Halldóra formaður Bárunnar kjörin í nýja stjórn SGS
Á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem lauk fyrr í dag voru samþykkt ný lög sambandsins þar sem umtalsverðar breytingar eru gerðar á stjórnskipulagi, hlutverki og starfsemi sambandsins. Að auk voru samþykktar fjórar nýjar reglugerðir sem er ætlað að styrkja starfsemina, efla upplýsingamiðlun SGS og skilgreina verkaskiptingu milli aðildarfélaganna og sambandsins.
Þetta er niðurstaða mikillar vinnu sem farið hefur fram á vegum sambandsins undanfarna mánuði, en s.l. haust var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins. Tillögur starfshóps sem skipaður var á þingi SGS í október s.l. voru lagðar fram fyrir framhaldsþingið og samþykktar. Tillögurnar breyttust lítillega í meðferðum þingsins. Ein veigamesta breytingin er að vægi formannafunda er aukið og skulu þeir haldnir að lágmarki 3-4 sinnum á ári. Þá er fækkað í framkvæmdastjórn sambandsins úr þrettán í sjö. Björn Snæbjörnsson var kjörinn formaður sambandsins og Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir varaformaður, en þau hafa bæði gengt umræddum embættum frá því vorið 2011. Í nýrri framkvæmdastjórn eru þrjár konur og fjórir karlar.
Ný stjórn er skipuð eftirfarandi einstaklingum:
Formaður: Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja
Varaformaður: Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag
Meðstjórnendur: Aðalsteinn Á. Baldursson, Framsýn stéttarfélag Halldóra Sveinsdóttir, Báran stéttarfélag Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands Sigurður Bessason, Efling stéttarfélag
Varamenn: 1. Sigurrós Kristinsdóttir, Efling Stéttarfélag, 2. Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða 3. Finnbogi Sveinbjörnsson, VerkVest, 4. Vilhjálmur Birgisson, Vlf. Akranes, 5. Magnús S. Magnússn, Vlf. og sjómannafélag Sandgerðis
Starfs- og fjárhagsáætlun samþykkt Á þinginu var lögð fram ný starfsáætlun sambandssins fyrir árin 2012 og 2013 og var hún einróma samþykkt af fulltrúum þingsins. Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö málaflokkar verði settir í forgang hjá skrifstofu sambandsins næstu tvö árin, en þeir snúa að kjaramálum, innra skipulagi, upplýsingamálum og ímynd sambandins, hagræðingu, málefnum útlendinga, fræðslu- og menntamálum og erlendum samskiptum.
Drög að fjárhagsáætlun var jafnframt lögð fram á þinginu og var hún samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri sambandsins. Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir því að skattur á aðildarfélög verði hækkaður á tímabilinu.
Ávarp Björns Snæbjörnssonar sem hann flutti á þinginu fyrr í dag:
Nú erum við komin hér saman til að ákveða framtíð Starfsgreinasambands Íslands. Á sambandsþingi Starfsgreinasambandsins (SGS) þann 13. október 2011 var samþykkt tillaga um sérstakan sjö manna starfshóp, sem var falið að endurskoða hlutverk, starfsemi, stjórnkerfi, rekstur og lög sambandsins.
Í starfshópinn voru skipuð, Aðalsteinn Á Baldursson (Framsýn), Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja), Halldóra S. Sveinsdóttir (Báran), Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl), Kolbeinn Gunnarsson(Hlíf), Kristján Gunnarsson (VSFK) og Sigurður Bessason (Efling).
Að auki störfuðu Kristján Bragason framkvæmdastjóri SGS og Magnús Norðdahl lögmaður ASÍ náið með hópnum.
Á fyrsta fundi starfshópsins var Sigurður Bessason valinn formaður hópsins og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir varaformaður. Starfshópurinn hefur fundað sjö sinnum, þar af var einn sérstakur vinnufundur, einnig hafa átt sér stað fjölmargir óformlegir fundir, samtöl og tölvusamskipti á milli fulltrúa.
