Báran stéttarfélag undirbýr launakröfur
Stjórn Bárunnar-stéttarfélags á Selfossi ákvað í gær að kalla samninganefnd félagsins til fundar næstkomandi mánudag, þar sem kröfugerð félagsins verður ákveðin. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar segir að stjórn félagsins og trúnaðarmenn myndi í sameiningu kjararáð.
„Í september efndum við til kjaraþings, þar sem grunnurinn að kröfum félagsins í kjaramálum var lagður. Fundurinn á mánudaginn mun því eðlilega taka mið af áherslum kjaraþingsins, sem var í alla staði vel heppnað. Strax í kjölfar fundarins á mánudaginn verður fullmótuð kröfugerð félagsins send Starfsgreinasambandi Íslands, sem svo leggur fram kröfugerð aðildarfélaga sinna.“
Halldóra Sigríður býst við hörðum kjaraviðræðum, viðhorf atvinnurekenda bendi ótvírætt til þess.
„Ég sé ekki fyrir mér hvernig launþegasamtökin geta staðið upp frá samningaborðinu, nema fá ákveðnar launahækkanir, umfram þær tölur sem Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir. Vinnuveitendur tala um „hóflegar“ hækkanir, en við sjáum nýlega samninga við einstaka greinar, það gengur ekki að láta almennt launafólk sitja eftir. Seðlabankastjóri hefur talað á svipuðum nótum og vinnuveitendur, en ég bendi á að hann situr ekki við samningaborðið. Rík samstaða kennara og lækna skilaði verulegum hækkunum og ég er viss um að samstaða innan okkar raða kemur til með að þrýsta á um réttláta niðurstöðu,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar-stéttarfélags.
Fréttatilkynning/KEP