við farsóttina á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Störf allra starfsmanna á HSS hefur skilað þeim árangri að ekkert smit hefur greinst á stofnuninni og á ræstingafólkið stóran þátt í þeim árangri.

Þetta eru því kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar, nú er sér fyrir endann á þessum kafla farsóttarinnar. Því miður virðast gömul sannindi vera að raungerast enn og aftur með því að segja upp þeim sem lægst hafa launin ef spara þarf pening, en hlífa þeim sem hæstu launin hafa.

Stéttarfélögin skora á stjórn stofnunarinnar að finna aðrar leiðir til hagræðingar og hætta við fyrirhugaðar uppsagnir.

 

F.h. stéttarfélaganna

Arnar G. Hjaltalín

Formaður Drífanda

 

Halldóra S Sveinsdóttir

Formaður Bárunnar