Vinna starfshópsins var mjög góð og voru hreinskiptar umræður um skipulag sambandsins. Það er ljóst að skiptar skoðanir voru um ákveðna þætti er snúa að skipulagi, stjórnkerfi og starfsemi SGS, en það kom hins vegar á óvart hversu samstíga menn voru. Það var augljós blæbrigðamunur á skoðunum þeirra sem komu að þessari vinnu, en endalegar tillögur eru niðurstaða hópsins.
Mikill hluti af vinnu starfshópsins fór í að endurskrifa lög Starfsgreinasambandsins, og liggja drög að nýjum lögum fyrir þessu framhaldsþingi.
Að viðbættum breytingum á lögum SGS leggur starfshópurinn fram fjórar nýjar reglugerðir sem snúa að framkvæmd á lögunum og starfsemi sambandsins. Jafnframt leggur starfshópurinn til að ný framkvæmdastjórn, í samvinnu við formenn aðildarfélaga, muni meta hvort þurfi að setja fleiri reglugerðir er snúa að starfsemi sambandsins.
Talsverð umræða var um erlend samskipti og hefur verið tekið saman mjög ítarlegt yfirlit um þau. Mikil umræða var um hvernig megi draga úr kostnaði við þessi samskipti en um leið auka gildi þeirra fyrir okkur.
Ráðist hefur verið í bæði varanlegar og tímabundnar aðgerðir til m.a. að lækka kostnað við erlend samskipti, einnig eru nýjar verklagsreglur varðandi erlend samskipti og stjórnarsetu.
Samhliða vinnu starfshópsins hefur framkvæmdastjóri ráðist í margvíslegar sparnaðaraðgerðir í rekstri SGS t.d. með því að lækka kostnað við húsnæði.
Á framhaldsþinginu verður lögð fram starfs- og fjárhagsáætlun fyrir 2012 og 2013 sem gerir ráð fyrir umtalsverðri lækkun á rekstrarkostnaði SGS og þar af leiðandi minni skattlagningu.
Tillögur starfshópsins voru kynntar ítarlega á fundum með aðildarfélögum víðsvegar um land í mars og apríl sl. Á fundunum og í framhaldi af þeim gafst aðildarfélögunum tækifæri á að koma með athugasemdir við tillögurnar. Almennt var gerður mjög góður rómur að þeim og fáar athugasemdir komu fram. Í framhaldinu fundaði starfshópurinn um ábendingarnar og gerði breytingar í kjölfarið.
Það er þó ljóst að ekki var tekið tillit til allra athugasemda frá aðildarfélögum, enda erfitt að ná samstöðu um alla þætti.
Að lokum leggur starfshópur starfsháttanefndar til að sérstök skoðun verði gerð fyrir þing SGS árið 2013, þar sem lagt verði mat á hvernig til hafi tekist með skipulagsbreytingar og hvort nauðsynlegt sé að ráðast í frekari breytingar fyrir næsta þing.
Nú er það ykkar ágætu félagar að vinna úr þessum tillögum og ákveða hvort það sem gert hefur verið sé eitthvað sem menn eru tilbúnir að samþykkja.
En ég tel að ef þetta gengur eftir þá verðum við með sterkara Starfsgreinasamband, það verður lýðræðislegra með auknu vægi formannafunda sem ég tel vera lykilinn að þeirri sátt sem hefur náðst. Og ekki síst ódýrara fyrir aðildarfélögin.
Ég vona að eftir þetta verði Starfsgreinasamband Íslands enn öflugri málsvari sinna félaga innan Verkalýðshreyfingarinnar heldur en hann var.
Horfum til framtíðar, kæru félagar, með öflugra Starfgreinasamband.
En nú taka Ásgerður og félagar við stjórninni.
Takk fyrir
Tekið af heimasíðu SGS