Við vinnum fyrir þig

Translate to

Aukin misskipting

Starfsgreinasambandið telur að margt bendi til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og vísar m.a. til upplýsinga úr álagningaskrám.  Launaskriðið hefur leitað  á gamalkunnar slóðir og  fyrst og fremst í fjármálageirann. Þjóðin siglir því með hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand.  Sjá meðfylgjandi frétt frá Starfsgreinasambandinu:

 

Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði fyrir starfsfólk sem unnið hefur fjóra mánuði eða lengur eru 204.000 krónur á mánuði og eftir skatta og önnur gjöld eru útborguð laun tæplega 168.000 krónur á mánuði. Þó flestir séu á hærri launum þá má fyrir þessa upphæð kaupa vinnuframlag í heilan mánuð og getur það varla talist hátt verð. Í haust verður gengið til samninga um meðal annars lágmarkslaun á vinnumarkaðnum. Í aðdraganda kjarasamninga er ástand einstakra atvinnugreina skoðað, stjórnvaldsaðgerðir og hverju má eiga von á næstu misseri í lagasetningu, laun annarra hópa á vinnumarkaði og svo mætti áfram telja. Kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi heldur í samhengi við aðra þætti og í þá er rýnt þessa dagana.

 

Ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins er sjávarútvegurinn og verður varla annað sagt en að hann sé sterkur nú um mundir. Horfið var frá hækkun veiðigjaldsins, en sú aðgerð er talin hafa sparað sjávarútvegsfyrirtækjum allt að 10 milljarða á fiskveiðiárinu 2013/2014. Stærstu fyrirtækin í greininni eru að skila gríðarlegum hagnaði og fréttir berast af háum arðgreiðslum til hluthafa. Á fleiri sviðum atvinnulífsins gengur vel og það virðist víða vera borð fyrir báru í komandi samningum.

 

Kjararáð ákvað að hækka laun ríkisforstjóra um allt að 20% afturvirkt um eitt ár þar sem þeir höfðu tekið á sig skerðingar eftir hrun. Nú er það svo að almennt starfsfólk fór ekki varhluta af hruninu frekar en forstjórarnir. Margt almennt starfsfólk ríkisstofnana tók á sig meiri vinnu, stóraukið álag og skert starfshlutfall til að mæta niðurskurðarkröfum. Þetta er fólkið á lægstu laununum, í umönnunarstéttum og starfsfólk í ræstingum. Ekkert bólar á aðgerðum til að bjóða þeim sem það kjósa aukið starfshlutfall eða létta álaginu heldur er farin sú leið að leiðrétta laun þeirra hæst launuðu fyrst og fremst. Þó ber að nefna að kvennastéttir á heilbrigðisstofnunum hafa fengið umframhækkanir vegna jafnlaunaátaks en þar hafa stéttir með meiri menntun notið meiri hækkana en lægst launuðu stéttirnar þar sem ekki er krafist menntunar.

 

Ýmislegt bendir til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og við siglum hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand“. Upplýsingar úr álagningaskrám gefa til kynna launaskrið meðal þeirra hæst launuðu og gögn hagstofunnar staðfesta umtalsvert launaskrið innan fjármálageirans síðustu tvö árin. Einhverjir miðlar hafa túlkað það sem svo að laun hafi hækkað á almenna vinnumarkaðnum en þegar betur er að gáð leitar launaskriðið á gamalkunnar slóðir, í fjármálageirann fyrst og fremst.

 

Eftir hrunið vorum við flest sammála um að það væri ýmislegt á okkur leggjandi til að endurreisa samfélagið og við ætluðum að forðast gömul mistök. Í þeim anda tók almennt starfsfólk á sig þyngri byrðar, meira álag og aukin útgjöld auk þess að fara fram með hóflegar kröfur um launahækkanir í kjarasamningum. Það launaskrið sem við verðum vör við um þessar mundir er ekki í takt við þá stemningu sem var í samfélaginu eftir hrun. Það verður ekki lagt á herðar þeirra sem eru með lægstu launin að axla ábyrgð á verðbólgunni á meðan misskiptingin vex óáreitt. Þessu verður haldið til haga þegar komið er að kjaraviðræðum í haust og vetur en aðildarfélög Starfsgreinasambandsins vinna nú kröfugerðir fyrir samningana.