Við vinnum fyrir þig

Translate to

Báran, stéttarfélag gerir kröfu um eingreiðslu fyrir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum

Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS), ásamt Eflingu stéttarfélagi, átt í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem vinna hjá sveitarfélögum, öðrum en Reykjavíkurborg. Það er skemmst frá því að segja að viðræðurnar hafa gengið bæði hægt og illa.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum, skuli fá greiddar 105.000 kr., m.v. fullt starf,  þann 1. ágúst nk. sem greiðslu inn á væntanlegan samning. Þegar SGS og Efling kröfðust þess að félagsmenn þeirra hjá sveitafélögunum fengju líka umrædda greiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitafélaga með þeim rökum að SGS og Efling væru búin að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Þann 2. júlí sl. sendi Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags bréf til sveitarstjórna á félagssvæðinu til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögunum. Einnig fór félagið fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall. Sent var erindi til allra sveitarfélaga í Árnessýslu utan Ölfuss og Hveragerði. Sveitarfélögin sem um ræðir eru: Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða og Gnúpverjahreppur og Sveitarfélagið Árborg.