


Frí ársáskrift hjá Tækninám.is / yfir 30 námskeið!
Félagsmönnum aðildarfélaga Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar býðst frír aðgangur að Tækninám.is.
Hvort sem þú ert byrjandi að taka þín fyrstu skref, eða lengra kominn og vilt uppfæra þekkingu þína, þá hefur þú alltaf beint aðgengi að kennurum námskeiða í gegnum fræðslugátt Tækninám.is á netinu. Við vitum að í amstri dagsins verður sífellt erfiðara að tileinka sér nýjungar og tækni. Námskeiðin eru því öll sérhönnuð til þess að hjálpa þér að ná tökum á tækninni á sem einfaldastan hátt og ný námskeið eru í boði á 4-8 vikna fresti.
Ekki missa af tækifærinu og tryggðu þér aðgang sem gildir út árið 2021.
Skráðu þig hér: https://taekninam.teachable.com/p/menntastyrkir
Nánari upplýsingar hjá Tækninám.is, hjá þínu stéttarfélagi og einnig hægt að leita upplýsinga hjá Huldu eða Kristínu á skrifstofu fræðslusjóðanna (s:599-1450).
https://landsmennt.is/landsmennt/fri-arsaskrift-hja-taekninam-is-yfir-30-namskeid/


Lokað er á skrifstofu Bárunnar milli kl.12:30 og 14:15 í dag
Starfsfólk hjá Bárunni stéttarfélagi verður ekki við í dag milli 12:30-14:15 vegna jarðarfarar Halldórs Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ.

Bjarg byggir tvö fjölbýlishús á Selfossi
https://www.sunnlenska.is/frettir/bjarg-byggir-tvo-fjolbylishus-a-selfossi/


Kveðjur frá Bárunni
Fallin er nú frá góður félagi og vinur og okkur hjá Bárunni langar að minnast hans með fátæklegum kveðjuorðum.
Halldór var mikill óþreytandi baráttumaður fyrir réttindum launafólks þó hans bardagar færu flestir fram annarsstaðar en á síðum fjölmiðla. Hann var bæði réttsýnn og sanngjarn en fastur fyrir og rökfastur þegar við átti. Við hjá Bárunni áttum í töluverðum samskiptum við hann gegnum árin og hann starfaði mikið með formanni Bárunnar í mörgum þýðingarmiklum verkefnum innan verkalýðshreyfingarinnar.
Fyrir utan yfirburðaþekkingu sína og reynslu af verkalýðsmálum þá var Halldór gegnheill og góður drengur og auðvelt að láta sér líka við hann, jafnvel þó hann væri á öndverðum meiði við skoðanir þeirra sem ekki höfðu hans reynslu og kunnáttu til að bera og vildu viðra skoðanir sínar. Verkalýðshreyfingin og launafólk á Íslandi horfir á bak einum af sínum bestu drengjum og ötullum talsmanni fyrir bættum og sanngjörnum kjörum. Sérstaklega er vert að nefna framlag Halldórs til bætts eftirlits á vinnumarkaði og með hagsmunum erlends verkafólks en þar er víða pottur brotinn sem kunnugt er.
Við kveðjum Halldór með söknuði og sendum aðstandendum hans okkar dýpstu samúðarkveðjur
Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags.
https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/andlat-halldor-gronvold/

Full fjármögnun námskeiða hjá NTV
Gerður hefur verið samningur við NTV skólann um fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin fjarnámskeið sem boðið verður upp á í samstarfi við aðildarfélög Landsmenntar, , Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar. Félagsmenn aðildarfélaga sjóðanna munu fá námskeið að fullu niðurgreidd.
Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum eða í gegnum sitt stéttarfélag og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna.
Þátttakendur skrá sig á námskeið á slóðinni https://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags
Verkefnið er tilraunaverkefni fram að áramótum og munu námskeiðin hefjast um mánaðarmótin okt/nóv nk. Öll námskeiðin, námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu.
Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri 4 vikur (60 kes.)
App og vefhönnun 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress 4 vikur (50 kes.)
Skrifstofu og tölvufærni 6 vikur (96 kes.)
Nánari lýsingu á námskeiðum má finna með því að smella á slóðina:
https://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

ASÍ hlýtur jafnlaunavottun
Alþýðusamband Íslands hefur hlotið jafnlaunavottun eftir ítarlegt úttektarferli með viðurkenndum vottunaraðila. Meginmarkmið jafnlaunavottunarinnar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Kjarasamningar halda
Lífskjarasamningunum svonefndu sem undirritaðir voru 3. apríl 2019 var ákvæði um sérstaka launa- og forsendunefnd sem hafði það verkefni ,,að leggja mat á forsendur kjarasamningsins og ákvæði hans um hagvaxtarauka og taxtaauka”. Forsendunefndin var skipuð þremur fulltrúum frá samninganefndum félaganna og þremur frá Samtökum atvinnulífsins.
Eins og skýrt hefur komið fram í fréttum töldu fulltrúar ASÍ að ekki væru forsendur til að segja kjarasamningum upp núna, meðan fulltrúar SA reyndu að nota ástandið til að ná fram breytingum á kjarasamningum og þá sérstaklega að fresta samningsbundinni launahækkun sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2021. Ríkisstjórnin kynnti sérstakar aðgerðir til að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þessar aðgerðir m.a. urðu til þess að SA ákvað að lokum að segja ekki upp samningum og reyndar vandséð að þeir hafi haft til þess forsendur eða rétt. Þess má geta að ASÍ hefur sett fram mjög ákveðna gagnrýni á þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Þessi niðurstaða ASÍ og SA þýðir að samningurinn stendur óbreyttur.
Þann 1. janúar 2021 hækka kauptaxtar um 24.000 kr. og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækka um 15.750 kr. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækka lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 351.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2020.
Mikilvægt er að félagsmenn fylgist vel með að umsamdar hækkanir og breytingar skili sér til þeirra með réttum hætti.
Í kjarasamningi SGS við Samband Íslenskra sveitarfélaga eru ákvæði um að ef það verði breytingar á samningum á almennum markaði eða þeim verði sagt upp, sé hægt að segja upp þeim kjarasamningi. Ljóst er að ekki eru forsendur til slíks og koma því hækkanir í þeim samningi einnig til framkvæmda. Það sama gildir um kjarasamning SGS við ríkið.