Við vinnum fyrir þig

Translate to

Atkvæðagreiðsla um verkfall hafin

Á slaginu 08:00 í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla Bárunnar, stéttarfélags, um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins.  Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar.

Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér.  Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.

Að síðustu vill Báran, stéttarfélag eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!