Við vinnum fyrir þig

Translate to

Tilboð til félagsfólks

NTV skólinn í samstarfi við framkvæmdastjóra fræðslusjóðanna býður einstakt tilboð fyrir félagsfólk aðildarfélaga sjóðanna (innan Starfsgreinasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands). Sjóðirnir eru Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt.

Tilboðið hljóðar upp á verulega lægri námskeiðsgjöld á tilteknum námslínum og félagsfólk getur átt möguleika á 80% endurgreiðslu hjá sínum starfsmenntasjóði. Tilboðið gildir nú í maí og júní.

Ekki láta þetta tækifæri renna hjá án þessa að kynna þér það vel. Námið er starfsmiðað og veitir diplóma fyrir þá sem sækjast eftir slíku og standa sig vel í náminu.  Félagsfólk sem skráir sig núna hefur 6 mánuði til að klára námið eða fram í nóvember/desember.

NTV skólinn gefur sig út fyrir að vera starfsmiðaðar og hagnýtar námsleiðir og hafa skapað mörgum tækifæri til að þróa sig í starfi og skapað sér ný tækifæri.Kynntu þér málið nánar  hér

 

Úthlutun orlofshúsa Bárunnar, stéttarfélags fyrir sumarið 2023

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins í Grýluhrauni 9, við Þverlág 2 og 6 á Flúðum, Borgarbyggð 12

 í Svignaskarði (skiptibústaður) og íbúð á Akureyri (Ásatún 12) til leigu sumarið 2023 fyrir félagsmenn.

Umsóknarfrestur er frá 23. febrúar til 8. mars nk.

Sótt er um á  Orlofssíðu Bárunnar, hægt er að fá aðstoð við umsóknarferlið á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, 800 Selfoss eða í síma 480 5000.

Allir félagsmenn geta sótt um, það er eingöngu punktastaða umsækjenda sem ræður niðurstöðu úthlutunar.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir þann 10. mars nk.

  1. mars kl. 10:00 lýkur greiðslufresti þeirra sem hafa fengið úthlutað. 17. mars kl. 11:00 verða ógreiddar og óúthlutaðar vikur opnar á orlofsvefnum og gildir þá „fyrstur kemur fyrstur fær“.

Öllum umsóknum verður svarað.

Verð á vikudvöl í bústöðunum og fyrir íbúð á Akureyri er 22.000 kr.

Vikuleigan á Flúðum, í Grýluhrauni og Svignaskarði er frá fimmtudegi til fimmtudags.

Vikuleigan á Akureyri er frá miðvikudegi til miðvikudags.

Tímabilin eru:

Þverlág 2 og 6, Grýluhrauni 9, Borgarbyggð 12 –  frá 01.06.2023 til 31.08.2023.

Akureyri, –  frá 31.05.2023 til 30.08.2023.

Íbúðinni í Sóltúni 28, Reykjavík, verður ekki úthlutað heldur verður hún í sveigjanlegri leigu eins og ávallt.

 

Með gæludýr í orlofshús

Á stjórnarfundi Bárunnar voru tekin fyrir erindi félagsmanna varðandi gæludýr í orlofshúsunum. Ákveðið var að leyfa gæludýr í einu húsi Þverlág 2 á Flúðum frá og með 18.11.2022. Þetta verður til reynslu í eitt ár.

Við biðjum gesti um að virða reglur varðandi dýrahald og umgengni húss. Fólki með ofnæmi fyrir dýrum er ráðlagt að fara ekki í þennan bústað.

 

 

Stytting vinnutíma á almennum vinnumarkaði

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir 2019 og 2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög, því ýmsir hópar eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku.

Hjá félagsmönnum innan SGS þarf t.a.m. að gera greinarmun á styttingu vinnutímans hjá annars vegar starfsfólki á almennum vinnumarkaði og hins vegar starfsfólki ríkis og sveitarfélaga.

Hjá starfsfólki á hinum almenna vinnumarkaði var samið um að á grundvelli meirihlutasamþykkis í atkvæðagreiðslu eigi starfsmenn rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma á dagvinnutímabili. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Í viðræðum á að gera tillögur um fyrirkomulag hléa með það að markmiði að ná fram gagnkvæmum ávinningi og bæta nýtingu vinnutíma þar sem því verður við komið. Ef formlegir kaffitímar eru felldir niður á að skipta ávinningi vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma.

Náist samkomulag um niðurfellingu kaffitíma verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna. Fyrirkomulag styttingar virks vinnutíma geta verið útfærð á marga vegu, t.d:
1. Tekin eru sveigjanleg hvíldarhlé frá vinnu, eitt eða fleiri.
2. Hádegishlé lengt.
3. Hver vinnudagur styttur, umsaminn fjöldi vinnudaga
styttur eða einn dagur vikunnar styttur.
4. Styttingu safnað upp í frí heila eða hálfa daga.
5. Blönduð leið.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag, gildistöku og atkvæðagreiðslu samkomulags má finna í 5. kafla kjarasamnings SGS og SA.

Hvað varðar styttingu vinnutímans hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga þá má finna ýtarlegar leiðbeiningar og fræðsluefni á kynningarvefnum betrivinnutimi.is

Veikindadagar á almennum vinnumarkaði teljast í vinnudögum – ekki almanaksdögum

Á síðustu árum hefur ítrekað komið til ágreinings milli ASÍ og SA um hvernig telja skuli veikindadaga. SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.

Deilan hefur aðallega lotið að því hvernig telja skuli úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári þ.e. þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Niðurstaða Félagsdóms var mjög afgerandi og þar segir að leggja verði til grundvallar „… að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi.

Fyrir Félagsdómi var deilt um fleira. Atvik málsins voru þau að starfsmaður hafði samið um að taka sitt fulla starf út með því að vinna lengri vinnudaga og eiga því fleiri frídaga á móti. Í þeim tilvikum segir Félagsdómur að atvinnurekanda geti verið „… heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.“ Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er Félagsdómur ekki að tala um talningu yfirvinnustunda í ávinnslu eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru skv. heimild í kjarasamningum. Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.

Um talningu veikindadaga og dóminn er nánar fjallað á Vinnuréttarvef ASÍ. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir dóminn hefur vinnuréttarvefur SA ekki verið uppfærður og því enn haldið fram að telja skuli almanaksdaga við úttekt.

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/veikindadagar-a-almennum-vinnumarkadi-teljast-i-vinnudogum-ekki-almanaksdogum/