Veikindadagar á almennum vinnumarkaði teljast í vinnudögum – ekki almanaksdögum
Á síðustu árum hefur ítrekað komið til ágreinings milli ASÍ og SA um hvernig telja skuli veikindadaga. SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.
Deilan hefur aðallega lotið að því hvernig telja skuli úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári þ.e. þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Niðurstaða Félagsdóms var mjög afgerandi og þar segir að leggja verði til grundvallar „… að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi.“
Fyrir Félagsdómi var deilt um fleira. Atvik málsins voru þau að starfsmaður hafði samið um að taka sitt fulla starf út með því að vinna lengri vinnudaga og eiga því fleiri frídaga á móti. Í þeim tilvikum segir Félagsdómur að atvinnurekanda geti verið „… heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.“ Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er Félagsdómur ekki að tala um talningu yfirvinnustunda í ávinnslu eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru skv. heimild í kjarasamningum. Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.
Um talningu veikindadaga og dóminn er nánar fjallað á Vinnuréttarvef ASÍ. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir dóminn hefur vinnuréttarvefur SA ekki verið uppfærður og því enn haldið fram að telja skuli almanaksdaga við úttekt.